Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 18:18:50 (5653)

1998-04-21 18:18:50# 122. lþ. 108.17 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[18:18]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka þá skoðun mína að ég sé ekki að þetta sé svo flókið að menn geti ekki gert upp hug sinn á þeim tíma sem eftir lifir af þessu þingi. Ég sé ekki að menn þurfi lengi að velkjast með þetta mál því að mér sýnist þetta vera ofur einföld skráning á upplýsingum. Meðferð upplýsinganna er svo aftur annað mál og þar geta menn auðvitað velt sér upp úr því sem ég kallaði áðan hræðsluáróður um það að einhverjir geri það sem þeir eigi ekki að gera, brjótist inn og fari illa með. En það er bara sama vandamál og við stöndum frammi fyrir mjög víða í þjóðfélaginu. Ef það ætti að hræða okkur frá öllu því sem horfir til framfara í okkar þjóðfélagi að einhver kynni að fara illa með það þá verða einfaldlega engar framfarir.

Og ef menn ætla að eyða endalausum tíma og velta sér upp úr því hvort einhver hagnist á einhverju eða hvort einhver fari illa með, þá miðar okkur ekki neitt. Í mínum huga er þetta einföld skráning á upplýsingum sem geta orðið til mikilla nota fyrir læknavísindin, til stórkostlegra nota, sem getur hjálpað komandi kynslóðum, hjálpað hundruðum og þúsundum manna. Við eigum ekki að tefja slíkt mál. Við eigum ekki að setja það í hugsanlegt uppnám með því að draga það að óþörfu. Það er meðbyr núna og við eigum að grípa þann meðbyr. Við eigum að keyra þetta mál áfram og ef það fer ekki í gegn í vor þá vona ég svo sannarlega að hæstv. heilbrrh. komi með það aftur að hausti. En mér finnst þetta vera þannig mál að við skuldum mannkyninu það að við drífum þetta í gegn sem allra fyrst.