Bæjanöfn

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 19:37:40 (5669)

1998-04-21 19:37:40# 122. lþ. 108.8 fundur 164. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv. 40/1998, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[19:37]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og brtt. frá menntmn. við frv. til laga um breyting á lögum um bæjanöfn o.fl., með síðari breytingum.

Í frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á lögunum að örnefnanefnd fari með ákvörðunarvald um nafngiftir á býlum og nýjum þéttbýliskjörnum. Samkvæmt gildandi lögum hefur menntamálaráðherra farið með ákvörðunarvaldið en örnefnanefnd verið ráðgefandi í því efni. Lagt er til í frumvarpinu að úrskurðir nefndarinnar verði endanlegir á stjórnsýslusviði þannig að þeim verði ekki skotið til æðra stjórnvalds, þ.e. ráðuneytis, til endurskoðunar. Nefndin sjálf á hins vegar að heyra stjórnarfarslega undir menntamálaráðuneyti sem hefur almennt eftirlit með starfi hennar. Samráð var haft við umhverfisráðuneyti og fulltrúa Landmælinga Íslands varðandi þann þátt frumvarpsins er snýr að úrskurðarvaldi um hvaða örnefni verða sett á opinber landabréf.

Menntamálanefnd komst að þeirri niðurstöðu eftir ítarlega umfjöllun að gera þurfi ýmsar breytingar bæði á fyrirliggjandi frumvarpi sem og á lögunum sjálfum.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Helstu efnisbreytingar eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að við 1. efnismgr. 1. gr. bætist að Íslensk málnefnd skuli hafa áheyrnarfulltrúa í örnefnanefnd með tillögurétti og málfrelsi. Samkvæmt 1. og 2. gr. laga um Íslenska málnefnd, nr. 2/1990, er nefndin málræktar- og málverndarstofnun og rekur Íslenska málstöð í samvinnu við Háskóla Íslands. Meginhlutverk nefndarinnar er að vinna að eflingu íslenskrar tungu og varðveislu hennar í ræðu og riti auk þess að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um íslenskt mál. Samkvæmt lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, er samráð við Íslenska málnefnd tryggt með því að málnefndin tilnefnir fulltrúa í mannanafnanefnd. Nefndin telur eðlilegt að svipuð tengsl séu milli örnefnanefndar og málnefndar og því leggur hún til framangreinda breytingu.

2. Lögð er til mikilvæg orðalagsbreyting á upphafsmálslið 2. efnismgr. 1. gr. sem fjallar um starfssvið örnefnanefndar. Þannig á nefndin ekki að fara með ákvörðunarvald um býlanöfn í landinu heldur ber henni að fjalla um nafngiftir býla eftir nánari ákvæðum laganna og getur, ef ástæða er til, gert athugasemdir við nafn býlis. Er í tengslum við þetta atriði lögð til sú grundvallarbreyting að úrskurðum nefndarinnar verði áfram hægt að skjóta til ráðherra með stjórnsýslukæru samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga í stað þess að nefndin fari með endanlegt úrskurðarvald á þessu sviði. Örnefnanefnd hefur því ekki endanlegt ákvörðunarvald um bæjanöfn.

3. Lögð er til sú breyting á 3. gr. að tilkynna skuli örnefnanefnd um nafn á nýbýli utan kaupstaða, kauptúna og þorpa í stað þess að leyfi örnefnanefndar þurfi til að taka upp nafn á nýbýli. Það er mat nefndarinnar að varðveislusjónarmið sem uppi hafa verið, t.d. um breytingar á nafni býlis, eigi ekki við hér. Eðlilegt þykir að hver og einn geti valið nýbýli nafn að vild en að það skuli tilkynnt örnefnanefnd og að hún bregðist aðeins við ef hún telji nafnið ónothæft.

4. Lagt er til að við frumvarpið bætist grein sem umorði 5. gr. laganna í samræmi við breytingu á 4. gr. þeirra.

5. Lögð er til sú breyting á 4. gr. frumvarpsins að úrskurðir skv. 6. gr. laganna verði kæranlegir. Er það í samræmi við þau viðhorf í stjórnsýslurétti að stjórnsýsluúrskurðum eigi almennt að vera unnt að skjóta til æðra stjórnvalds og til samræmis við þá breytingu sem lögð er til á 1. gr. frumvarpsins.

Að síðustu vil ég nefna að lögð er til breyting á 5. gr. frumvarpsins í samræmi við breytingu á 4. og 5. gr. laganna. Menntmn. er einróma í áliti sínu.

Herra forseti. Gildandi lög um bæjanöfn standa á gömlum merg. Þau eru barn síns tíma og mega kallast ströng lagasetning. Á þeim tíma sem lögin voru sett litu menn vísast svo á að ströng löggjöf um þessi efni væri gildur þáttur í verndun íslenskrar tungu. Þær breytingar sem menntmn. leggur til á frv. og lögunum ganga í frjálsræðisátt án þess að í nokkru sé slakað á kröfum um að nafngiftir á býlum séu í fyllsta samræmi við þær venjur sem ráðið hafa hér á landi og lög um bæjanöfn gegna áfram mikilvægu hlutverki í verndun íslenskrar tungu og menningar.