Listskreytingar opinberra bygginga

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 20:10:35 (5678)

1998-04-21 20:10:35# 122. lþ. 108.9 fundur 446. mál: #A listskreytingar opinberra bygginga# (heildarlög) frv. 46/1998, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[20:10]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um listskreytingar opinberra bygginga og Listskreytingasjóð ríkisins frá menntmn.

Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja framkvæmd þeirrar meginreglu að listskreyting sé þáttur í hverri byggingu sem reist er á vegum ríkisins með því að lögbinda að 1% af heildarkostnaði við bygginguna skuli varið í þessu skyni og verður það á ábyrgð þeirra sem forræði hafa um hverja byggingarframkvæmd að lagaskyldu í þessu efni sé framfylgt en leita skal faglegrar ráðgjafar um listskreytinguna.

Hlutverk Listskreytingasjóðs ríkisins að því er fjárframlög til listskreytinga varðar verður samkvæmt frumvarpinu bundið við opinberar byggingar sem þegar eru fullbyggðar við lögfestingu þessa frumvarps, umhverfi þeirra og önnur útisvæði sem ríkið hefur forræði á. Þá á stjórn sjóðsins að vera til ráðgjafar um listskreytingu í þeim mannvirkjum sem frumvarpið tekur til.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákveðnir fjármunir renni milliliðalaust til listskreytingar í hverri nýrri byggingu sem ríkið stendur að en jafnframt leitast við að tryggja faglegan grundvöll ákvarðana um það viðfangsefni eins og aðra þætti byggingarframkvæmdanna.

Nefndin taldi rétt að einnig yrði hægt að úthluta fé úr Listskreytingasjóði til bygginga, umhverfis þeirra og útisvæða sem eru á forræði sveitarfélaga en það verði þó háð mótframlagi viðkomandi sveitarfélags.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með brtt. við 3. gr. þess sem lýtur að því sem ég nefndi áðan, að hægt verði að úthluta til sveitarfélaga úr Listskreytingasjóði að uppfylltum skilyrðum um mótframlag frá viðkomandi sveitarfélagi. Menntmn. er einróma í áliti sínu.