Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:34:03 (5700)

1998-04-22 13:34:03# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:34]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði hér síðast um kynninguna á því hvernig fjármagni verður úthlutað þá mun formaður fagnefndarinnar koma til fjárln. í næstu viku og fara yfir málið með fjárlaganefndarmönnum. Ég tel að sú nefnd sem hefur fjallað um þessi mál sjúkrahúsanna sé að vinna mjög gott starf og það á eftir að koma í ljós. Þeir hafa farið mjög vel yfir rekstur sjúkrahúsanna eins og til er ætlast. Það er nokkuð mikil vinna. Um það var talað áðan að þetta gengi hægt en það var fyrst í febrúar sem nefndin hóf störf, hún hefur heimsótt flestar sjúkrastofnanir sem nefndarmenn þurfa að fjalla um og fengið til sín marga aðila. Þetta er vandasamt verk, og eins og fram hefur komið er verið að skipta tiltölulega litlum fjármunum en það er geysileg vöntun á fjármagni til heilbrigðisstofnana.

Ég ætla aðeins að fara yfir það sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði áðan. Hann var með mikil gífuryrði og talaði um helstefnu. Ég tel að hann hafi farið nokkuð langt yfir strikið þegar hann sagði að ég stæði hér upp og skammaði stjórnendur sjúkrahúss Akureyrar. Það gerði ég ekki og geri ekki og virði þá mikils. En ég misvirti það við þá að þeir skyldu fyrst fara í fjölmiðla og kynna neyðaráætlun nokkrum dögum eftir að þeir höfðu verið í ráðuneytinu hjá mér og ekki kynnt mér þessar tillögur. Það var það sem ég nefndi áðan og finnst ámælisvert.

Aðalatriðið er að sjúkrahúsið á Akureyri hefur fengið fjármagn umfram verðlagsbreytingar um 9% á sl. þrem árum, sem sýnir að við erum að viðurkenna hið fjölbreytta starf sem þar er. Það er ljóst að því verður bæði veitt fjármagn úr 200 millj. kr. pottinum vegna umframkeyrslu á síðasta ári og það fær nokkurt fjármagn til viðbótar til rekstrar á þessu ári. Þetta er alveg skýrt.

Fjárln. fær, áður en þing fer heim, nánari umræðu um þetta mál og það sem fyrir liggur í þessari fagnefnd.