Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:26:54 (5706)

1998-04-22 14:26:54# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, Flm. SF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:26]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir til þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Undir þáltill. skrifa alþingismenn úr öllum flokkum, bæði konur og karlar. Hún hljóðar á þessa leið:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum stjórnmálaflokka, skrifstofu jafnréttismála og Kvenréttindafélags Íslands til að skipuleggja þverpólitískar aðgerðir til að bæta hlut kvenna í stjórnmálum. Nefndin starfi a.m.k. í fimm ár, taki til starfa hið fyrsta og hafi heimild til að ráða sér verkefnisstjóra, sem starfi á skrifstofu jafnréttismála. Nefndin annist fræðslu, auglýsingaherferðir og útgáfu og hafi allt að 5 millj. kr. til ráðstöfunar í þessu skyni árið 1998 og síðan fjárveitingar samkvæmt fjárlögum.``

Ég vil, virðulegur forseti, vekja athygli á því að hér er um að ræða fimm ár þannig að þessi nefnd ætti að geta starfað við nokkrar komandi kosningar. Ég vek einnig athygli á því að hún á að hafa allt að 5 millj. kr. á þessu ári, ef hún fæst samþykkt, og þá yrði um að ræða fjárframlag í gegnum fjáraukalög. Mér skilst að möguleiki sé að koma málum þannig fyrir.

Að undanförnu hefur umræða aukist um nauðsyn þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Stjórnmálaflokkarnir hafa sýnt aukinn vilja til þess að bæta stöðu kvenna í stjórnmálum og það sést m.a. í þeirra flokkssamþykktum. Ég held að hver einasti stjórnmálaflokkur á Íslandi hafi ályktað um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Því má segja að breið pólitísk samstaða sé um málið, enda hefur hlutur kvenna í stjórnmálum batnað á síðustu áratugum.

Það er hins vegar áhyggjuefni að nokkurrar stöðnunar gæti í þeirri þróun. Sé á tölur sést að konum fjölgaði lítið í sveitarstjórnarkosningunum á milli 1990 og 1994, þær voru 22% 1990 en urðu 25% 1994. Það var aðeins til bóta en ekki stórt stökk. Konur voru 24% alþingismanna árið 1991 en eftir kosningarnar 1995 urðu þær 25%. Fjölgunin varð afar lítil eða um 1%. Maður spyr sig af hverju þetta er svona hér.

[14:30]

Við sjáum að þátttaka kvenna í stjórnmálum á Norðurlöndunum er mun meiri. Þar eru konur 30--40% þeirra sem sitja bæði í sveitarstjórnum og á þjóðþingum. Við erum því talsvert á eftir öðrum Norðurlöndum. Og maður spyr sig: Af hverju er þetta svona hérna? Af hverju eiga konur hér erfiðara með að komast áfram í stjórnmálum? Eru það færri sem vilja og reyna? Ég efast um það. Hætta þær sem byrja? Erum við að missa konur út of fljótt? Það er eitthvað sem ég hef ekki skoðað nákvæmlega. Gefast þær fyrr upp? Manni finnst að það hljómi líklegar. Tölur í Svíþjóð sýna fram á það, að mér skilst, að þar gefast konur upp í stjórnmálum, sérstaklega ungu konurnar sem eru að klára sín fyrstu kjörtímabil. Það er eins og þær gefi síður kost á sér aftur. Þær bara hætta og það er áhyggjuefni á Norðurlöndunum.

Stjórnmálakonur annars staðar á Norðurlöndunum telja að þverpólitískar aðgerðir sem voru skipulagðar þar upp úr 8. áratugnum til þess að benda á mikilvægi þátttöku kvenna í stjórnmálum hafi haft afgerandi áhrif á hve hlutur kvenna í stjórnmálum lagaðist þar á þeim árum. Aðgerðirnar þar nutu stuðnings hins opinbera og þær hafa verið undir stjórn verkefnisstjóra sem hafa verið ráðnir.

Í bókinni Nú er kominn tími til eftir Drude Dahlerup, sem gefin var út af norrænu ráðherranefndinni, má sjá hvernig markmið einnar slíkrar herferðar var. Það var markmið í sex liðum.

Í fyrsta lagi var markmiðið að fá fleiri konur í sveitar- og bæjarstjórnarkosningar inn að sjálfsögðu.

Í öðru lagi að skapa jákvætt viðhorf til kvenna í stjórnmálastörfum.

Í þriðja lagi að virkja kvennasamtök um allt land í umræðunni um hlut kvenna í sveitarstjórnum í byggðarlaginu.

Í fjórða lagi að vekja áhuga landsmálablaða og dagblaða á því að fjalla um konur í stjórnmálum, bæði heima í héraði og á þingi.

Í fimmta lagi að hafa samband við ríkisfjölmiðla og hvetja þá til að axla ábyrgð sína á opinberri umfjöllun um konur og baráttumál þeirra í þeim tilgangi að styrkja stöðu kvenna í stjórnmálum. Hér höfum við haft svipaða umræðu gagnvart ríkisfjölmiðlunum, ekki bara um konur í stjórnmálum heldur líka um konur t.d. í íþróttum. Það hefur sýnt sig að þær fá minni athygli í fjölmiðlum en karlar og nýleg skýrsla um íþróttir kvenna sýnir líka að þróunin hin seinni ár hefur verið sú að meira er fjallað um erlenda íþróttaviðburði innan fjölmiðlanna og þá eykst hlutur karla þar með.

Í sjötta lagi var markmiðið að veita upplýsingar um stefnuskrár stjórnmálaflokkanna í jafnréttismálum.

Í þessari bók koma líka fram ýmis skemmtileg slagorð sem hafa verið notuð í þessum aðgerðum til þess að kynna stöðu kvenna í stjórnmálum. Ég ætla að lesa, virðulegi forseti, nokkur slagorð en þau eru svona:

,,Fleiri konur í bæjarstjórnir. Sveitarstjórn, samábyrgð karla og kvenna. Kjósið konur. Hleypið konunum að. Konur á þing. Karlar sem konur, kjósið hana. Kjósið konur. Betur sjá augu en auga. Kjósið jafnréttið. Greiddu frambjóðanda þínum atkvæðið. Aðgerð kvennakjör. Við erum helmingurinn. Greiddu konu atkvæði þitt. Burt með svörtu blettina. Engin sveitarstjórn án kvenna``

Mig langar aðeins að fjalla um svörtu blettina. Svörtu blettirnir eru þau sveitarfélög þar sem engin kona er í sveitarstjórn. Hér á Íslandi eru 32 slíkir svartir blettir, þ.e. 32 sveitarstjórnir hafa enga konu í sínum röðum.

Á síðari árum hafa kosningaaðgerðirnar orðið beinskeyttari og markvissari. Markmiðið er ekki lengur fleiri konur í stjórnmálin heldur jöfn hlutdeild karla og kvenna í öllum opinberlega kjörnum stjórnum, nefndum og ráðum. Þarna er verið að tala um jafna hlutdeild. Á Íslandi hefur verið hrundið af stað undir forustu Jafnréttisráðs verkefninu Sterkari saman, sem hefur það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi þess að auka hlut kvenna í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þetta verkefni hefur verið þverpólitískt og gengið ágætlega en umfang þess hefur takmarkast af fjárskorti. Í þessu verkefni var farið um allt land, staða kvenna í stjórnmálum rædd og konur hvattar áfram.

Ég vil líka koma inn á það að jafnaðarmenn eða konur innan jafnaðarmanna hafa farið um landið í herferð sem þær hafa kallað: Konur hlusta. Þetta hefur verið afar jákvætt. Þær hafa hitt konur víða um land og rætt um stjórnmál við þær. Við í Framsfl. höfum líka gert þetta. Við höfum haldið fundi með konum sem eru í pólitík og hafa áhuga á að fara út í pólitík. Í Kópavogi vorum við t.d. með nokkuð sem kallaðist eldlínunámskeið. Við vorum líka með fund í Bolungarvík. Við vorum með fund á Egilsstöðum og á föstudaginn kemur er fundur í Vík í Mýrdal til að hvetja þær konur sem nú þegar hafa gefið kost á sér áfram. En verði sú þáltill. sem ég er að mæla fyrir samþykkt, þá tel ég að ágætur grundvöllur skapist fyrir markvissu upplýsingastarfi um mikilvægi þess að konur starfi í stjórnmálum til jafns við karla. Ég sé fyrir mér auglýsingaherferðir, póstkortaútgáfu og annað slíkt sem menn nota til að auka vitund fólks um ákveðin málefni.

Það þarf að auka vitund fólks, bæði kvenna og karla til að reyna að breyta til og auka hlut kvenna. Það þarf líka að hvetja þær sem fyrir eru í stjórnmálum svo tryggt sé að þær gefist ekki upp af einhverjum óeðlilegum orsökum. Það er vel hugsanlegt að þær geri það og það hefur sýnt sig erlendis að þær fá sjaldnar endurkjör og þær vilja líka frekar hætta. Það er mjög neikvætt.

En það er ekki bara þessi vitundarvakning sem þarf að eiga sér stað heldur þarf líka að skoða hvaða kerfi við búum við. Ég held að allir sem hafa skoðað kosningalöggjöfina hjá okkur á Íslandi viti að hún er ekki kvenvinsamleg ef svo má að orði komast. Ef við værum t.d. með færri kjördæmi eins og jafnvel er stefnt að núna með breytingum á kosningalöggjöfinni, þá tel ég nokkuð víst að hlutur kvenna mundi aukast. Það hefur sýnt sig að þar sem fleiri komast að í einu, eins og í Reykjavík og Reykjanesi, hefur hlutur kvenna frekar aukist. Maður getur skoðað dæmið alveg út í öfgarnar og sagt sem svo að ef landið væri eitt kjördæmi og bara einn listi fyrir hvern stjórnmálaflokk, þá er ég nokkuð viss um að hlutur kvenna mundi aukast. Á hinn bóginn má segja að ef hér væru einmenningskjördæmi, þá væri hlutur kvenna enn rýrari en hann er í dag og er handhægt að líta til Bretlands þar sem einmenningskjördæmi eru. Þar er hlutur kvenna afar rýr.

Mig langar að segja að lokum, virðulegi forseti, að þessi þáltill. er í sama anda og þáltill. sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. En þar segir í III. kafla, gr. 3.3., með leyfi virðulegs forseta:

,,Skipuð verður nefnd sem falið verður að kanna hvernig megi auka virkni kvenna og þátttöku þeirra í almennu stjórnmálastarfi.``

Þessi þáltill. sem við fjöllum um hér er í anda þess sem ríkisstjórnin hefur sett fram. Hún er einungis, má segja, útfærsla á þessu ákvæði. Það er mín von að þessi þáltill. fari núna til umfjöllunar í félmn. Þar erum við með jafnréttisáætlunina til umfjöllunar og það væri afar ánægjulegt ef það tækist nokkurn veginn að skoða þetta mál í tengslum við það. En ég tel að hér sé um afar brýnt mál að ræða, mikilvægt mál og sætir furðu hvað við höfum lítið gert í þessum anda á Íslandi miðað við það sem við sjáum á öðrum Norðurlöndum.