Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:44:07 (5710)

1998-04-22 14:44:07# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, Flm. SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:44]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að enginn hafi sagt hér að einhver sérstök starfsemi karla væri í gangi til að stöðva framgang kvenna í stjórnmálum, alls ekki. En þetta eru dæmigerð viðbrögð karlmanna þegar þessi mál eru rædd því þá hitnar þeim oft í hamsi og þykir á sig ráðist og svara fyrir sig með þessu móti. Ég sé ekki endilega að áherslur kvenna séu einhverjar aðrar en karla svona almennt. Fjöldi kvenna hefur áhuga á að starfa í pólitík og þær hafa gefið kost á sér en þær hafa ekki komist að mínu mati nógu hratt til valda, því miður. Tölurnar sýna það. Það er óeðlilegt að hlutfall kvenna í sveitarstjórnum og í þinginu sé einungis 25%. Hins vegar er miklu hærra hlutfall kvenna í svokölluðum skrautsætum, þ.e. í varamannasætunum. Þær hafa þó náð þangað. En við skulum bíða og sjá. Fyrst þingmaðurinn talaði eins og hann gerði áðan þá býst ég við að hann muni svo sannarlega aðstoða allar konur sem það vilja. Ég reyndar þekki það að þingmaðurinn hefur talið mjög æskilegt að fá konur í framboð á Vestfjörðum og ég virði það mjög við hv. þm.