Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:55:08 (5713)

1998-04-22 14:55:08# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, RG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:55]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er góð tillaga. Ég styð hana. Ég er meðflutningsmaður að henni og vona að hún nái fram að ganga á þessu vori og ég tel að möguleiki sé á því þar sem stjórnarliði er 1. flm. en ég er sannfærð um að ef einhver okkar hinna væri forustumaður að þessari tillögu væri enginn möguleiki á að ná henni fram. Ég segi þetta vegna þess að það er bara reynslan þegar peningar eru í spilinu og það þarf að fá fyrir því stuðning hjá stjórnarflokkunum. Við höfum verið að fjalla um mál í félmn. sem samstaða er um og þó að þau hafi verið að fá fyrstu yfirferð í dag er það samt raunveruleikinn að vilji er fyrir því að félmn. afgreiði þau frv. frá sér og ég tel að jafnmikill möguleiki sé á því þar sem þessi tillaga verður komin til nefndar á morgun, að við förum eins með hana og afgreiðum hana náist stuðningur stjórnarflokkanna við markmið hennar.

Framsögumaður tillögunnar nefndi kosningalöggjöfina sem eitt af því sem skipti máli fyrir jafnrétti kynjanna. Ég tek undir það og læt í ljósi þá sannfæringu mína að ef við værum með landið eitt kjördæmi væri það áhrifaríkast fyrir þetta jafnræði, því þá kæmi það í hlut allra flokka að setja upp listann sinn á þann hátt að þar birtist með hvaða hætti samsetning þingflokksins yrði miðað við ákveðna þingmannatölu sem flokkurinn ætti von á að fá. Þá sæist hversu margar konur, hversu margir karlar, hve margir yngri og hve margir eldri, með hvaða reynslu og hvernig skipting dreifbýlis og þéttbýlis er hugsuð hjá viðkomandi flokki. Þar mundi sjást af þeim væntanlegu 25 eða 26 þingsætum, sem Sjálfstfl. ætti von á, hvernig hann hygðist hafa sinn þingflokk samsettan á meðan það er mjög erfitt í þeirri kosningalöggjöf sem við erum með í dag og byggist mjög á því að efstu menn lista ráði samsetningunni nema þar sem það gerist að maður númer tvö í þessum minni kjördæmum kemst inn líka.

Það á heldur ekki að vera þannig, virðulegi forseti, að karlar þurfi að hverfa af þingi á kjörtímabilinu til að kona fari inn, þó að það sé jákvætt út af fyrir sig að þannig fái konur tækifæri til að sanna og festa sig í sessi til að eiga möguleika á því að vera í vænlegu sæti í næstu kosningum og vera kosnar á þing. Ég þekki þetta. Ég kom sjálf inn á miðju kjörtímabili og fékk tækifæri til að reyna að skapa mér þá stöðu að ég ætti möguleika á að vera kjörin hingað inn í næstu kosningum. Auðvitað er þetta gott út af fyrir sig en það á ekki að vera þannig að konur stari á varamannssætin til að möguleiki þeirra sé fyrir hendi.

Ég ætla líka strax í upphafi máls míns að leggja áherslu á að það er líka orðið þannig hérlendis að margir ungir menn eru með þau fjölskylduviðhorf að þeir vilja, hvort heldur það er venjulegt starf úti í þjóðfélaginu eða hin pólitísku störf, að þau séu fjölskylduvæn þannig að ungt fólk geti lifað eðlilegu og heilbrigðu fjölskyldulífi, eignast börn, tekið jafnan þátt í uppeldi barna sinna óháð því hvort þeirra er í áhrifastarfi. Ég er sannfærð um að við munum fá stuðning þessara ungu manna, t.d. hér á Alþingi, til að breyta því sem þarf að breyta til að þær ungu konur sem vonandi koma inn á þing í kjölfar aðgerða, bæði þeirra sem Jafnréttisráð hefur verið með og einnig þeirra aðgerða sem hægt væri að grípa til með slíku þverpólitísku samstarfi sem þessi tillaga gerir ráð fyrir, kæmu inn í umhverfi sem gerði þeim kleift að halda áfram að vera þingmenn og verða góðir þingmenn með reynslu, óháð því að þær væru með börn á skólaaldri eða annað það sem hingað til hefur dregið úr þeim kraftinn við að berjast áfram á þessum vettvangi.

[15:00]

Virðulegi forseti. Þegar við ræddum framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna kom fram að grípa ætti til ýmissa aðgerða og veita einhverja fjármuni til þess að efla jafnrétti kynjanna og að mörg verkefni væru í gangi. Þar voru nefnd tvö verkefni hjá forsrh., níu verkefni hjá dómsmrh. og 20 verkefni á vegum félmrn. Þegar maður les þetta upp þá sér maður fyrir sér víðtækar aðgerðir sem auðvitað hljóti að fylgja einhver kostnaður.

Staðreyndin er hins vegar sú að í umsögn fjmrn. kom fram að kostnaður við framkvæmdaáætlunina væri á milli 7 og 10 millj. kr., fyrst og fremst vegna nefndarstarfa sem setja ætti á laggir undir hinum ýmsu ráðuneytum. Auðvitað ætlumst við til þess að fjármögnun verkefna til að fjölga konum í pólitík verði til þess --- ekki til að konur verði fleiri en karlar og ný skekkja verði til --- heldur til að skapa þann jöfnuð sem nauðsynlegur er til þess að alls staðar komi fram mismunandi sjónarmið. Það mundi styrkja stöðu okkar til að setja rétt lög sem þjóna fjölskyldunni og báðum kynjum.

Þar sem kostnaður við framkvæmdaáætlunina er ekki nema 7--10 millj. kr., auk þess að ráðherrann lagði áherslu á að kanna ætti hvernig auka mætti virkni kvenna í almennu stjórnmálastarfi og að ýmis námskeið væru hugsuð til þess í ráðuneytinu, þá væri það mjög góður kostur að veita þessari tillögu brautargengi. Þannig mundum við saman reyna að hrinda fram því sem reynst hefur svo erfitt fram að þessu.

Virðulegi forseti. Hér var því einnig velt upp hvort konur væru með það atgervi að þær hefðu sama möguleika á að komast til pólitískra starfa og karlar. Ég er af gamla skólanum og algjörlega sannfærð um að atgervi fólks er misjafnt. Það á við hvort heldur um er að ræða karl eða konu. Sumir hafa til að bera meiri gáfur en aðrir í hópi kvenna og sömuleiðis meðal karla. Líkamlegt atgervi er mismunandi og vissulega getur líkamsstyrkur, sem oft er meiri hjá körlum en konum, skipt máli í þeim þungu rispum sem teknar eru á Alþingi í pólitísku starfi. Þó held ég að annað skipti máli þegar við ræðum um atgervi.

Virðulegi forseti. Við ræddum alvarlega stöðu kvenna í umræðu um framkvæmdaáætlunina og ég ætla ekki að endurtaka það. Ég legg áherslu á að með fjölgun kvenna á Alþingi eykst möguleiki á að fjölga konum í ríkisstjórn. Þar hefur verið ein kona eða engin fram að þessu. Eins gefst færi á að fjölga konum í öðrum forustustörfum sem fallin eru til að breyta pólitíska starfsumhverfinu og gera það fjölskylduvænna. Það er vissulega þannig að ungar konur... (Forseti hringir.) Já, virðulegi forseti, ég vissi ekki að ég hefði nauman tíma, hversu margar mínútur voru mér ætlaðar?

(Forseti (RA): Hv. þm. hefur fengið þann tíma sem þingsköp mæla fyrir um, átta mínútur.)

Ég átti eftir örfá atriði sem ég vildi drepa á, virðulegi forseti. Ég vil þá meta það hvort ég kem hér stuttlega upp á ný en ég hefði viljað koma inn á örfá atriði til viðbótar þessu og mun því hinkra við.