Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 15:14:20 (5716)

1998-04-22 15:14:20# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, RG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[15:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kýs að koma aftur í ræðustól og ljúka ræðu minni. Við höfum rætt um starfsumhverfið og hvort pólitíska starfið sé fjölskylduvænt. Ég hlýt að koma því á framfæri hér að nokkuð er um það að ungar konur með börn, börn fram undir fermingu, konur með starfsmenntun og starfandi á vinnumarkaði sem farið hafa inn í bæjarstjórn eða í öflug störf á þeim vettvangi, hafa dregið sig í hlé. Þær hafa kannski ekki viljað fórna starfinu sínu en þær hafa sagt: Þetta kostar of mikið. Þetta kostar of mikið og nú ætla ég að láta gott heita. Þær hafa sótt sér reynslu og verið mikilvægar fyrir okkur, pólitísku flokkana, en það er ekki hægt að segja orð við því þegar ung kona sem lagt hefur mikið af mörkum og lítið verið heima hjá sér um árabil stendur fyrir framan mann og segir: Þetta kostar of mikið. Þess hefur líka gætt að ungar konur sem komið hafa inn sem varamenn, segja við okkur hinar gömlu, reyndari: Ég hefði ekki trúað að starfið þitt væri svona og finnst erfitt að eiga ekki kost á að skipuleggja nokkra viku, geta aldrei horft fram á veg og séð að á þessum eða hinum tíma sé ljóst að maður sé laus frá störfum og geti skipulagt annað.

[15:15]

Þess vegna vil ég koma því á framfæri í þessari umræðu að við konurnar á Alþingi eigum að sjálfsögðu að hafa skoðun á því hvernig vinnudagur á Alþingi er. Við eigum að hafa skoðun á því og kannski að hafa okkur meira í frammi um hvernig því þarf að breyta. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við ættum að gera grundvallarbreytingar á þingsköpunum, við ættum að vera með Alþingi að störfum frá því á morgnana og fram yfir hádegi. Það væri líka sterkt af öðrum orsökum svo sem eins og að ná meginfréttatímum dagsins með mikilvæg mál sem hér eru að koma fram, hvort heldur er frá stjórn eða stjórnarandstöðu. Nefndarstörf ættu að vera um miðbik dagsins og eftirmiðdagurinn síðan til annarra þátta, undirbúnings þingstarfa og þeirra samskipta sem eru ríkur þáttur í starfi þingmannsins. Ég er sannfærð um að með nýju skipulagi væri mun auðveldara að skipuleggja þingstarfið fullkomlega en auðvitað hangir það á spýtunni að við höldum þá áfram að þróa samskipti og vinnubrögð í þinginu bæði hvað varðar ræðutíma og annað.

Það hefur verið mikill vilji forseta Alþingis að starfs\-áætlun sé sett að hausti og við hana sé staðið. Við þekkjum öll hversu erfitt er fyrir forseta að fylgja því eftir. Það er endalaus þrýstingur á hann að gera breytingar, bæði vegna nýrra frv. oft seint fram kominna og þeirra viðfangsefna sem eiga að fá forgang og sem ætlast er til að hann aðlagi þingstörf okkar að. Því held ég að það sé mikilvægt að ræðum það líka til viðbótar því að skoða hvernig á að fjölga konum með aðgerðum í pólitísku starfi, fjölga konum sem þá eru tilbúnar að koma til starfa og leggja á sig aukavinnu varðandi sveitarstjórnarstörfin og fjölga konum á Alþingi með þeim annmörkum og kostum sem hér hefur verið fjallað um, að við reynum að skoða hverju við þurfum að breyta úr gömlu formi sem hér hefur ríkt, formi sem er frá tímum þess karlaveldis sem ég hef oft gaman af að nefna og er sá tími þegar menn áttu konurnar heima sem sáu um allt og gátu gengið á morgnana í fataskápinn sinn og tekið út pressuð föt og hvítar skyrtur. Sá tími er liðinn. En umhverfið sem varð til á þeim tíma blífur. Þessu eigum við að breyta.

Og aðeins í lokin af því hér var talað um prófkjör. Það er þannig, hv. þm., að færri konur taka þátt í prófkjörunum, framgangur þeirra er almennt erfiðari en karla þótt ég kunni ekki skýringarnar. Ég hef stundum sagt að tengslanetið er víðtækara hjá öðrum helmingi þjóðarinnar en hinum. Við getum endalaust rætt um vegna hvers það er en við eigum með opnum huga að horfa á hvað það er sem laðar ungt fólk til þátttöku og þá er ég að tala bæði um karla og konur og hvernig við eigum að skapa það umhverfi sem skapar jafnræði milli þeirra.