Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 15:28:06 (5718)

1998-04-22 15:28:06# 122. lþ. 110.23 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[15:28]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Ég vil segja hér nokkur orð um frv. til laga um slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands, sem hér er á dagskrá og er út af fyrir sig ágætt að nota dagsbirtuna til að tala um þetta mál sem þó var síðar á dagskrá þessa fundar. Ég hef áður lýst skoðunum mínum til þessa frv. sem fimm ágætir þingmenn flytja og ég hef lýst andstöðu við frv. og mun greiða atkvæði gegn því.

Ástæða þess að ég lýsi andstöðu við frv. er sú að árið 1994 voru samþykkt lög frá Alþingi sem gerðu ráð fyrir að fela sveitarfélögunum á tiltekinn hátt umsjón og umsýslu með þessu félagi á grundvelli laga. Þar er um það að ræða að fulltrúaráð er æðsta vald í félaginu og því eru ætluð tiltekin verkefni, einkum og sér í lagi að efla brunavarnir og leggja á ráðin um lækkun á kostnaði sveitarfélaga og annarra vegna brunatrygginga og þess kostnaðar sem fylgir brunavörnum í hverju samfélagi.

[15:30]

Þetta var niðurstaðan 1994 og ég tel alveg fráleitt að koma nú, fjórum árum síðar, og segja: ,,Það eru breyttir tímar og við ætlum að taka þetta af sveitarfélögunum og svipta þau því valdi yfir félaginu sem þeim var falið.``

Það er alveg ljóst að í kjölfar laganna sem sett voru 1994 stóðu stjórnendur Brunabótafélags Íslands fyrir tilteknum ráðstöfunum til þess að efla félagið og ávaxta höfuðstól þess, sem er allnokkur og hafði í tímans rás vaxið vegna þess að þarna hafði verið bærilega á málum haldið. Settar voru reglur um starfsemi félagsins og þær reglur voru að sjálfsögðu í þágu þeirra viðskiptaaðila sem þar var um að ræða. Síðan var gengið til þess stórvirkis, sem ég vil segja, að selja hlut Brunabótafélags Íslands í VÍS. Það var umdeild ákvörðun á sínum tíma en ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun, það hafi verið skynsamlegt við þær aðstæður að selja hlutinn og leggja á ráðin um ávöxtun þessa höfuðstóls með öðrum hætti þannig að sveitarfélögin gætu af eins miklu öryggi og kostur er staðið að eflingu brunavarna og lækkun kostnaðar við brunavarnir og brunatryggingar í sveitarfélögunum. Þetta tel ég að hafi verið tilgangurinn með þeirri aðgerð að selja vátryggingafélagið. Það hefur hins vegar verið gagnrýnt eins og ég sagði en eftir sem áður liggur fyrir að þar með er ekki sagt að Brunabótafélagið uppfylli ekki þann tilgang með starfseminni að standa að rekstri tryggingafélags.

Í grg. með frv. sem hér er til umræðu segir, með leyfi forseta:

,,Með nýlegri sölu á hlut sínum í Vátryggingafélagi Íslands hf. til Landsbankans hefur félagið snúið frá þessum lögbundna aðaltilgangi sínum. Því er hér lagt til að félagið verði gert upp og eignum þess, umfram skuldir, skipt á milli eigenda.``

Hér tel ég að sé mjög mikið sagt því að þegar þessi orð eru rituð þá hefur Brunabótafélagið ekki hætt þátttöku sinni og eftir því sem ég fæ upplýst þá er ekki meiningin að hætta þátttöku í vátryggingarstarfsemi því að Brunabótafélagið getur sem eignarhaldsfélag átt hlut í vátryggingafélagi þannig að þessar forsendur geta ekki skapað grundvöll fyrir því að leggja félagið niður. Ég tel því að það standist ekki.

Ég má til með að segja að hlutverk Brunabótafélagsins getur verið mjög mikilvægt fyrir sveitarfélögin og ég sé engar ástæður til þess að svipta þau þeim möguleika sem felst í því að ávaxta þessa eign til hagsbóta fyrir samfélagið, hvert sveitarfélag sem er aðili að Brunabótafélaginu. Ég tel að það séu margir möguleikar til þess og að engin ástæða sé til að taka þetta úr höndum sveitarfélaganna.

Ég vil vekja athygli á því að það var ekki bara Brunabótafélag Íslands sem hafði þessa aðstöðu á sínum tíma á grundvelli laga að tryggja íbúðarhúsnæði á grundvelli tiltekinnar einokunar. Húsatryggingar Reykjavíkur gegndu alveg sams konar hlutverki. Á sama ári og lögunum um Brunabótafélagið var breytt þá var breytt lögum um Húsatryggingar Reykjavíkur. Í þeim lögum segir í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

,,Tekjur sem Reykjavíkurborg kann að hafa af rekstri Húsatrygginga Reykjavíkur skal leggja í sjóð til eflingar brunavörnum og tryggingarstarfsemi.``

Þetta er í rauninni alveg það sama og Brunabótafélagið hefur gert. Húsatryggingar Reykjavíkur hafa hins vegar verið seldar. Og var því silfri dreift til tryggjenda, þ.e. húseigenda í Reykjavík? Nei. Reykjavíkurborg hefur selt þetta félag, að mig minnir Sjóvá-Almennum og ég hef ekki heyrt eða orðið þess var að krafa væri uppi um það á Alþingi að þetta yrði afturkallað eða komið í veg fyrir þá gjörð. Ég tel að í raun hafi alveg sömu lögmál gilt um Húsatryggingar Reykjavíkur og um Brunabótafélag Íslands. Ég vildi vekja athygli hv. flutningsmanna á því.

Fram hefur komið að sveitarfélögin hafa ekki fagnað þessu frv., og það ekki einungis sveitarfélögin sem eru aðilar að fulltrúaráði Brunabótafélagsins. Í ályktun sem hefur borist frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sem í eru fulltrúar allra sveitarfélaga í landinu, segir svo, með leyfi forseta:

,,Stjórn sambands ísl. sveitarfélaga lýsir yfir furðu sinni á endurflutningi frumvarp á Alþingi frá fimm þingmönnum um að Alþingi samþykki slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands samkvæmt þskj. 764, 438. mál. Í greinargerð með frumvarp er í meginatriðum vísað til eldri laga um Brunabótafélag Íslands en þar var að finna ýmis ákvæði sem ekki eru í gildandi lögum nr. 68/1994. Með flutningi frumvarpsins er vegið að hagsmunum sveitarfélaganna í landinu og möguleikum þeirra til þess að efla forvarnir á sviði bruna- og slysavarna með stuðningi félagsins.

Samkvæmt lögum nr. 68/1994 hefur fulltrúaráð félagsins æðsta vald í málefnum félagsins. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ítrekar fyrri mótmæli sín um slit á EBÍ og telur fram komið frumvarp ganga gegn hagsmunum sveitarfélaganna í landinu. Stjórn sambandsins skorar á alþingismenn að fella þetta frumvarp og sýna með því þeim fulltrúum sveitarfélaga og héraðsnefnda sem í fulltrúaráðinu sitja fullt traust til þess að sinna þeim verkefnum sem þeim hefur verið falið af Alþingi.``

Þessi ályktun var gerð í lok febrúar og þingmenn hafa væntanlega kynnt sér hana.

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti, við þessa umræðu. Ég held að rekstur Brunabótafélagsins og sú tilhögun sem þar hefur viðgengist eftir að gert var ráð fyrir því að eign félagsins í VÍS yrði öll seld, sé og geti verið sveitarfélögunum mjög til hagsbóta og geti orðið mjög mikilvægt afl þeirra til þess að taka á mjög brýnum verkefnum sem lúta að því að auka öryggi í brunavörnum í viðkomandi sveitarfélögum. Þess vegna tel ég að þetta frv. þjóni engum tilgangi til hagsbóta fyrir sveitarfélögin eða þá einstaklinga og félög sem í viðkomandi sveitarfélögum eru og þess vegna beri að fella þetta frv.