Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 18:26:03 (5722)

1998-04-22 18:26:03# 122. lþ. 110.23 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[18:26]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög hættulegt, það er mjög óhollt, það er mjög slæmt að í viðskiptalífinu séu menn sem eru að fara með stóra fjármuni sem þeir eiga ekki. Það er mjög slæmt og það að treysta ekki réttum eigendum til þess að vera handhafar sinna peninga og fara farsællega með sitt fé, það er ráðstjórn, það er forræðishyggja.

Það hefur alltaf legið fyrir hverjir eigendurnir eru. Það eru íbúar sveitarfélaganna. Þeim er alveg treystandi til þess að fara með þetta fé, enda á svo að vera í lýðfrjálsu landi. Það liggur alveg fyrir og engin deilumál eru um það að Brunabótafélag Íslands seldi Landsbankanum sinn hlut í VÍS. Vegna BIS-reglna Landsbankans var ekki hægt að ganga frá þessu öðruvísi. Í þinginu var þetta okkur gert ljóst, sérstaklega í efh.- og viðskn. BIS-reglurnar leyfðu ekki Landsbankanum að gera þetta. Þess vegna er ákveðinn hluti enn þá skráður og verður skráður meðan verið er að borga inn á Brunabótafélagið.

Forstjóri Brunabótafélagsins er mjög hæfur til að vera stjórnarformaður í hvaða tryggingafélagi og hvaða félagi sem er og þeim er náttúrlega að sjálfsögðu frjálst að kjósa hann. Brunabótafélag Íslands, eignarhaldsfélagið, er ekki í tryggingum lengur. Það getur hver og einn sem á stokk af hlutabréfum sagt: Við erum í tryggingabransanum, en svo er ekki. Þetta er eignarhaldsfélag á almennum markaði. Það er það sem það er. Það var áður gagnkvæmt tryggingafélag. Þegar því var breytt var því ekki fullnustað að láta hið gagnkvæma tryggingafélag njóta sín, þ.e. eigendurnir fengu það ekki. Það var ekki gert 1994. Þetta frv. er um að gera það sem átti að gera 1994. Því miður var það ekki gert. Við höfum ekki sagt að það hafi verið ólöglegt 1994, en það er þó betra að gera það seint en aldrei.