Argos-staðsetningartæki til leitar

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 19:18:40 (5730)

1998-04-22 19:18:40# 122. lþ. 110.11 fundur 550. mál: #A Argos-staðsetningartæki til leitar# þál., ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[19:18]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Í fjarveru hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar mæli ég fyrir till. til þál. um Argos-staðsetningartæki til leitar og björgunar. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að finna leiðir til þess að auka og auðvelda notkun Argos-staðsetningartækja meðal þeirra sem ferðast um hálendi Íslands og auðvelda þannig leit og aðstoð við þá sem týnast eða þurfa á hjálp að halda.``

Ferðalög um hálendi Íslands að vetri og sumri við erfiðar aðstæður færast mjög í vöxt, bæði meðal Íslendinga og einnig meðal útlendinga. Veður á Íslandi eru oft válynd og oft skellur á óveður nær fyrirvaralaust.

Á Íslandi er ekkert til sparað til þess að bjarga mannslífum og er það vel. Argos-staðsetningartækið hefur valdið byltingu. Það hefur aukið öryggi ferðalanga og er í raun mjög ódýr leið til þess að leita að týndu fólki. Argos-staðsetningartækið sendir stöðugt merki í gegnum gervihnött til móttökustöðvar í gegnum Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík. Merkin eru alls um 16 mismunandi og gefa til kynna skilaboð, t.d. skilaboð um háska, minni háttar aðstoð eða aðstoðar er ekki þörf og þar fram eftir götunum, Augljós kostur þessa tækis er m.a. sá að ekki þarf að biðja um leit ef ferðamanni seinkar einhverra hluta vegna.

Kerfi þetta hefur verið notað á Íslandi um fjögurra ára skeið og reyndar þegar bjargað nokkrum mannslífum. Einnig hefur þetta kerfi komið í veg fyrir kostnaðarsamar leitir. Kostnaður við uppsetningu kerfisins nam um 6 millj. kr. en allnokkur rekstrarkostnaður er af tækjum þessum svo sem afnotagjöld, gervihnattarsamband og einnig er tekið sérstakt gjald af ferðamönnum, sem þó er mjög lágt, sem fá slíkt tæki á leigu. Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík hefur borið nær allan þennan kostnað.

Það er alveg nauðsynlegt að hvetja til almennrar notkunar á þessu tæki. Það leiðir til fækkunar útkalla og fækkunar á leitum og gæti t.d. fækkað útköllum á þyrlu Landhelgisgæslunnar. Það lætur nærri að kostnaður af einu útkalli þegar stóra þyrla Landhelgisgæslunnar er kölluð til nemi rekstrarkostnaði þessa Argos-kerfis á ársgrundvelli. Ótalinn er þá beinn og óbeinn kostnaður björgunarsveitanna og einstaklinga. Það er alveg nauðsynlegt að ríkisvaldið leggi sitt af mörkum til þess að auka notkun á Argos-tækjunum. Það eykur öryggi, sparar fé og fyrirhöfn og minnkar áhyggjur aðstandenda ferðalanga á hverjum tíma og því er hvatt til ríkisstjórnin finni leiðir til þess að auka og auðvelda notkun á Argos-staðsetningarmerkjatækinu.