Markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 21:06:11 (5752)

1998-04-22 21:06:11# 122. lþ. 110.21 fundur 609. mál: #A markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[21:06]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir efni þessarar tillögu því mér finnst hún skynsamleg. Ég held að ef við ætlum að ná árangri í útflutningi á dilkakjöti sé þetta vænlegasta leiðin, þ.e. að semja við þau öflugu sölufyrirtæki sem talin voru upp, Íslenskar sjávarafurðir, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda. Þessi fyrirtæki hafa komið sér upp mikilli þekkingu á mörkuðunum og náð frábærum árangri og ég er sannfærður um að þetta er vænlegasta leiðin til að ná árangri í útflutningi á dilkakjöti.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, þá hefur orðið mjög mikill samdráttur hjá sauðfjárbændum á undanförnum árum. Eins og hann nefndi hefur dilkakjötsframleiðslan dregist saman um 1.300 tonn á síðustu sjö árum og á árunum 1991--1996 lækkuðu launagreiðslur sauðfjárbúa um hvorki meira né minna en 35% þegar ráðstöfunartekjur einstaklinga á landinu öllu voru að hækka um 5,5%. Þetta er sú stétt sem á hvað erfiðast í landinu í dag. Það hefur orðið þessi gríðarlegi samdráttur og menn hafa horft til útflutningsins til lausnar á þessu vandamáli. Það hefur ekki náðst árangur í útflutningi. Við vitum öll að þarna er um úrvalsvöru að ræða. Við höfum hins vegar ekki náð árangri vegna þess að gríðarlegt fjármagn þarf í auglýsingar og markaðsstarfsemi og við höfum ekki yfir því fjármagni að ráða sem til þess þarf. Þess vegna held ég að það sé mjög skynsamleg leið sem þarna er lögð til.

Ég kom í Kaupfélagið á Hornafirði fyrir líklega um tveimur árum þar sem fjöldi manns var að pakka dilkakjöti til neyslu á Belgíumarkað og kaupfélagsstjórinn sagði okkur frá því að sú sala hefði orðið þannig til að sölustjóri hjá Íslenskum sjávarafurðum í Belgíu var að selja fyrir þá fisk og það barst eitthvað í tal að það þyrfti að koma kjötinu á markað líka og það var hann sem tók að sér að markaðssetja það með þeim árangri að um verulegan útflutning hefur verið að ræða á ágætu verði. Þess vegna ítreka ég það að mér finnst þetta góð tillaga og ég styð hana.