Hvalveiðar

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 21:18:14 (5756)

1998-04-22 21:18:14# 122. lþ. 110.24 fundur 577. mál: #A hvalveiðar# þál., Flm. GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[21:18]

Flm. (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um hvalveiðar. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Stefán Guðmundsson, Siv Friðleifsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Árni M. Mathiesen, Ólafur Örn Haraldsson og Árni Johnsen. Tillagan sem er á þskj. 982 er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að hvalveiðar skuli leyfðar frá og með árinu 1998 á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til. Sjávarútvegsráðherra er falin framkvæmd veiðistjórnar á grundvelli gildandi laga.``

Nú eru liðin rúmlega 15 ár síðan Alþingi ályktaði síðast um hvalveiðar, en það var 2. febrúar 1983 sem samþykkt var svohljóðandi tillaga, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun hvalveiða sem kunngerð var með bréfi til ríkisstjórnarinnar dags. 2. september 1982 verði ekki mótmælt af Íslands hálfu.``

29 þingmenn greiddu atkvæði með þessari tillögu en 28 á móti svo að tæpara gat það ekki stað.

Þegar þessi tillaga var samþykkt var það almennt álit þingmanna að banni Alþjóðahvalveiðiráðsins yrði aflétt fyrr en síðar og því væri eingöngu um tímabundna ákvörðun að ræða sem aðeins mundi standa í nokkur ár, enda ákvað hvalveiðiráðið að endurmeta þessa ákvörðun eigi síðar en árið 1990 í ljósi nýrra upplýsinga um ástand hvalastofna sem byggðar væru á vísindalegri ráðgjöf.

Öllum er kunnugt um framhaldið. Umfjöllun Alþjóða hvalveiðiráðsins hefur ekkert mið tekið af þeim vísindalegu forsendum að hefja megi veiðar að nýju og meiri hluti aðildarþjóðanna hefur blásið á þær forsendur. Það má minna á að á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins sem haldinn var í Reykjavík, vorið 1991 kom fram tillaga um nýtt stjórnunarkerfi sem vísindaráð ráðsins hafði samþykkt nær samhljóða. Þessi tillaga fékk engan framgang þrátt fyrir að í sáttmála ráðsins segi svo í viðauka, með leyfi forseta:

,,Hvalveiðar í atvinnuskyni skulu leyfðar á hvalastofnum sem eru í jafnvægi og þær skulu stundaðar í samræmi við tillögur vísindanefndarinnar.``

Í hinu virta bandaríska fjármálatímariti Forbes var í nóvember 1991 fullyrt að leiða mætti líkur að því að hvalfriðunarsamtök hefðu fjármagnað þátttöku einstakra ríkja í því skyni að hafa bein áhrif á ákvarðanir ráðsins. Dæmi eru um að ríki í Alþjóðahvalveiðiráðinu hafi lýst skilyrðislausri andstöðu við hvalveiðar þótt það sé ótvírætt brot á sáttmála ráðsins sem ég gat um hér áðan. Þannig hefur þetta gengið allar götur síðan og allar tilraunir til þess að fjalla um málið á vísindalegum grunni á vettvangi hvalveiðiráðsins hafa reynst árangurslausar. Stefna og starfshættir ráðsins hafa verið með þeim hætti að segja má að ráðið hafi orðið að eins konar hvalfriðunarstofnun.

Það er staðreynd að innan Alþjóðahvalveiðiráðsins tóku menn alls ekki rökum, hvorki vísindalegum, lögfræðilegum né neinum öðrum. Aftur og aftur var á grundvelli vísindalegra rannsókna sýnt fram á að hægt væri að hefja veiðar á tilteknum hvalategundum. Vísindanefndin hafði mælt með þessu en meiri hluti meðlima ráðsins treysti sér ekki til þess að taka undir þessi vísindalegu sjónarmið og hafnaði þar með ákvörðun um það að hefja hvalveiðar og gerði það á grundvelli tilfinninga sem ekkert áttu skylt við vísindaleg vinnubrögð. Af þessum ástæðum sögðu Íslendingar sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1992.

Undanfarið hafa verið gerðar tilraunir til að sætta ólík öfl innan ráðsins og eitt af því sem við þurfum að huga að er hvort það mundi styrkja stöðu okkar að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið og þá með fyrirvara.

Ég tel að það hafi verið mikil mistök að mótmæla ekki hvaðveiðibanninu. Það gerðu aðrar hvalveiðiþjóðir, Norðmenn, Japanar og Sovétmenn og voru þar með óbundnir af banninu og reyndar hófu Norðmenn aftur hvalveiðar fyrir fimm árum.

Ein helsta röksemd þeirra sem tala gegn hvalveiðum er að ef við hefjum veiðar á ný muni það bitna á útflutningi okkar og ferðaþjónustu. Þessu var Norðmönnum hótað þegar þeir hófu sínar veiðar á ný og því spáð að þetta mundi bitna mjög á þeim. Andstæðingar hvalveiða hófu mikla áróðursherferð gegn Norðmönnum og skoruðu á almenning víða um heim að kaupa ekki norskar vörur. Því var fróðlegt að fá þær upplýsingar sem fram komu hjá fulltrúa norska útflutningsráðsins sem hér var á ferð í fyrra. Hjá honum kom fram að síðan þeir hófu veiðarnar hafi útflutningur aukist, ferðaþjónustan eflst og aðsókn í hvalaskoðunarferðir vaxið. Þetta kom reyndar fram strax á fyrsta ári hvalveiða Norðmanna en í blaðinu Evrópufréttir sem út kom árið 1994 var forsíðufrétt undir fyrirsögninni: Aðgerðir gegn norskum hvalveiðum árangurslausar. Þar sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Norskir útflytjendur telja sig í engu hafa skaðast vegna áróðurs og aðgerða til að koma í veg fyrir að fólk kaupi norskar vörur, m.a. í Bandaríkjunum, innan Evrópusambandsins og í Ástralíu. Aðgerðirnar sem einkum voru á vegum samtaka grænfriðunga beindust annars vegar að norskum útflutningi og hins vegar að ferðalögum til Noregs. Að sögn norskra embættismanna var árið 1993 besta ár norsks útflutnings til þessa og 8% aukning verður á ferðamannastraumum til Noregs frá árinu á undan.``

Mér finnst ástæða til að leggja áherslu á þessa reynslu Norðmanna vegna þess að við munum trúlega standa frammi fyrir sömu hótunum og Norðmenn þegar við hefjum hvalveiðar að nýju.

Hvalaskoðun hefur notið vaxandi vinsælda á undanförnum árum og aðsókn í skipulagðar hvalaskoðunarferðir hefur aukist verulega, bæði hérlendis og erlendis. Einstöku forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja hér á landi hafa talað gegn því að við hefjum hvalveiðar að nýju vegna þess að það mundi bitna á aðsókninni í hvalaskoðunarferðir. Þetta er alls ekki reynsla Norðmanna.

Aðsókn í hvalaskoðun hefur stóraukist allt frá því að Norðmenn hófu hvalveiðar að nýju fyrir fimm árum. Gott dæmi um það eru tölur sem ég sá nýlega frá stærsta hvalaskoðunarfyrirtækinu í Noregi sem eru í Andenes. Þar jókst aðsókn í þessar ferðir úr 4.563 farþegum árið 1991 í 11.140 farþega árið 1997. Auðvitað fara hvalveiðar og hvalaskoðun ágætlega saman eða því í ósköpunum skyldu menn ekki fara í hvalaskoðunarferðir á Skjálfandaflóa og víðar þó hvalir væru veiddir við vesturströndina?

Við eigum að nýta þessa auðlind, hvalina í hafinu, á þrjá vegu. Í fyrsta lagi með því að veiða hval og vinna afurðirnar. Í öðru lagi með hvalaskoðunarferðum og í þriðja lagi með því að sýna ferðamönnum hvalvinnslu.

Meðan hvalstöðin í Hvalfirði var starfrækt þá komu þangað þúsundir og aftur þúsundir ferðamanna á hverju sumri, bæði til þess að sjá þessar risaskepnur dregnar á land og til að fylgjast með hvalskurðinum. Skoðunarferðir í hvalstöðina voru einhverjar vinsælustu ferðir sem hótel og ferðaskrifstofur í Reykjavík buðu upp á og þá var gjarnan farið um sveitir Borgarfjarðar í leiðinni og komið við í Reykholti, Borgarnesi, Akranesi og víðar.

Þessi tillaga gerir ráð fyrir að leyfðar verði veiðar á þeim hvalategundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til. Ég tel afar mikilvægt að þannig verði staðið að veiðunum. Meðan Íslendingar stunduðu hvalveiðar var þess vandlega gætt að standa þannig að málum. Farið var eftir ströngustu reglum, t.d. um lágmarksstærð veiddra dýra og friðun mjólkandi hvalkúa.

Síðasta áratuginn sem veiðarnar voru stundaðar í atvinnuskyni var fulltrúi Alþjóðahvalveiðiráðsins til eftirlits meðan á veiðunum stóð, til að tryggja að farið væri að settum reglum. Því eftirliti var komið á með samkomulagi við norsk, kanadísk og spænsk stjórnvöld. Þá hefur Hafrannsóknastofnun um langt árabil stundað umfangsmiklar hvalarannsóknir sem beindust einkum að því, meðan hvalveiðar voru stundaðar, að auka þekkingu á ástandi og veiðiþoli þeirra hvalastofna sem nýttir voru hér við land og áhrifa veiðanna á þá. Þessar rannsóknir voru m.a. gerðar í samstarfi við erlenda rannsóknaraðila. Ítarlegar líffræðilegar athuganir voru gerðar á öllum lönduðum stórhvölum. Gerðar voru nákvæmar úttektir á sambandi afla og sóknar í hvalveiðunum og framkvæmdar umfangsmiklar hvalamerkingar og talningar. Ég held að þetta atriði, hversu mikil áhersla var lögð á ráðgjöf og eftirlit færustu vísindamanna varðandi veiðar okkar og vinnslu, styrki stöðu okkar mjög. Einhvern tímann kemur auðvitað að því að afstaða til hvalveiða færist af tilfinninganótum og farið verður að taka tillit til raka og vísindalegra sjónarmiða. Þá mun engin þjóð standa betur að vígi en við Íslendingar.

Sjómönnum ber saman um að mikil hvalamergð sé í hafinu við Ísland. Ár frá ári gerist hvalurinn ágengari og truflar mjög veiðar nótaskipa sem oft hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna þess. Sjálfsagt er erfitt að meta fjölda einstakra hvalategunda en fyrir áratug var gerð nokkuð ítarleg talning sem stóð í þrjú sumur árin 1986, 1987 og 1989. Þar var samstarf við aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf í tveimur stórum leiðöngrum sem tóku til hafsvæðisins frá Vestur-Grænlandi að ströndum Noregs, og frá Svalbarða að ströndum Spánar þar sem mest voru 15 skip og tvær flugvélar samtímis í talningu. Af Íslands hálfu tóku þátt í þessu verkefni þrjú skip og ein flugvél sumarið 1987 og fjögur skip sumarið 1989. Við þessa talningu fengust miklar upplýsingar um útbreiðslu hvala og stærð hvalastofna á rannsóknarsvæðinu, ekki síst hvað viðkemur hvalastofnum sem nýttir hafa verið hér við land á undanförnum áratugum. Þessar rannsóknir leiddu m.a. í ljós eftirfarandi niðurstöður:

Um 28.000 hrefnur voru á Mið-Atlantshafssvæðinu, þar af tæpur helmingur á íslenska strandsvæðinu. 15.600 langreyðar voru á hafsvæðinu Austur-Grænaland/Ísland/Jan Mayen, þar af um 8.900 langreyðar á svæðinu milli Austur-Grænlands og Íslands norðan 50°N. 10.800 sandreyðar voru á leitarsvæði íslensku skipanna. Tæplega 2.000 hnúfubakar voru á íslenska strandsvæðinu. Vegna sérstakrar köfunarhegðunar búrhvals liggja ekki fyrir áreiðanlegir útreikningar á fjölda dýra en eftir talningar 1987 og 1989 töldu sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar vafalítið að búrhvalir skiptu nokkrum þúsundum á íslenska talningasvæðinu.

Þessi upptalning sýnir að það er mikil hvalamergð í hafinu við Ísland og ætla má að þær tölur um fjölda einstakra tegunda sem ég nefndi hér hafi allt að því tvöfaldast síðan talningin fór fram. Talið er að hvalurinn fjölgi sér um 5--10% á ári, misjafnt eftir tegundum. Að mínu áliti er deginum ljósara að Íslendingum er ekki bara óhætt heldur nauðsynlegt að hefja hvalveiðar að nýju til að raska ekki frekar en orðið er lífkerfi hafsins. Takmarkalaus fjölgun hvala hlýtur að bitna á fiskstofnunum og valda samdrætti í fiskveiðum en talið er að árleg neysla þeirra nemi mun meira í tonnum talið en heildarársafli Íslendinga.

Ástæða er til að minna á samþykktir ýmissa alþjóðastofnana um hvalveiðar. Ég gat áðan um viðauka við samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins og minni jafnframt á hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, samþykkt Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun og samþykkt 44. þings Evrópuráðsins. Það verður að gera þá kröfu að þær þjóðir sem standa að þessum alþjóðastofnunum standi við samþykktir þeirra en vinni ekki gegn þeim eins og reyndin hefur því miður orðið hjá nokkrum þeirra. Þar má nefna t.d. Bandaríkin, Bretland og Þýskaland en stjórnvöld í þessum ríkjum hafa lagst mjög gegn hvalveiðum. Bandaríkjamenn hafa þar gengið hvað lengst með ýmsum aðgerðum, svo sem viðskiptahótunum. Dæmi um afskiptasemi þeirra kom fram í viðtali við Jón Júlíusson kaupmann í Nóatúni í vetur en þessi ágæti kaupmaður hugsðist flytja inn hvalrengi frá Noregi til neyslu á þorrablótum. Af því tilefni fékk hann upphringingu frá bandaríska sendiráðinu þar sem hann var spurður spjörunum úr um fyrirætlanir sínar. Þetta er auðvitað óþolandi afskiptasemi erlends ríkis sem ástæða er til að mótmæla.

Sama má auðvitað segja um Breta og Þjóðverja. Það má minna á það sem hæstv. sjútvrh. sagði við umræðu um hvalveiðar á Alþingi fyrir nokkrum árum, að við háðum langa baráttu til að koma fiskiskipum þessara þjóða út fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögumörkin. Nú verja þessar sömu þjóðir hvalina og hindra okkur í að nýta hvalina þannig að eðlilegt jafnvægi ríki í lífríki hafsins umhverfis landið. Þannig halda þær enn fram stefnu sem skaðar hagsmuni okkar líkt og áður.

Herra forseti. Þjóðin vill að hvalveiðar verði hafnar að nýju. Um það vitna ítrekaðar skoðanakannanir ár eftir ár. Þær hafa sýnt 80--90% fylgi við veiðarnar. Meira að segja voru 80% þeirra sem afstöðu tóku þeirrar skoðunar í könnun Stöðvar 2 nýlega þrátt fyrir alla umræðuna um Keiko og hvalaskoðun.

Þá minni ég á ítrekaðar áskoranir fjölda félaga og hagsmunasamtaka um allt land þar sem hvatt er til hvalveiða. Með þessari tillögu er fylgiskjal, auglýsing sem birst hefur í Morgunblaðinu, þar sem skorað er á Alþingi að sjá til þess að hvalveiðar við Ísland verði heimilaðar strax. Þeir sem standa að þessari áskorun eru öll 11 útvegsmannafélög landsins, Farmanna- og fiskimannasambandið, Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasambandið, Fiskifélag Íslands, Alþýðusamband Íslands, Dagsbrún og fjöldi annarra verkalýðs- og sjómannafélaga, Bændasamtök Íslands, Iðnnemasamtök Íslands og mörg sveitarfélög. Svipaðar samþykktir hafa verið gerðar hjá Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna og fleiri samtökum.

Ég tel að Alþingi geti ekki látið eins og því komi þetta ekkert við, ár eftir ár. Alþingi verður að taka afstöðu til þessa máls. Fyrsta skrefið til þess að við hefjum hvalveiðar að nýju er að Alþingi samþykki að leyfa veiðarnar. Þess vegna er þessi tillaga lögð fram.

Ég legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. sjútvn.