Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 21:50:05 (5849)

1998-04-28 21:50:05# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[21:50]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf kannski ekki nema eina mínútu. Ég vil fyrst segja að það vekur undrun mína í hvað hv. þm. hefur eytt ræðutíma sínum, einum og hálfum klukkutíma tæplega og talað um flest annað en það frv. sem hér er á dagskrá, að vísu tengd mál, ég geri ekki lítið úr því og að hluta til beint því til mín. Ég veit ekki hvað ég á að taka mikinn tíma frá hv. þingi til þess að svara spurningu sem ekki varðar það frv. sem er á dagskránni.

Fyrst spurði hv. þm. um það hvernig frv. sem umhvrh. hefur lagt fram í dag komi til með að mæta sjónarmiðum hv. þingmanna. Ég verð að ætla að það geri það vegna þess að átta af níu hv. þingmönnum í félmn. hafa lýst yfir stuðningi við frv., þ.e. frv. til sveitarstjórnarlaga, að vísu með fyrirvara, miðað við það að það sem hér er lagt fram í frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum geti talist ásættanlegt af þeirra hálfu og það er aðeins einn hv. þm. sem ekki treystir sér til þess að fylgja málinu. Að sjálfsögðu veit ég ekki hver afstaða níutíumenningana er.

Hv. þm. spurði hvað ráði vali í nefndina. Það er líklega nokkuð ljóst að annars vegar er verið að tala um samfellu í vinnunni um skipulag miðhálendisins með því að þeir sem hafa verið tilnefndir í sitjandi nefnd sitji þar áfram og þeir sem mest hafa haft uppi gagnrýni um að fá ekki að koma að málinu fá aðild að svæðisskipulagsnefndinni til þess að fjalla um mál áfram.

Hv. þm. spurði hvort aðrar leiðir en hér eru boðaðar í frv. umhvrh. hefðu verið skoðaðar. Vafalaust hafa menn velt fyrir sér fleiri hugmyndum en af minni hálfu er alveg skýrt að ég tel að stjórnsýsla á miðhálendinu eigi að heyra undir sveitarfélögin þannig að mín afstaða til þessa máls og þess frv. sem hér liggur fyrir mótast auðvitað af því.

Þá velti hv. þm. fyrir sér skoðunum skipulagsstjóra, Stefáns Thors til vinnubragðanna og að skipulagsstjóri hefði sett fram hugmyndir um að það ætti að standa öðruvísi að þessu en miðhálendisnefndin svokallaða hefur gert. Ég minni á að vinna miðhálendisnefndarinnar er að fyrirmælum löggjafans. Hv. Alþingi samþykkti lög um það hvernig standa ætti að þeirri vinnu og ég held að hv. þm. sem hér talaði áðan hafi átt aðild að ríkisstjórn, sennilega setið í henni, þegar það mál var til umræðu á hv. þingi og samþykkt.