Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 21:58:51 (5853)

1998-04-28 21:58:51# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SF
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[21:58]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að ræða aðeins um hvernig þetta frv. var unnið í félmn. Það var mjög ítarlega fjallað um þetta mál þar. Við notuðum mikinn tíma í það og ég vil taka undir orð formanns félmn., hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, fyrr í umræðunni, að það var mjög vel staðið að vinnslu þessa máls og ekkert óeðlilega staðið að málum. Málið var fullunnið í nefndinni og það var tekið út eftir að við vorum búin að fara yfir það mjög vandvirknislega.

Í þessari umræðu hefur mikið verið rætt um að það bæri að gera miðhálendið að einu stjórnsýslusvæði. Ég get tekið undir það að vissu leyti. Ég hafði svipuð sjónarmið á fyrri stigum málsins. Ég vildi þá að það yrði skoðað að gera miðhálendið að einu stjórnsýslusvæði. Það eru ýmsir kostir við það, reyndar ýmsir gallar líka. En ég fann fljótt að enginn vilji var til þess að gera miðhálendið að einu stjórnsýslusvæði þannig að ég ákvað að leggja alla mína krafta í það ásamt fleiri stjórnarliðum að ná fram nánast því sama, þ.e. að skoða sérstaklega skipulagsþáttinn sem er aðalatriði þessa máls og ég ætla að fjalla um síðar.

[22:00]

Á þessu frv. gerir félmn. nokkrar breytingar og ég ætla aðeins að tipla á þeim hér. Við gerum breytingar á 4. gr. þannig að sveitarstjórn geti ekki ákveðið nafn sveitarfélags nema að fenginni umsögn örnefnanefndar. Það er betra ferli en að var stefnt, að fara ætti með nafngiftir sveitarfélaga eins og um nafngiftir tiltekinna býla.

Við höfum líka lagt til breytingu á 5. gr. varðandi byggðarmerki. Þar kom sterk ábending frá Einkaleyfastofunni um að sá farvegur sem þau mál áttu að fara í samkvæmt frv. væri ekki nógu skýr og það mundi skarast á milli ráðuneyta þannig að ákveðið var að fella niður svokallaða byggðarmerkjanefnd sem frv. gerði ráð fyrir og fela Einkaleyfastofunni hlutverk hennar. Reyndar er það svo að byggðarmerki þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur, þ.e. kröfur skjaldarmerkjafræðinnar. Það eru afar fáir sem hafa þekkingu í skjaldarmerkjafræðum á Íslandi og við leggjum til í okkar áliti að iðnrh. setji reglur um skilyrði sem byggðarmerki þurfa að lúta, þar á meðal að þau falli að skjaldarmerkjafræðum.

Við 7. gr. lögðum við til breytingu sem varðar almennar skyldur sveitarfélaga en fjölmörg sveitarfélög reka fyrirtæki á eigin ábyrgð og hafa þessi fyrirtæki greitt sveitarsjóðum arð þegar rekstur þeirra hefur leyft. Hér er aðallega um hitaveitur að ræða. Fjölmörg sveitarfélög hafa getað tekið inn talsverðar tekjur af hitaveitum og segja má að alveg sé réttlætanlegt að þau sveitarfélög sem búa það vel að eiga slíkar auðlindir ættu að geta notið þeirra eins og ýmis sveitarfélög njóta annarra auðlinda sem þau hafa. Hér er skotið stoðum undir slíka heimild til þess að þessi fyrirtæki greiði sínum sveitarfélögum arð. Það kemur fram í okkar áliti að í framhaldi af þessu muni þurfa að gera breytingar á orkulögum og lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. En mér skilst að þau muni koma fyrir þingið næsta haust. Væntanlega verður þar kveðið eitthvað á um hvað sveitarfélög geta tekið t.d. mörg prósent í arð af sínum orkuveitum.

Við leggjum líka til breytingu á 3. mgr. 19. gr. sem fjallar um hæfi sveitarstjórnarmanna. Þar skilgreinum við nánar hvað átt er við og bætum við að þar sé um að ræða tiltekin mál sem lögð eru fyrir sveitarstjórn. Við getum tekið sem dæmi að í framboð fari manneskja sem starfi á skrifstofu hjá sveitahreppi og það gætu komið upp áhöld um hvenær slík manneskja er hæf eða vanhæf til þess að fjalla um mál í sveitarstjórn ef hún næði kjöri. En hér er verið að þrengja skilgreininguna þannig að það væru einungis tiltekin mál sem slíkur aðili eða slíkur starfskraftur hefði komið að sem hann ætti ekki að fylgja alla leið í gegnum sveitarstjórnina.

61. gr. frv. fjallar um fjárhagsáætlanir og í brtt. leggjum við til að ekki verði hróflað við núgildandi lögum þannig að við fellum út það sem er í frv. um að sveitarfélög eigi að gera og skila fjárhagsáætlunum fyrir áramót en það hefur komið í ljós að t.d. framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru ekki komin á hreint fyrr en eftir áramót og þykir þá ekki óeðlilegt að leyfa sveitarfélögunum að ganga frá sínum fjárhagsáætlunum eins og þau gera nú, þ.e. eftir áramót.

Við breytum einnig 65. gr. sem fjallar um miklar fjárfestingar. Þar er lagt til að skylt verði að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila ef kostnaðaráætlun fer fram úr ákveðinni upphæð að því verki sem á að fjárfesta í. Hér er rétt að taka fram varðandi það hver þessi sérfróði aðili er, að t.d. getur verið um að ræða viðskiptafræðimenntaðan eða tæknimenntaðan aðila sem vinnur á bæjarskrifstofunum.

Varðandi eftirlitsnefndina sem er kveðið á um í 74. gr. frv., þá gerum við breytingu sem minnkar, má segja, vald hennar, þ.e. að ákvarðanir þessarar eftirlitsnefndar eigi ekki að vera endanlegar á stjórnsýslusviðinu heldur verði hægt að kæra þær til ráðherra. Það er því verið að minnka vald eftirlitsnefndarinnar. Hún er ekki endanlegt stjórnvald.

Að lokum er lögð til breyting á 94. gr. frv. Hún gengur út á að hægt verði að sameina sveitarfélög yfir mörk kjördæma en slík sameining á ekki að hafa áhrif á skipan kjördæma við alþingiskosningar. Tekið er fram í áliti meiri hluta nefndarinnar að hér sé átt við sameiningu nærliggjandi og nálægra sveitarfélaga, þ.e. að það ætti væntanlega ekki að vera hægt að sameina sveitarfélag á Vestfjörðum og Reykjavík svo dæmi sé tekið. Þessi breyting þýðir að ef sveitarfélög óska þess að sameinast þvert á kjördæmamörk í framtíðinni þá þarf ekki að fara með lítil fylgifrumvörp í gegnum þingið eins og við höfum t.d. gert á yfirstandandi þingi þar sem var samþykkt að sameina Kjalarneshrepp og Reykjavík.

Þetta voru helstu brtt. sem við í félmn. lögðum til við þetta frv.

Varðandi skipulagsþáttinn sem hér hefur kannski verið langmest rætt um og er kannski ekkert skrýtið --- það er bærileg sátt um allt annað --- þá er ljóst að bæði ég og hv. þm. Pétur Blöndal gerðum fyrirvara um stuðning okkar við þetta frv. Í þeim fyrirvara kemur fram að við teljum eðlilegt að skipulags- og byggingarmálum miðhálendisins verði skipað þannig að um eina skipulagslega heild verði að ræða. Við tökum einnig fram í okkar fyrirvara að fulltrúar allra landsmanna eigi að koma að ákvörðun um þetta skipulag. Í dag er ekki skylt að skipuleggja miðhálendið sem eina heild heldur er um það heimildarákvæði og það er of veikt að okkar mati. Tveir aðrir hv. þm., Kristín Ástgeirsdóttir og Ögmundur Jónasson, gera svipaðan fyrirvara og við hv. þm. Pétur Blöndal gerum við þetta frv.

Fram kom í umræðunni fyrr í dag að nú þeki sveitarfélög hluta Íslands og að með samþykkt þessa frv. hérna værum við að færa framkvæmdarvaldið á um það bil helmingi Íslands eða 40% til sveitarfélaga. Þetta er ekki rétt. Þetta er alls ekki rétt. Þetta taldi ég sjálf reyndar um tíma og ég finn að margir telja að þetta sé svona. En þetta vald er hjá sveitarfélögunum í dag hvort sem okkur líkar betur eða verr. Miðhálendið skiptist upp í fjölmarga afrétti og í 3. mgr. 3. gr. núverandi sveitarstjórnarlaga stendur að afréttir falli undir sveitarfélög þannig að í dag er það svo að nánast allt miðhálendið fellur undir sveitarfélög, utan jökla og lítillar ræmu efst á miðhálendinu utan afrétta, það er einungis það svæði sem nú er fjallað um að eigi að falla undir sveitarfélögin og það eru alls ekki 40% landsins. Það er mun minna. Þetta vita hv. þm., að það er rangt að við séum að færa 40% Íslands í dag undir sveitarfélögin. Núverandi lög segja að afréttir falla undir sveitarfélög þannig að þessi tala stenst engan veginn.

Ef miðhálendið yrði hins vegar gert að einu stjórnsýslusvæði þá er það alveg rétt að það væri góð leið að því leyti að þá væri hægt að ná utan um skipulagsþáttinn. En búið er að dreifa á borð þingmanna tillögu að breytingu á skipulags- og byggingarlögum þar er tekið á því þannig að með samþykkt slíkrar tillögu á þetta svæði að verða ein skipulagsleg heild. Skylt yrði að gera heildstætt svæðisskipulag og ákveðið ferli gagnvart aðalskipulaginu þannig að við sæjum ekki 42 kökusneiðar eins og sumir hafa kallað það svo í umræðunni, að þær yrðu skipulagðar þannig að ekkert samræmi væri þar á milli. Það er ekki hugsanlegt eftir samþykkt frv. sem hér hefur verið lagt á borð hjá okkur í dag, frv. um breytingar á skipulags- og byggingarlögum.

Í því frv. er einnig komið til móts við þau sjónarmið sem bæði ég og fleiri þingmenn höfum haft uppi um að fleiri sjónarmið ættu að koma þar að en hafa komið að hingað til, þ.e. í vinnu núverandi samvinnunefndar, en þar eiga sæti fulltrúar frá héraðsnefndum sveitarfélaga aðliggjandi miðhálendinu.

Í þessu nýja frv. sem við höfum séð í dag um breytingu á skipulags- og byggingarlögum er bætt við í þá nefnd eða við þann fjölda fulltrúa sem nú eru þar, íbúum frá þéttbýlinu, þ.e. tveir eiga að koma frá Reykjavík, einn frá Reykjanesi, einn frá Vestfjörðum og síðan eiga að koma (Gripið fram í: Vestmannaeyingur?) fulltrúar frá ríkisvaldinu, þ.e. frá umhvrn. og félmrn. sem ég tel vera afar mikilvægt að fá þarna inn í nefndina. Ég skal ekki segja hvort þeir koma frá Reykjavík, Reykjanesi eða einhverjum öðrum kjördæmum, en þeir eru fulltrúar ríkisvaldsins, þ.e. landsins alls. Hér er því tekið á þessum helstu atriðum sem ég hafði sett fyrir mig, þ.e. að tryggt er að miðhálendið verði skipulagt sem ein heild. Í þessari nefnd koma fram sjónarmið frá íbúum alls landsins.

Við getum auðvitað deilt lengi um það í hvaða hlutföllum þessir aðilar eiga að vera þarna inni. (ÖS: Hvað koma margir úr Reykn.?) Ég er hins vegar mjög sátt við þessa lendingu. Þarna koma þessi sjónarmið að og það er mjög ánægjulegt að okkur tókst að lenda því þannig. (Gripið fram í: 1/15 úr Reykjanesi.) Við erum því búin að ná þeim eiginleikum sem eitt stjórnsýslusvæði ber í sér.

Þá það sem stendur út af. Hver er munurinn á þessari leið og að gera miðhálendið að einu stjórnsýslusvæði? Það sem stendur út af eru önnur verkefni sveitarfélaga en skipulags- og byggingarmál. Það er t.d. heilbrigðiseftirlitið sem ég tel ekki mjög brýnt að sé tekið af þessum sveitarfélögum og það eru önnur hefðbundin verkefni sveitarfélaga eins og öldrunarþjónusta, skólaþjónusta, félagsþjónusta og ýmislegt annað sem snýr að þjónustu við fólk. En þetta hefur lítið gildi á miðhálendinu þar sem engir íbúar eru, a.m.k. ekki nú.

Ég vek hins vegar athygli á því að fyrr í umræðunni hafa jafnaðarmenn talað mjög fjálglega um að þeir vilji gera þetta að einu stjórnsýslusvæði og hafa sagt að okkar málflutningur og tillögugerð beri vott um valdníðslu og hroka. Ég get alls ekki tekið undir það og minni á að Alþfl. kom sterklega að málum fyrr á Alþingi þegar málum var stýrt í þann farveg sem þau eru í núna. Þá var skipuð miðhálendisnefnd sem í eru þeir fulltrúar sem þar hafa starfað síðan og þar er enginn frá þéttbýlinu, hvorki frá Reykjavík né Reykjanesi og enginn frá Vestfjörðum. Og mér hefur borist til eyrna að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hélt sérstakan blaðamannafund til þess að kynna þessa nefnd þannig að varla var það valdníðsla og hroki.

[22:15]

Í umræðunni hefur líka verið komið inn á að þetta frv. sem fjallar um skipulags- og byggingarlög sé óþarfafrv. Það er alls ekki þannig. Í núgildandi skipulags- og byggingarlögum er einungis um heimildarákvæði að ræða. Það er að mínu mati ekki nóg þannig að frv. um skipulags- og byggingarlög felur alveg skýrt í sér að skipuleggja eigi miðhálendið sem eina heild og það tryggir líka aðkomu þeirra landshluta sem ég taldi upp áðan.

Ég hefði viljað skjóta því einnig inn að í núverandi samvinnunefnd eru 12 eða 13 karlmenn að mig minnir og ég teldi mjög æskilegt og vona svo sannarlega að núna þegar nefndin stækkar verulega, verður 18 manns, að þar verði einnig konur og sjónarmið þeirra komi líka fram.

Hér hafa komið fram þau sjónarmið að brýnt væri að ná málinu fram á þessu vori. Það hafa fulltrúar Alþb. komið með og það má svo sem segja að fræðilega væri það hugsanlega hægt en ég bendi þá á að þingflokksformenn verða að taka slíkt upp. Væntanlega mundi það lengja þinghaldið og ég býst varla við því að þingmenn vilji lengja þinghaldið fram yfir 8. maí en ef þingflokksformenn ná samstöðu um að lengja þinghald væri ég tilbúin til þess að sitja yfir þeirri vinnu.

Ég vil líka minnast á tillögu minni hluta félmn. sem er með sérstaka útfærslu á þessu eina stjórnsýslusvæði sem yrði stýrt af að mig minnir níu aðilum og þar kæmu fimm frá ráðuneytum en fjórir frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þ.e. frá sveitarfélögunum. Það vekur athygli mína að þau ráðuneyti sem þar eru talin upp eru forsrn., félmrn. og umhvrn. Gott og vel, en þarna kemur líka samgrn. og iðnrn. að. Ég vek athygli á því að þau ráðuneyti eru ekki inni í stjfrv. þannig að ég býst við að það yrðu harðari átök í þessari nefnd sem fulltrúar Alþfl. hafa stungið upp á að stýri þessu eina stjórnsýslusvæði en sú miðhálendisnefnd sem stjórnarflokkarnir hafa stungið upp á að færi með skipulagsmál á miðhálendinu.

Virðulegi forseti. Þar sem langt er liðið á kvöldið ætla ég ljúka máli mínu með þeim orðum að ég fell frá þeim fyrirvara sem ég hef gert við stuðning minn við sveitarfélagafrv. Það er alveg ljóst að það er góð samstaða um þessa lendingu í félmn. sem hefur legið lengi yfir málinu. Þar sýnist mér að átta af níu styðji í stórum dráttum þá leið sem hér er farin og ég er mjög sátt við að það hafi náðst nokkuð góð pólitísk breidd um að afgreiða málið þannig.