Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 22:19:34 (5854)

1998-04-28 22:19:34# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[22:19]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var aldeilis furðuleg ræða hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Ég átti von á því að hún mundi ekki ljúka ræðunni á því að falla frá fyrirvaranum heldur tvöfalda þann fyrirvara sem hún hafði við málið.

Það kemur í ljós þegar lesið er þetta sáttafrv., sem hún greindi frá, að m.a. er fólgið í því að skipa 18 manna nefnd. Það kemur einn fulltrúi af Reykjanesi þar sem búsett eru 73 þúsund manns. Það koma tveir fulltrúar frá Reykjavík þar sem búsettir eru yfir 110 þúsund manns. Þar sem 2/3 hlutar þjóðarinnar búa koma 1/6 af fulltrúum í nefndinni. Þar að auki á nefndin ekkert að hafa að segja vegna þess að gamla nefndin getur klárað skipulagið og ráðherra getur staðfest það eins og segir í þessu frv. Þetta er markleysa ein og það væri nær af hv. þm. að koma hér upp eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hafði þó manndóm í sér til að gera fyrr í kvöld og lýsa andstöðu við það upplegg sem hér er á ferðinni.