Svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:31:13 (5875)

1998-04-29 10:31:13# 122. lþ. 114.92 fundur 328#B svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:31]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og hæstv. forseti veit tók það hæstv. viðskrh. þrjá mánuði fyrr á þessu þingi að svara fyrirspurn minni um laxveiðikostnað í ríkisbönkunum og Seðlabanka þó að hann hefði aðeins til þess tíu virka daga.

Nú stefnir í það sama varðandi aðra fyrirspurn sem ég hef lagt fram um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará en hæstv. ráðherra hefur haft einn og hálfan mánuð til að svara þeirri fyrirspurn þó að hann hafi einungis til þess tíu virka daga. Í gær barst mér bréf frá viðskrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Að höfðu samráði við yður og fyrirspyrjanda óskaði ráðuneytið eftir því við Ríkisendurskoðun að hún ynni greinargerð um málið á grundvelli þeirra spurninga sem fram komu í fyrirspurninni. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun er greinargerð þessi í undirbúningi en sökum anna liggur ekki fyrir hvenær hún verður tilbúin.``

Það verður ekki annað séð, herra forseti, af þessu bréfi ráðherra en að viðskrh. muni ekki svara þessari fyrirspurn áður en þingi lýkur. Mér finnst það engin rök í málinu að bera fyrir sig önnum hjá Ríkisendurskoðun vegna þess að það hefur legið fyrir allan tímann að Ríkisendurskoðun var upptekin og er upptekin og hefur mikið að gera og ráðherra bar þá að gera aðrar ráðstafanir til þess að Alþingi fengi svar við þessari fyrirspurn.

Herra forseti. Reyndar er einnig ósvarað beiðni minni til forsætisnefndar um að Ríkisendurskoðun fari ofan í risnu, ferðakostnað og laxveiðar Búnaðarbanka og Seðlabanka og staðreyni þau svör sem ég hef fengið frá ráðherra um þessi efni vegna þess að það er ástæða til þess að fara ofan í risnu, ferðakostnað og laxveiðileyfi hjá Búnaðarbanka og Seðlabanka í ljósi þess að Alþingi fékk villandi upplýsingar um þessa þætti frá Landsbanka.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Má vænta þess að svör berist áður en þingi lýkur? Í upphafi þegar þessi fyrirspurn var lögð fram nefndi ég það við ráðherra að, ef það mætti vera til að greiða fyrir málinu, að ég væri tilbúin til þess að fækka þeim árum sem um er spurt varðandi Hrútafjarðará en þau voru 15. Það hefur greinilega ekki dugað. Ég óska eftir atbeina forseta þingsins til þess að hæstv. viðskrh. svari þessari fyrirspurn og einnig þeirri sem lýtur að Seðlabanka og Búnaðarbanka, áður en þingið lýkur störfum.