Svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:39:49 (5879)

1998-04-29 10:39:49# 122. lþ. 114.92 fundur 328#B svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:39]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að bera þetta mál upp. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að fyrirspurnir sem eru lagðar fyrir ráðherra eru lagðar fyrir ráðherra sem framkvæmdarvald. En það virtist koma fram í svari hæstv. ráðherra að hann hefði ekki treyst Landsbankanum til að svara þessari fyrirspurn --- ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo --- og því hefði hann sent fyrirspurnina til Ríkisendurskoðunar sem er undirstofnun Alþingis. Síðan er því borið fyrir sig hér að vegna anna undirstofnunar Alþingis geti hæstv. ráðherra ekki svarað þeirri fyrirspurn sem til hans er beint samkvæmt þingsköpum.

Virðulegi forseti. Ég held að æskilegt sé að það komi svar jafnvel af forsetastóli hvort eðlilegt sé að fyrirspurnir sem beint er til ráðherra séu framsendar til undirstofnana Alþingis. Ég held að það sé vel þess virði að bara þessi hugmyndafræði sé skoðuð. Enn frekar held ég að það sé mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri það hér hvort það sé réttur skilningur að þessi fyrirspurn hafi verið framsend sökum þess að hann treysti því ekki að Landsbankinn skili réttum upplýsingum. Ég held að nauðsynlegt sé að skýra frekar orð hæstv. viðskrh., virðulegi forseti.