Svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:41:13 (5880)

1998-04-29 10:41:13# 122. lþ. 114.92 fundur 328#B svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er alveg rétt sem fram kom í máli hæstv. viðskrh. að ég gerði ekki athugasemd við það að þessari fyrirspurn yrði beint til Ríkisendurskoðunar í ljósi þeirra staðreynda sem við höfðum fyrir framan okkur, þ.e. að Landsbankinn hafði gefið Alþingi rangar upplýsingar. En auðvitað er það umhugsunarvert sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson segir.

Ég fagna því að ráðherra ætlar að beita sér fyrir því sem hann á auðvitað að gera, að þingið fái þessi svör en segi enn og aftur að vitað var að Ríkisendurskoðun var upptekin. Hæstv. ráðherra átti að bregðast fyrr við því og leita þá annað til að fá svar við þessari fyrirspurn sem hann nú gerir í ljósi þess að þessar umræður fara hér fram. Þess vegna verð ég að treysta því, herra forseti, að hæstv. ráðherra standi við það sem hann hefur sagt, að við fáum svar við þessari fyrirspurn. Hún er nokkuð ítarleg en ráðherrann hefur líka haft einn og hálfan mánuð til að svara henni.

Ég beini því líka til hæstv. forseta hvort við megum vænta þess að fá svör við þeirri beiðni minni um að Ríkisendurskoðun fari ofan í risnu- og ferðakostnað Búnaðarbankans og Seðlabankans, sem þingflokkur Alþb. og óháðra hefur reyndar einnig beðið um, og að við fáum þau í tíma þannig að við getum rætt þessi mál áður en þing fer heim.

Reyndar er umhugsunarvert hvernig þingsköpunum er háttað. Alþingi starfar allt árið og þingmenn eiga að geta, einnig yfir sumartímann, beint fyrirspurnum um brýn málefni til ráðherranna þó að þingið sé ekki beint starfandi og teldi ég að hæstv. forsn. ætti að taka það mál til sérstakrar skoðunar. Og einnig að þó að þingið sé farið heim að hægt sé að svara fyrirspurnum sem hefur verið beint t.d. skriflega til ráðherranna en ekki hefur gefist tími til að svara. Þannig ættu þingsköpin að vera, herra forseti.