Frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:48:49 (5885)

1998-04-29 10:48:49# 122. lþ. 114.93 fundur 329#B frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Upp hefur komið undarleg staða í umræðunni um sveitarstjórnarlög. Fyrir páska var frv. tekið út úr félmn. þó um það væri ágreiningur og þá, að mati meiri hlutans, fullunnið í nefnd. Ljóst var að ágreiningur væri um veigamikið atriði í þessu frv., svokallað hálendismál, um stjórnsýslu á hálendinu.

Eftir að þetta frv. var tekið út hefur okkur borist til eyrna að stjórnarliðarnir hafi náð samkomulagi um hvernig skuli fara með skipulags- og stjórnsýslufyrirkomulag á hálendinu. Í skjóli þessa skrifuðu sumir nefndarmanna undir nefndarálit með fyrirvara til að standa að slíkri lausn. Ég árétta að slík lausn fullnægir ekki þeim viðhorfum sem jafnaðarmenn hafa um stjórnsýslu á hálendinu.

Nokkru eftir að umræða hefst um þetta stóra mál í gær, t.d. var undirrituð byrjuð með ræðu sína, er frv. dreift á borð þingmanna, sérstöku frv. um skipulags- og byggingarlög, með þeirri sáttargerð sem um hafði verið rætt. Þá kemur í ljós, í umræðum stjórnarliðanna, að það er aldeilis ekki sátt um málið. Hins vegar er frv. sem slíkt alls ekki á dagskrá. Við erum að ræða byggingar- og stjórnsýslumál á hálendinu í frv. um sveitarstjórnarmál. Ég hlýt að taka undir orð hv. þm. Svavars Gestssonar. Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð. Fyrir mig skiptir það engu máli hvort frv. fer á dagskrá. Það skiptir mig máli hvort það verður afgreitt af því að ég vona enn að við getum haft áhrif á stjórnarliðana þannig að þeir fallist á tillögu jafnaðarmanna. Ég tek hins vegar undir það að að sjálfsögðu á hafa slíkt mál á dagskrá, sé það svo þýðingarmikið í afgreiðslu þingmáls og hér um ræðir.