Frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:57:42 (5889)

1998-04-29 10:57:42# 122. lþ. 114.93 fundur 329#B frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:57]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Sú staða var komin upp í umræðum í gær að tveir af forustumönnum stjórnarflokkanna í umhvn., annars vegar formaður nefndarinnar og hins vegar oddviti sjálfstæðismanna innan þings í umhverfismálum og væntanlegur umhvrh., höfðu báðir lýst andstöðu sinni við þá niðurstöðu sem hæstv. ráðherra hafði kynnt sem sáttaniðurstöðu, ekki bara innan sinna flokka við þá þingmenn sem verið höfðu á móti málinu, heldur einnig við einn stjórnarandstöðuflokkanna. Ég óskaði þá eftir því við hæstv. forseta að hann efndi til fundar með formönnum þingflokka til að skýra stöðu þessara mála og m.a. athuga hvort fylgi væri við það hjá formönnum þingflokka, að málið yrði tekið fyrir með afbrigðum. Ég átti satt að segja von á því, miðað við undirtektir forseta, að við fengjum að vita það nú hver hefði verið niðurstaðan af slíkum fundi. Nú kemur í ljós að sá fundur hefur aldrei verið haldinn.

Við skulum átta okkur á því að hér hafa fjórir þingmenn stjórnarflokkanna, ekki bara þrír heldur fjórir, talað um svokallaða sáttalausn. Þrír hafa verið meira eða minna á móti henni og í ljós hefur komið að sá eini sem sagt hefur sig fylgjandi henni, getur ekki skýrt hana. Því er enn frekari ástæða nú en í gær til þess að málið verði lagt fyrir. Ég vil benda hæstv. forseta á það að formaður þingflokks Alþb. hefur bókstaflega lýst því yfir að Alþb. og þingmenn þess séu reiðubúnir að greiða atkvæði með afbrigðum. Það ætti því ekki að vera vandasamt fyrir stjórnarflokkana að fá samþykkt afbrigði við þetta mál.

Ég hef aldrei upplifað það í minni þingmennskutíð að stjórnarandstaða hafi við þessar aðstæður hvatt til þess að atkvæði yrðu greidd um afbrigði á máli sem ríkisstjórn flytur og er of seint fram komið, eða að ríkisstjórn sem fær slíkt tilboð frá stjórnarandstöðunni skuli nánast hafna því. Hvers konar málatilbúnaður er þetta, virðulegi forseti, þegar ríkisstjórnin hafnar tilboði stjórnarandstöðunnar um að taka á dagskrá mál sem ríkisstjórnin flytur en er of seint fram komið?

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að það er enginn vandi að ná samkomulagi um að hafa lok þessa fundar einhvern tíma síðar í dag og setja nýjan fund þar sem þetta mál yrði tekið á dagskrá. Ég vísa enn til þess sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um 2. málsl. 1. mgr. 63. gr., að ef fram kæmi tillaga um að taka málið á dagskrá, þá yrði hún að ganga til atkvæða. Auðvitað er það tillaga um afbrigði. Ætla stjórnarflokkarnir þá að fella tillögu um afbrigði við sitt eigið mál?