Frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 11:03:33 (5892)

1998-04-29 11:03:33# 122. lþ. 114.93 fundur 329#B frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[11:03]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þegar ráðherra hefur lagt fram frv. á Alþingi, þá er málið komið úr hans höndum og í hendur þingsins. Ég óskaði ekki eftir því við hæstv. forseta að hann ræddi stöðu málsins við ráðherra. Ég óskaði eftir því við hæstv. forseta í gær að hann ræddi stöðu málsins við formenn þingflokkanna til þess að fá niðurstöður um það hvort hér í þinginu væru menn reiðubúnir til að greiða atkvæði með afbrigðum um að málið mætti koma á dagskrá. Þetta er alfarið mál þingsins en ekki mál ráðherrans þannig að hann hefur ekki lengur, herra forseti, neitt forræði á málinu. Það eina sem ráðherrann gæti gert ef hann vildi ekki að málið yrði tekið til afgreiðslu á þinginu væri að draga frv. til baka. Það er eina forræðið sem ráðherrann hefur á málinu úr því sem nú er komið, þ.e að skrifa Alþingi bréf og draga frv. til baka vilji hann ekki að þingið fjalli um það.

Ég ítreka það, herra forseti, að ég er að tala við forseta Alþingis sem oddvita þingsins, fulltrúa þessarar stofnunar sem tekur ákvörðun um hvernig með málið skuli fara. Það er ekki ákvörðunaratriði ráðherra. Ég ítreka þá ósk mína sem ég setti fram í gær og átti satt að segja von á miðað við undirtektir forseta þá að mundi verða fallist á, enda mjög eðlileg og sjálfsögð ósk, að forseti eigi fund núna sem allra fyrst með formönnum þingflokka um þetta mál þannig að fyrir liggi hvort stuðningur sé þá við það í þinginu að málið verði tekið til umræðu með afbrigðum. Það ræðst auðvitað af afstöðu þingflokksformanna og þingmanna stjórnarflokkanna því að stjórnarandstaðan hefur boðist til að greiða atkvæði með afbrigðum um mál ráðherra sem of seint er fram komið. Ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég minnist einskis fordæmis fyrir því að stjórnarandstaðan hafi boðist til að greiða fyrir því að mál væri tekið á dagskrá sem ráðherra flytur og flutningsmaður sjálfur skuli hafna því tilboði og bregða þannig fæti fyrir sitt eigið mál.

Nú er það ekki lengur á hans valdi, virðulegi forseti. Það er á valdi þingsins og það er þess vegna sem ég sný máli mínu til hæstv. forseta að óska eftir því að hann kanni það, ekki við ráðherrann heldur við þingflokksformennina, hvort vilji sé til þess að taka því tilboði stjórnarandstöðunnar að málið komist á dagskrá.