Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 11:54:57 (5898)

1998-04-29 11:54:57# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[11:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Skjótt skipast veður í lofti. Sá hv. þm. Kristján Pálsson sem talaði í gær hafði allt annan róm en sá hv. þm. sem talaði í dag. Maður gærdagsins varði með oddi og sleggju þá málamiðlun sem hæstv. umhvrh. lagði fyrir þingið í formi frv. til breytinga á skipulagslögum í gær. Maður dagsins í dag er hins vegar orðinn blandinn nokkrum efa.

Hv. þm. segir núna að það sé einungis útfærsluatriði hvernig samvinnunefndin um miðhálendið verði skipuð. Það liggur fyrir í frv. hæstv. umhvrh. að það eigi fyrst og fremst að vera sveitarstjórnarmenn auk tveggja fulltrúa frá tveimur ráðherrum. Nú segir hv. þm. og tekur undir gagnrýni hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar og hv. þm. Árna M. Mathiesens að það væri æskilegt að í þessari stjórn væru fulltrúar, t.d. aðila á borð við ferðamenn, útivistarhópa, skotveiðimenn, ferðafélög og annað útivistarfólk. Herra forseti, hv. þm. Kristján Pálsson tekur undir þá gagnrýni sem hefur komið fram m.a. frá jafnaðarmönnum á einmitt það atriði. Þetta er meginás deilunnar sem hefur skotið upp kolli í umræðunum og það gengur ekki að hv. þm. komi og segi að þetta sé útfærsluatriði. Hann verður að hafa skýra skoðun á því. Ef hann segir að það sé rétt að til að mynda fulltrúar útivistarhópa og ferðamanna eigi að hafa aðild að þessari nefnd, þá verður hann að segja það. Ef hann segir það, þá verður hann að gera sér grein fyrir því að hann er um leið að lýsa andstöðu við frv. sem og hæstv. ráðherra lagði fram í gær og sem hv. þm. lýsti yfir stuðningi við í gær. Hvað hefur gerst á þessari einu nóttu, herra forseti? Það sem hefur gerst er það að frækorn efans skutu rótum í gær og þau eru orðin að kímblöðum í dag. Hv. þm. er í raun að lýsa efasemdum um burðarásinn í því frv. sem hæstv. umhvrh. lagði fram og hann væri maður að meiri ef hann lýsti því yfir eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson að hann teldi að það ætti að breyta þessu systemi.