Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 12:03:59 (5902)

1998-04-29 12:03:59# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[12:03]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er verið að setja heildarlöggjöf um sveitarfélögin í landinu. Af umræðunni í dag og í gær mætti hins vegar ætla að málið snerist um skipulags- og byggingarlög. Það vill svo til að ég ber mikla virðingu fyrir því stjórnskipulagi sem við höfum hér á Íslandi og sveitarstjórnarstigið er annað þeirra tveggja stjórnsýslustiga sem við búum við. Ég furða mig því á þeim skamma tíma hv. þm. hafa varið til að fjalla um einstaka þætti frv. um sveitarstjórnarlögin. Umræðan hefur nú staðið lengi og ég mun því reyna að stytta umfjöllun mína um þetta efni. Ég vil þó nefna nokkur atriði.

Mikilvægur þáttur málsins er vissulega í 1. gr. frv. þar sem ákveðið er að landið allt skuli skiptast í sveitarfélög. Rétt er að taka það fram að það er að meðtöldum jöklum. Nauðsynlegt er að ljóst sé hver stjórnsýslumörk hvers sveitarfélags séu. Verkefni sveitarfélaga er m.a. að sinna ýmsum umhverfismálum, heilbrigðiseftirliti, hreinlætismálum, fjallskilamálum og almannavörnum, að ógleymdum skipulags- og byggingarmálum, þar með töldu byggingareftirliti sem virðist hafa skort á víða. Menn gleyma í þessari umræðu að kofum og alls kyns húsnæði hefur verið hrúgað niður á hálendinu og mönnum hefur þótt skorta á eftirlit með því.

Í umræðunni um þetta mál hafa verið notuð stór orð og m.a. að þetta sé atlaga að almannarétti, valdníðsla og fleira í þeim dúr. Hvaða valdníðsla felst í að sett séu lög um annað af þeim tveimur stjórnsýslustigum sem við höfum búið við um langan aldur?

Skyldur sveitarfélaga eru mjög miklar við íbúa sína og sveitarstjórnir hafa líka skyldur varðandi umhverfismál og hvers konar umgengni við landið og því verður það að vera ljóst hver staðarmörk þeirra eru eins og getið er um í 3. gr. frv.

Það eru nokkur önnur atriði sem ég vildi nefna, svo sem að meiri hluti félmn. gerði brtt. við 4. gr., varðandi nafngiftir á sveitarfélögum. Í umfjöllun menntmn. um bæjanöfn kom fram að e.t.v. væri ástæða til að örnefnanefnd fjallaði um að einhverju leyti nafngiftir sveitarfélaga og þeirri ábendingu var komið til félmn. Félmn. þótti rétt að taka upp þá ábendingu og fá umsögn örnefnanefndar um þær tillögur sem kæmu fram að nöfnum sveitarfélaga innan ákveðins tímafrests. Það ætti auðvitað að teljast mjög til bóta að fá sérfræðiálit örnefnanefndar. Þar er fyrir mikil þekking á þessari fræðigrein og auðvitað er skilyrt að nafn sveitarfélags skuli samræmast íslenskri málfræði og málvenjum.

Í brtt. meiri hluta félmn. er einnig brtt. við 7. gr. Þar var bætt við ákvæði um að fyrirtæki sveitarfélaga skuli setja sér arðgreiðslumarkmið. Til þessa hefur skort ótvíræðar heimildir fyrir sveitarfélög að krefjast arðs af fyrirtækjum sínum. Hér er sett inn svo ótvírætt sé að þetta er heimilt. Hér er aðallega verið að fjalla um rafveitur, hitaveitur og vatnsveitur en auðvitað geta önnur fyrirtæki komið til álita.

Í frv. eru vönduð ákvæði um framkvæmd stjórnsýsluathafna og skipulag sveitarstjórna. Ég tel að þurft hefði rýmri mörk hvað varðar fjölda sveitarstjórnarmanna í sveitarstjórnum. Eðlilegt hefði verið að sveitarstjórnir og íbúar sveitarstjórnanna hefðu sjálfdæmi um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Alla vega ætti ekki að þurfa að fækka í sveitarstjórn þótt fækki í sveitarfélaginu, a.m.k. ekki þar sem hefð er fyrir ákveðnum fjölda sveitarstjórnarmanna. Starf að sveitarstjórnarmálum er uppeldisgrunnur fyrir starf í lýðræðislegu þjóðfélagi en minnkandi áhugi á sveitarstjórnarmálum er áhyggjuefni. Auðvitað er nauðsynlegt að fleiri, frekar en færri, komi að starfi í sveitarstjórnum. Í hverju sveitarfélagi þarf að halda uppi ákveðnu nefndarstarfi. Ég tel betra að fulltrúar úr sem flestum nefndum sveitarfélagsins geti átt sæti í sveitarstjórninni sjálfri. Það myndar ákveðin tengsl á milli nefnda og sveitarstjórnar og þeirra sem þar starfa. Ég tel heppilegra að lögin þrengi ekki um of að því hversu marga fulltrúa menn ákveða að hafa í sveitarstjórn þó þetta hafi verið niðurstaðan.

Í frv. er ekki farið þá leið að telja upp þau verkefni sem sveitarstjórnum og sveitarfélögum eru falin með einstökum lögum, heldur er þess getið að sveitarfélög skuli rækja þau verkefni sem þeim eru falin samkvæmt þessu frv. og öðrum lögum, auk reglugerða og samþykkta sveitarfélagsins. Ég tel þetta vera rétta aðferð, því eins og við vitum er stefna núverandi stjórnarflokka að fela sem flest verkefni sveitarstjórnum. Fyrir dyrum stendur að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna og fleiri verkefni gætu fylgt á eftir. Því er óheppilegt að hafa upptalningu á verkefnum í lögunum sjálfum.

Í þessu frv. eru einnig ákvæði um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna, um samvinnu sveitarfélaga, m.a. byggðasamlög, með hvaða hætti þau skulu vera. Í frv. er getið um landshlutasamtök sveitarfélaga sem mitt gamla formannshjarta, í einum slíkum samtökum, fagnar. Þar er einnig ótvírætt ákvæði um að Samband íslenskra sveitarfélaga skuli vera sameiginlegur málsvari sveitarfélaga í landinu. Einnig er fjallað um stækkun sveitarfélaga og samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Kaflinn um fjármál sveitarfélaga er mjög til að styrkja alla fjármálastjórn þeirra. Breytingar eru á skyldu sveitarfélaga um upplýsingagjöf og upplýsingaskyldu og úrræði til að bregðast við alvarlegum fjárhagsvanda. Frá núgildandi lögum er sú mikilvæga breyting gerð að út skuli fellt ákvæði um heimild sveitarfélaga til að veita einfalda ábyrgð til þriðja aðila. Almennt er það mat sveitarstjórnarmanna að þetta ákvæði hafi verið erfitt í framkvæmd og oft notað, t.d. af bankastofnunum, til að fría sig eðlilegri ábyrgð á lánveitingum sínum en sveitarstjórnum hafi þar á móti verið stillt upp við vegg, oft á tíðum vegna bráðavanda í atvinnulífinu. Um þetta eru auðvitað þekkt dæmi.

Meiri hluti félmn. lagði einnig til þá breytingu að fjárhagsáætlun þyrfti ekki að vera lokið fyrr en fyrir lok janúarmánaðar. Um þetta kom ábending frá nokkrum sveitarfélögum. Bent var á að á þeim tímamörkum lægju fyrir nákvæmari upplýsingar um rekstur fyrra árs og fjárhagsáætlunargerð gæti því orðið vandaðri.

Í ákvæði til bráðabirgða er fjallað um að óbyggðanefnd, sem gert er ráð fyrir í þjóðlendufrv., skuli fjalla um staðarmörk sveitarfélaga þar sem þau hafa ekki verið ákveðin. Hún á einnig að skera úr ágreiningi sem upp kann að rísa um þau staðarmörk. Meðan óbyggðanefnd hefur ekki lokið störfum getur félmrh. staðfest samkomulag aðliggjandi sveitarfélaga um staðarmörk sín.

Hæstv. forseti. Mest hefur verið rætt um það sem frv. fjallar ekki um. Það eru skipulagsmál hálendisins og þá eingöngu miðhálendisins. Mér virðist margt benda til þess að ýmsir hafi sagt of mikið án þess að kanna raunverulegar heimildir í lögum til að skipa málum. Ég held þó að umræðan hafi skýrst mjög mikið. Á umfjöllunartíma í félmn. kom t.d. í ljós að sá litli ágreiningur, sem um málið er, fjallaði um skipulagsmál en ekki hina almennu stjórnsýslu sveitarfélaganna. Það er því tvímælalaust til bóta að menn geri sér þetta ljóst.

[12:15]

Það er aftur á móti verra að fréttamenn skuli ekki átta sig á því um hvað málið fjallar og kalla það frv. sem hér er til umfjöllunar, hálendisfrv. eins og gert var í gærkvöldi í ríkissjónvarpinu.

Umhvrh. hefur því lagt fram frv. til breytinga á skipulags- og byggingarlögum ef það mætti verða til þess að skýra málið aðeins betur fyrir þeim sem telja að verið sé að leiða hörmungar yfir þjóðina með þessum nýju sveitarstjórnarlögum.

Ég get í sjálfu sér fallist á niðurstöðu hæstv. umhvrh. um breytingar á skipulags- og byggingarlögum. Ég get fallist á þessa tilögu vegna þess að ég held að hún horfi til sátta í þessari umræðu sem ég tel þó alla meira og minna vera byggða á misskilningi. En ef þetta má verða til sátta er miklum áfanga náð.

Það hefur verið nefnt í umræðunni að hagsmunaaðilar eigi hugsanlega að eiga aðild að nefnd um skipulag hálendisins og það hefur jafnvel verið orðað svo að þeir sem nýta hálendið skuli eiga aðild að skipulagsmálum svæðisins. Orðalagið er svo aftur á móti skýrt með þeim hætti að hér sé átt við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og náttúruverndarsamtök. Auðvitað eru það fleiri sem nýta hálendið með einhverjum hætti og væntanlega vilja þeir þá eiga aðild að slíku. Ég get ekki látið hjá líða að segja að mér finnst þetta afskaplega undarleg rök.

Um hverja er verið að tala hér? Oft og tíðum hefur verið nefnt í umræðunni að taka þurfi sérstakt tillit til skotveiðimanna og ýmissa ferðahópa. Jeppafólkið vill þá væntanlega eiga einhverja aðild að málum, virkjunarmenn og fleiri. Ég held að endalaust sé hægt að tína til þessa hagsmunaðila.

Það er einu sinni svo að við búum við þá stjórnsýslu að það eru sveitarfélög og sveitarstjórnarfólk sem á að skipa skipulagsmálum með fulltingi Skipulagsstofnunar. Það er eðlileg stjórnsýsla. Aftur á móti koma hagsmunaaðilar sjónarmiðum sínum á framfæri með umsagnarrétti og mótmælarétti og kærurétti. Það er sú aðferð sem við notum í þjóðfélagi okkar til þess að sem flestir geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Þessi umræða hefur því öll meira og minna verið út úr kú að mínu mati.

Það er augljóst að þau samtök sem menn reiknuðu með að mundu vilja hafa einhverja skoðun á skipun sveitarstjórnarmála og stjórnsýslumörkunum höfðu ekki þann áhuga sem reiknað var með og sendu því ekki inn umsagnir til félmn. um þetta mál þó að eftir þeim væri leitað. En margt af þessu fólki var þó kallað inn í nefndina þar sem það skýrði sjónarmið sín. Þar voru m.a kallaðir inn prófessorar frá Háskóla Íslands sem töluðu þó ekki einum rómi og höfðu t.d. mjög skiptar skoðanir á þáttum eins og landnýtingu. Ef við ættum að líta t.d. á þetta háskólasamfélag sem hagsmunaaðila þá gæti orðið býsna erfitt að velja úr þeim hópi fólks til þess að fara í slíka nefnd sem menn hafa rætt um að rétt væri að kalla inn hagsmunaaðila. En það er greinilegt að menn hafa skoðanir á málinu en það er erfitt að flokka t.d. þann hóp, háskólasamfélagið, sem einn, og því væri úr vöndu að ráða ef það ætti að kalla til aðila frá æðstu mennta- og vísindastofnun landsins í nefnd sem fjalla ætti um skipulagsmál.

En mér þótti hins vegar vænt um að við fengum til viðtals við okkur oddvita Svínavatnshrepps, Jóhann Guðmundsson, sem skýrði afar vel um hvað deilan um skipulagsmál á miðhálendinu fjallar. Fyrir allnokkrum árum tók Svínavatnshreppur sér það fyrir hendur að sinna skipulagsmálum í sveitarfélaginu eins og er lögbundið verkefni þeirra. Í því fólst að skipuleggja Hveravallasvæðið sem er innan sveitarfélagamarka Svínavatnshrepps. Ástæða þess var að Hveravallasvæðið var að traðkast niður en þar er talið að a.m.k. 20 þúsund manns komi árlega þannig að það segir sig sjálft að þar er mikil áníðsla á landi.

Svínavatnshreppur tók því forustu í því að skipuleggja þetta svæði á hálendinu og á heiður skilið fyrir það. En það var fyrir tíma núverandi samvinnunefndar um skipulag miðhálendisins en hreppurinn sýndi að lítið sveitarfélag getur tekið af ábyrgð á þeim verkefnum sem því er falið. Samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins lagði svo fram skipulagstillögu í maí 1997 sem er til umfjöllunar og verið að fjalla um umsagnir sem komu um þá skipulagstillögu.

Hæstv. forseti. Umræðan hefur því miður ekki fjallað um það hvað er eðlileg og ábyrg stjórnsýsla. Hún byggist einkum á því að íslensku þjóðinni sé skipt upp í þjóðflokka sem takist á um völd, land og eignir, og þjóðflokkarnir hafi síðan helgað sér land og stríðið standi um helgun á landi. Væntanlega ætli menn þá að víggirða sitt land og hleypa öðrum útlendingum ekki þar að nema þeir sem eiga heima innan þeirrar víggirðingar. Umræðan hefur verið með þessum hætti meira og minna. Jafnvel hefur verið nefnt í umræðunni hvort þeir sex sem koma inn í nefnd um svæðisskipulagið, sem kemur fram í tillögu hæstv. umhvrh., muni ráða við hina tólf sem koma frá sveitarfélögunum sem eru aðliggjandi hálendinu. Maður veltir því þá fyrir sér hvort þarna sé verið að tala um hina sex góðu á móti hinum tólf vondu sem komi náttúrlega ekki til með að ráða við hina tólf vondu. Eða hvort þarna er verið að tala um hina sex vitru á móti hinum tólf heimsku.

Hvað er átt við með umræðu eins og hér hefur farið fram? Mér er spurn, mér finnst þetta afskaplega einkennilegt. Það er satt að segja með ólíkindum hvernig menn hafa leyft sér að tala niður til þess fólks sem byggir þetta strjálbýla land. Það hefur valdið mér verulegum vonbrigðum hvernig sumir hv. þm. hafa talað með hroka og lítilsvirðingu um það fólk sem byggir þetta land utan höfuðborgarsvæðisins. Ég held að það sé mikið umhugsunarefni.

Staðreyndin er sú að það eru heimildir fyrir umhvrh. í núverandi skipulags- og byggingarlögum til þess að skipa málum þannig að sem flest sjónarmið geti komist að. En sú tillaga sem liggur fyrir og hefur verið dreift á þinginu er greinilega til sátta og því mun ég styðja hana. En ég tel að sjálfsögðu að hún þurfi mjög vandaða umfjöllun eins og er nauðsynlegt um svo mikilvæga löggjöf sem skipulags- og byggingarlög eru.

Kannski er rétt að nefna eitt atriði sem kemur einmitt fram í þeirri tillögu og sem auðvitað er léttir fyrir sveitarfélögin að þar er gert ráð fyrir að kostnaður við störf samvinnunefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla um fleiri atriði í löggjöfinni en það er von mín að sú löggjöf sem við erum að setja um sveitarstjórnarstigið megi reynast sveitarstjórnarfólki vel í störfum þess.