Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 13:06:15 (5905)

1998-04-29 13:06:15# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[13:06]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að hv. síðasti ræðumaður þurfi ekki að undrast niðurstöðu sem ég lýsti áðan í máli mínu. Sú skoðun hefur komið fram í greinum sem ég hef skrifað um þetta mál, á fundum sem ég hef tekið þátt í og í samræðum við fólk, satt að segja í mörg ár. Ég hélt að skoðun mín væri fyllilega kunn hv. þm. sem ég hef átt ágætt samstarf við í hv. umhvn. og reyndar almennt í umhverfismálum.

Ég veit að það er skoðun hv. þm. að við höfum gengið frá málum við afgreiðslu skipulags- og byggingarlaga á síðasta þingi. Ég þarf kannski ekki að rifja upp fyrir honum hvernig sú vinna gekk til þar sem við fengum frv. í hendurnar í hv. umhvn. sem þurfti að vinna svo gjörsamlega upp á nýtt að tveir hv. þm. tóku að sér að vinna þá vinnu í samstarfi við ráðuneytismenn. Ég get alveg viðurkennt það að þegar hv. umhvn. fór síðan yfir málið eins og það kom frá þeim gerði ég mér ekki grein fyrir því að með því að standa að afgreiðslu málsins jákvætt eins og ég gerði teldu menn að ég væri að segja að ég væri sátt við það í hvaða hendur skipulagi miðhálendisins færi. Ég man að ég spurði eftir í nefndinni hvers vegna ákveðin grein væri felld út eða breytt sem varðaði svæðisskipulag á miðhálendinu og ég fékk það stuttaralega svar, sem var gefið í mikilli tímaþröng, að þessu máli væri fyrir komið eins og ætti að vera og ég kannaði það ekki nánar. Ég stend því hér og játa það að ég hafi ekki gert mér grein fyrir því að menn teldu að við værum endanlega búin að girða fyrir það að hægt væri að gera miðhálendi Íslands að skipulagslegri heild. Ég taldi svo ekki vera.

Það breytir ekki því að ef svo er að breyta þurfi skipulags- og byggingarlögum í sambandi við sérlög um miðhálendi Íslands mundi ég ekki telja eftir mér að taka þátt í þeirri vinnu.