Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:34:21 (5943)

1998-04-29 21:34:21# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:34]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég upplýsti strax í kjölfar frv. sem hæstv. umhvrh. lagði fram og þeirra orða sem því fylgdu að ég hefði sett fram andstæðar skoðanir, skoðanir gegn frv. Ég upplýsti þá að sjónarmið mín hefðu orðið undir og ég hefði þá lýst því yfir að ég mundi ekki styðja þetta frv. né heldur að sveitarfélögin næðu inn til miðju hálendisins.

Ég hygg að allir þingmenn þekki hvernig það gerist, menn setja fram sjónarmið sín, og að sjálfsögðu hef ég komið sjónarmiðum mínum á framfæri og á þau hefur verið hlustað. Ég virði félaga mína í þingflokknum fyrir afstöðu þeirra en ég er hins vegar ákveðinn í því að halda skoðunum mínum fram hér í þingsalnum.

Sagt hefur verið að einhvern tíma hafi maður verið látinn ganga fyrir valdamikinn aðila, fyrir konung, og látinn krjúpa. Þá áttu menn að krjúpa á bæði hné til þess að sýna virðingu sína við valdhafann en hann kraup aðeins á annað hnéð. Konungur spurði hann: Hví gerir þú það? Hann sagði: Ég krýp á annað hné fyrir valdi yðar en ég stend með hinum fætinum á rétti mínum.