Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:39:51 (5946)

1998-04-29 21:39:51# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., GÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:39]

Guðni Ágústsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það ber nú á töluverðri þreytu hér hjá hv. þm. og þeir mega ekki heyra skoðanir annarra eins og oft hefur nú borið við, sérstaklega þegar hv. 8. þm. Reykv. á í hlut.

En ég hafði ekki neitt í flimtingum. Ég sagði einungis líkt og allir réttlátir menn með jafnaðarmannahjarta, eins og ég hélt kannski að báðir þessir hv. þm. hefðu, að engum dettur í hug að það sé vilji þingsins og vilji hæstvirtra ráðherra að um leið og þeir vilja hleypa fleiri aðilum eins og höfuðborgarbúum, Reyknesingum og Vestfirðingum að frv. þá verði okkur á nýjan leik hent frá því, öllum Flóamönnum. --- Eiga Flóamenn ekki að koma nálægt því? Er það réttlæti hv. þingmanns Svarars Getssonar? Ég spyr.

Ég sagði einungis að ég hefði rætt þetta mál og ég fyndi að menn teldu þetta ekki réttlætanlegt (SvG: Af hverju mátti ekki taka það á dagskrá? Er það forseti?) og á þessu ætti að gera breytingar. (SvG: Af hverju má ekki taka málið á dagskrá?) Ég tel hiklaust að það eigi að taka þetta mál á dagskrá. (SvG: Þá beitir forseti sér fyrir því.) Ég skal gera það. (SvG: Takk.)

En ég tek undir það, og það hljóta allir menn að sjá, að um leið og þeir hleypa fleirum að þá þýðir ekkert að útiloka aðra landsbyggðarmenn. Á Selfossi býr á fimmta þúsund manns. Á Eyrarbakka búa fimm hundruð manns. Hvers eiga þeir að gjalda? Og víðar og víðar. Þetta fólk á í dag afrétti sem það má nota, eins og við Selfyssingar og Eyrbekkingar höfum. Við eigum að koma að þessu máli ekki síður en höfuðborgarbúar og aðrir slíkir.

Ég sagði því að ég fagnaði þeim fyrirheitum að þessir tveir hæstv. ráðherrar hefðu sagt að þeir teldu rétt að skoða hvort ekki ætti að vera orðalagsbreyting þarna sem sneri að héraðsnefndum eða sveitarstjórnum en ekki bara að þeim sveitarfélögum sem liggja upp að miðhálendinu. (Gripið fram í: Hvar hefur þetta komið fram hjá ráðherrunum?)

(Forseti (GÁS): Það er hv. 2. þm. Suðurl. sem hefur orðið og ég bið hv. þm. að hafa sig hæga.)

Hæstv. forseti. Við skulum ekki ókyrrast þótt þeir kalli. Þeir hafa réttinn til þess. En ég vænti þess að hv. þm. séu mér sammála í því að yfir þetta frv. verður að fara. Það gengur ekki upp að gera þetta með þessum hætti.

Ég get tekið undir það að þetta frv. á að taka á dagskrá og koma því til umsagnar í þjóðfélaginu og ná um það samstöðu í sumar.