Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 22:27:38 (5958)

1998-04-29 22:27:38# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[22:27]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. meiri hluta hv. félmn., ásamt hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, með fyrirvara. Fyrirvarinn var sá að við teljum rangt að skipta skipulags- og byggingarmálum miðhálendisins upp á milli 42 sveitarfélaga sem í mörgum tilvikum ganga þvert á landslagsheildir, svo sem jökla, hraunbreiður, sanda og gróðurbelti. Að okkar mati væri réttara að miðhálendið, svæði innan línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta, væri ávallt skipulagt sem ein heild og að fulltrúar allra landsmanna tækju þátt í ákvörðun um það skipulag.

Herra forseti. Ég og fjöldi annarra borgara í bæjum og sveitum, fólk sem ekki á land, hef haft áhyggjur af því sem gæti gerst á hálendinu hjá einstökum fámennum sveitarfélögum þegar þau fara að skipuleggja, m.a. aðgang að þessum svæðum, sem mörg hver eru geysistór. Auk þess er niðurstaðan af bráðabirgðákvæðinu sem hér er til umræðu sú að skipulagið yrði ákaflega sundurlaust þegar svo margir koma að því. Hver á að ráða sínu. Það má ekki skilja það þannig að ég vantreysti sveitarstjórnum almennt en hjá einstökum, fámennum sveitahreppum, geta komið upp sjónarmið, þvert á sjónarmið stórs hluta landsmanna. Einhverjir gætu t.d. verið þeirrar skoðunar að blessaðar kindurnar eigi að fá að bíta í friði fyrir ferðamönnum og þar með eigi að banna aðgang að stórum svæðum í því skyni.

[22:30]

Í þessu felst ekki almennt vantraust á sveitarstjórnir í landinu, langt því frá. Þetta er yfirleitt besta fólk og gætir örugglega hagsmuna allra þeirra sem vilja komast inn á það svæði sem þær eiga að skipuleggja en það sem ég óttast er að í einstöku hreppum kunni að koma upp sjónarmið sem eru andstæð.

Á það hefur verið bent að þessir aðilar og landsbyggðin öll hafi t.d. ekki áhrif á skipulag Reykjavíkur, hvernig aðkoman að borginni er o.s.frv. og þeir una því að sjálfsögðu. Þetta vandamál og áhyggjur sem ég er að lýsa verð ég mjög mikið var við hjá kjósendum mínum ef þetta bráðabirgðaákvæði yrði að mestu óbreytt. Nú hefur komið fram frv. frá hæstv. umhvrh. sem breytir skoðun minni. Þar segir að skipuleggja eigi miðhálendið sem eina heild og þar með er búið að ryðja úr vegi því fyrsta áhyggjuefni sem ég hafði um sundurlaust skipulag. Síðan segir að það eigi að skipa samvinnunefnd sem í eru tilnefndir 12 fulltrúar frá sveitarfélögum sem liggja að miðhálendinu og síðan tilnefni Samband íslenskra sveitarfélaga fjóra fulltrúa og skuli tveir þeirra að eiga búsetu í Reykjavík, einn á Reykjanesi og einn á Vestfjörðum. Þar með er tryggt að sá fjöldi fólks sem býr á Reykjavíkursvæðinu hafi fulltrúa í þessari nefnd sem geta bent á veikleika sem hugsanlega felast í því skipulagi sem menn ætla að samþykkja. Þetta er töluvert stórt atriði.

Þessi samvinnunefnd á að fjalla um svæðisskipulag miðhálendis og hún á að gefa Skipulagsstofnun umsögn um tillögu að aðalskipulagi sveitarfélaga. En það stendur meira. Þar stendur:

,,Auk þess skal sú stefna, sem fram kemur í svæðisskipulagi miðhálendisins [sem þessi nefnd fjallar um], færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga ...`` Ef aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga er ekki í samræmi við svæðisskipulagið sem þessi nefnd hefur komist að niðurstöðu um þá getur hún mótmælt því og vísað í þessi lög, þ.e. ef þetta frv. verður að lögum. Að mínu mati er því hér með búið að ryðja úr vegi þeim áhyggjum sem ég og fjöldi annarra hafa haft um það að hálendið yrði skipulagt sem sundurlaust skipulag 40 sveitarfélaga og að fulltrúar stóru landlausu sveitarfélaganna, Reykjavíkur og Reykjaness, kæmu ekki að því skipulagi. Nú er tryggt að þeir komi að því. Hér með fell ég því frá þessum fyrirvara mínum.

En vandamál hálendisins er miklu meira en þetta og ég ætla að biðja þingmenn að hugsa 35 ár aftur í tímann. Þá kom kannski ein rúta á dag til Mývatns á sumrin. Núna eru þær 10 á dag og ef við hugsum 35 ár fram í tímann þá munu þær vera 100. Ég hef heyrt að nú komi 130 þús. ferðamenn til Mývatns á ári. Ef sá fjöldi er tífaldaður eftir 35 ár eru það 1,3 millj. ferðamanna sem koma til Mývatns. Þeir sem hafa verið í Þórsmörk um helgar upplifa að þar er hávaðamengun, sjónmengun og hreinlega mengun af útblæstri bíla þvílík um helgar að það er eins og maður sé staddur í miðborg Reykjavíkur. Hvernig verður þetta eftir 35 ár? Ég hef ekki heyrt neinn benda á lausn á því hvernig við ætlum að ráða við þann stóraukna ferðamannastraum sem kemur að okkur og er að koma að okkur og hvernig þetta lítur út eftir 35, 40 eða 50 ár. Þá segir mér svo hugur að það þurfi að takmarka aðgang að hálendinu allverulega, að það verði nauðsyn til þess og jafnvel að dregið verði um það hverjir megi fara um hálendið ef menn ætla ekki að láta borga fyrir það þannig að bara þeir ríku geti farið inn á hálendið. Þetta er vandamál því að hálendið ber ekki nema mjög takmarkaðan fjölda fólks.

Herra forseti. Frv. sem við ræðum, og lítið hefur verið rætt um sjálft, er mjög veigamikið frv. að öðru leyti. Það fjallar um ýmis smærri mál að mínu mati, frjálslegri nafnagift, byggðarmerki og ekki er lengur litið á sveitarfélög eftir mismunandi stærð. En, herra forseti, megininntak frv. er mjög aukinn agi á fjármálum sveitarfélaga og ég fagna því. Mjög mikill agi er settur á fjármál sveitarfélaga.

Undanfarin ár hefur verið mikil skuldaaukning hjá sveitarfélögunum sem hefur reyndar hægt á síðustu árin og þarna er verið að skuldsetja börnin okkar, nákvæmlega eins og ríkissjóður hefur gert líka, sem er líka farið að hægja á. Núna er gert ráð fyrir að gerðar verði miklu meiri kröfur um að sveitarfélögin stofni ekki til skulda og að heildarútgjöld fari ekki fram úr heildartekjum. Það má m.a.s. lesa út úr frv. að bannað sé að auka skuldir sveitarfélaganna. Í því skyni er sett á laggirnar eftirlitsnefnd sem hefur að mínu mati allt að því of sterk völd. Hún á að láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélaga ef henni sýnist staða þeirra vera slæm og henni er heimilt að grípa til aðgerða ef sveitarfélögin sinna ekki viðvörun hennar. Hún á að starfa samkvæmt reglum sem ráðherra setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sem mun hugsanlega borga brúsann ef sveitarfélögunum gengur illa því að hér stendur að Lánasjóður íslenskra sveitarfélaga eigi að veita styrki eða lán til sveitarfélaga til að rétta þau af þannig að Samtök sveitarfélaga munu að sjálfsögðu hafa mjög strangar reglur um það hvernig sveitarfélögin skuli rekin og fylgist með því að þessar reglur séu haldnar. Þetta er mjög til bóta að mínu mati en það kann að vera að valdsvið eftirlitsnefndarinnar sé of sterkt og hún taki í raun fjárráðin af sveitarfélögunum.

Það sem mér finnst standa upp úr, herra forseti, í þessu frv. er mjög mikill aukinn agi á fjármálum sveitarfélaga og að mínu mati er það eitt megininntak þessa frv. og ég er mjög ánægður með þá niðurstöðu.