Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 22:48:54 (5965)

1998-04-29 22:48:54# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[22:48]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. misskilur nokkuð málið. Tillaga okkar jafnaðarmanna er mjög einföld. Hún fjallar um að sett sé á laggirnar nefnd sem fari með stjórnsýsluna á miðhálendinu. Sú nefnd fer með öll skipulagsmál á miðhálendinu, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag.

Í frv. hæstv. umhvrh. er gert ráð fyrir samvinnunefnd sem fjallar um afmarkaðan þátt skipulagsins, þ.e. svæðisskipulagsins. Aðalskipulag og deiliskipulag verður áfram í höndum sveitarfélaganna.

Síðan er gert ráð fyrir, og hv. þm. verður að lesa frv. aðeins betur, að gamla nefndin ljúki störfum og nýja nefndin sem á hugsanlega að kjósa sé umsagnaraðili um þetta frv. Ráðherrann getur staðfest fyrri hugmyndir sem hafa verið á lofti án þess að hlusta nokkuð á þennan eina fulltrúa Reykvíkinga sem er í þessari nefnd. Því að málið snýst náttúrlega líka um það að 40% landsmanna eru með innan við 10% þátttöku í nefndinni.

Það er allt annað upplegg í tillögu okkar jafnaðarmanna og í tillögu ríkisstjórnarinnar. En í fyrirvara hv. þm. segir að hann telji að allt miðhálendið eigi ávallt að vera skipulagt sem ein heild. Það er gert í tillögu okkar með því að stjórnsýslan er tekin undan sveitarfélögunum og falin sameiginlegri nefnd sem er skipuð tilteknum ráðuneytum og fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga. Þetta er mismunurinn á upplegginu.

Menn verða að vera alveg klárir á muninum á svæðisskipulagi, deiliskipulagi og aðalskipulagi. Um þetta snýst málið, að í reynd þýðir þetta að allt skipulagsvald sé áfram að langmestu leyti í höndunum á litlu sveitarfélögunum og það erum við að gagnrýna. Það er ekki sanngjarnt að það sé með þeim hætti og ekki víst að þau geti uppfyllt þær kröfur sem verður að gera til slíkrar skipulagsvinnu.