Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 23:07:06 (5971)

1998-04-29 23:07:06# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[23:07]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram að nýju vegna þess að það kemur fram í máli hv. viðmælanda míns að hann hefur fulla vantrú á þeim aðilum sem eru kosnir í öðrum sveitarfélögum en kjördæmi hans til að fjalla um skipulagsmál á þeim svæðum sem hér um ræðir. Ég hef trú á þeim. Þeim ber að starfa eftir sömu ákvæðum laga og reglna og þeim sveitarstjórnarmönnum sem starfa í Reykjaneskjördæmi og í Reykjavík. Ég tel að þeir verði að fullnægja nákvæmlega sömu ákvæðum og mælikvörðum gagnvart réttindum fólks og fyrirtækja eða annarra samtaka fólks til að hafa aðgang að opnum svæðum. Ég tek fram, herra forseti, að það fyrirbæri þekkist til að mynda í Reykjaneskjördæmi, kannski vissi hv. þm. það ekki, að sveitarfélög hafa með sér langtímasamvinnu um fleira en svæðisskipulag, sem sé um aðalskipulag. Það samstarf hefur gengið mjög vel og hefur verið við lýði um áratugi. Þar þekkist líka að menn hafa samstarf um svæðisskipulag og það hefur verið haft um áratuga skeið og ekki lagt niður á einhverjum tilteknum tíma eins og gert er ráð fyrir í sumum tillögum. Ég tel raunar að þau ákvæði sem eru í núgildandi lögum um skipulags- og byggingarmál gefi umhvrh. á hverjum tíma heimild til að setja á samvinnunefnd um skipulagsmál, svæðisskipulag eða annað til lengri tíma en menn hér hafa rætt um. Ég tel raunar að þegar um svæði af þessu tagi er að ræða þar sem þarf að huga að hagsmunum fólks sem býr annars staðar en í þeim sveitarfélögum sem eru næst þeim sé eðlilegra að tilgreina hagsmunina og þá sem standa fyrir þá en sveitarstjórnir annars staðar á landinu.