Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 23:24:18 (5983)

1998-04-29 23:24:18# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[23:24]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég mun reyna samkvæmt beiðni og vilja hæstv. forseta að vera bæði stuttorð og gagnorð þó að það sé að sönnu erfitt þegar um er að ræða mál af því tagi sem hér er til umfjöllunar. En hér ræðum við fyrst og fremst frv. til sveitarstjórnarlaga, hið svokallaða tertusneiðafrumvarp, sem hefur að sönnu valdið mikilli ólgu í þjóðfélaginu vegna þess að fólk er víða uggandi um, miðað við það upplegg sem hér er, einkum og sér í lagi 1. gr. frv. og bráðabirgðaákvæði, að almannaréttur verði ekki virtur.

Herra forseti. Það gerðist síðan að þetta mál fékk, ef svo mætti segja, nýja vídd þegar umhvrh. kynnti nýtt frv. til skipulags- og byggingarlaga, sem satt best að segja ruglaði ýmsa í ríminu þannig að þeir sem héldu að þeir hefðu náð utan um málið misstu á því öll tök og hafa þess vegna þurft að tala öllu lengur en ella hefði verið. Ég vil því að það komi fram enn og aftur að ég styð að það frv. verði tekið formlega á dagskrá þingsins til að hæstv. umhvrh. fái að útskýra fyrir hv. þingheimi hvað felst í raun og veru í frv. hans.

Eins og ég gat um, herra forseti, er fyrst og fremst um að ræða frv. til sveitarstjórnarlaga. Þetta er frv. sem telur á annað hundrað greinar en það verður að segjast eins og er að einkum hefur verið rædd 1. gr. frv. og síðan bráðabirgðaákvæði þess. Einstaka fulltrúar úr hv. félmn. hafa reynt að koma að umfjöllun um það sem má teljast gott í fleiri greinum frv. en hefur ekki orðið mikið ágengt við að koma þeim á framfæri.

Það er að sönnu dálítið merkilegt að hér skuli fyrst vera rætt um þessar tvær greinar. Vissulega eru þær mikilvægar og þar er verið að fjalla um einhver stærstu mál nútímans. Hins vegar eru líka í þessu frv. ákvæði sem ættu að vekja athygli eins og að árið 1998, þegar sveitarfélögin eru komin með þau viðamiklu verkefni sem þau þegar hafa og þegar fyrir liggur að þau muni fá enn fleiri viðamikil og mikilvæg verkefni, þyki eðlilegt að miða við það að sveitarfélag þurfi einungis að telja 50 manns. Mér þykir eiginlega furðulegt, herra forseti, að þetta ákvæði skuli ekki hafa vakið meiri athygli vegna þess að með þessu er að mínu mati verið að halda landsbyggðinni í ákveðnum kyrkingi. Hingað til hafa svokölluð byggðamál vakið meiri athygli á Alþingi en mér hefur fundist að þetta ákvæði a.m.k. fengi í dag og í gær. En það kann að breytast þegar menn skilja betur það sem liggur í sáttargjörð hæstv. umhvrh. og geta þá snúið sér að því af kappi að ræða frumvarpið til sveitarstjórnarlaga af nýjum og skarpari skilningi.

Nokkuð hefur verið rætt um hversu miklar áhyggjur fólkið í landinu hefur af þessu frv. og af því hvort almannaréttur yrði virtur. Ég vil gjarnan, herra forseti, í upphafi máls míns vitna í það erindi sem fleiri hafa vitnað í, erindi Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar sem hún flutti í Víðsjá á Rás 1 á mánudaginn var. Ég held að það sem þar kemur fram sé að mörgu leyti dæmigert fyrir þau viðhorf sem eru gagnvart málinu úti í þjóðfélaginu og mættu vera okkur sem hér erum fulltrúar almennings nokkur lærdómur. Rithöfundurinn lýsir landslaginu á eftirfarandi hátt, og nú vitna ég beint, með leyfi forseta:

,,Landslagið á þessari stóru eyju er hrikalegt og einstakt og 1/10 hluti hennar er þakinn jöklum. Þetta er virk eldfjallaeyja, enn í mótun, og þar er að finna mjög fjölbreytt jarðfræðileg fyrirbrigði og eldfjallamyndanir. Landið er aðeins byggt meðfram ströndum, hálendið, næstum helmingur landsins, er óbyggður. Þar eru öflug hitasvæði. Þar er þriðja stærsta jökulhvel veraldar. Á miðhálendinu eru stórbrotnustu gljúfur í Evrópu, stærsta heiðagæsavarp í heimi.``

Þessu, herra forseti, stendur til að skipta með frv. til sveitarstjórnarlaga á milli 42 sveitarfélaga. Ég vitna áfram í rithöfundinn, með leyfi forseta, en hún segir í erindi sínu:

,,Því eigum við heimtingu á að þingmenn taki á sig rögg og viðurkenni mistök, að þeir bretti upp ermar og segi: Hér er verk að vinna, nú tökum við okkur góðan tíma í að endurskoða allt sem hálendi varðar með þátttöku kjósenda okkar, hvaðan sem þeir koma, og færustu manna. Tertusneiðafrv. hefur mætt andstöðu almennings, fjölmennra félagasamtaka, ríkisstofnana og þess fagfólks sem gleggsta yfirsýn hefur um hvað er raunverulega á ferðinni og hverjar afleiðingar geta orðið. Andstaðan er of mikil og víðtæk til þess að Alþingi geti hunsað hana.``

[23:30]

Herra forseti. Þetta var sagt áður en umhvrh. kynnti frv. sitt og þá líka þær hugsanlegu breytingar sem menn hafa verið að ræða um í kvöld að væru komnar á kreik gagnvart því frv. Læt ég svo lokið lestri úr því ágæta erindi sem hér hefur borið nokkuð á góma, erindi Steinunnar Sigurðardóttur.

Eins og ég gat um áðan skiptist frv. í yfir 100 greinar. Í 1. gr. er tónninn sleginn varðandi hálendið því að þar segir að landið skiptist í staðbundin sveitarfélög en ákvæði það sem er í gildandi sveitarstjórnarlögum eru þannig að byggðin skiptist í sveitarfélög. Þar er gengið út frá því að sveitarfélög séu samfélag fólks en snúist ekki fyrst og fremst um lönd. En ákvæði um að einungis byggðin í landinu og afréttir skiptist á sveitarfélög komu í rauninni fyrst fram beint fram í þeim lögum sem eru nú í gildi og ákvæðin voru áður á annan veg og í athugasemdum við einstakar greinar frv. er einmitt gerð grein fyrir þessu. Þar er fjallað nokkuð um hvernig þróun sveitarstjórnarlaga á Íslandi hefur verið en þar segir, með leyfi forseta:

,,Tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi var sett 4. maí 1872 og átti hún sér u.þ.b. 20 ára aðdraganda.`` --- Menn voru ekki að flýta sér svo í þá daga eins og nú er heldur tóku menn 20 ár í þetta verk. --- ,,Í 1. gr. tilskipunarinnar var svohljóðandi ákvæði: ,,Stjórn sveitamálefna í sveitum Íslands skal falin á hendur hreppsnefnd í hverjum hreppi, sýslunefnd í sýslu hverri, og amtsráði í hverju amti.````

Sveitarstjórnarlög voru sett 33 árum síðar og í 1. gr. þeirra laga sagði: ,,Sýslur á landinu skulu vera sömu og nú eru, sömuleiðis sýslnamörk. Sama er um hreppa í hverri sýslu og hreppamörk.`` --- Það var ekki verið að sveifla hlutunum til í þá daga. Og samhljóða ákvæði er í lögunum sem voru sett 1927.

En árið 1962 tóku gildi sveitarstjórnarlög og þar verður ákveðin breyting því í 1. gr. þeirra segir: ,,Ríkið skiptist í sveitarfélög, sem ráða sjálf málefnum sínum, undir yfirstjórn ríkisstjórnarinnar (félagsmálaráðuneytisins), samkvæmt því sem lög ákveða.`` Engar sérstakar skýringar voru gefnar í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga á þessum orðalagsbreytingum, af hverju menn kjósa að orða þetta þannig að ríkið skiptist í sveitarfélög.

Núgildandi sveitarstjórnarlög, nr. 8/1986, tóku að mestu gildi 1. jan. 1987. Ákvæði 1. mgr. 1. gr. laganna hljóðar svo: ,,Byggðin í landinu skiptist í sveitarfélög sem stýra sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.`` Í athugasemdum við 1. gr. sagði um upphafsorð ákvæðisins: ,,Af rökfræðilegum ástæðum telur nefndin rétt að sneiða hjá því orðalagi, að ríkið skiptist í sveitarfélög.`` Aðrar skýringar er ekki að finna í lögskýringargögnum varðandi framangreinda orðalagsbreytingu. Hins vegar er það svo að við þessi sveitarstjórnarlög var gefin út bók með lögunum ásamt skýringum og athugasemdum. Þar segir um 1. gr., með leyfi forseta:

,,Í 1. mgr. er lögð áhersla á að byggðin í landinu skiptist í staðbundin sveitarfélög. Í fyrri sveitarstjórnarlögum sagði að ríkið skiptist í sveitarfélög. Rökréttara þykir að orða ákvæðið eins og nú er gert og er með því jafnframt lögð áhersla á muninn á ríki annars vegar og sveitarfélög hins vegar. Hér er um hliðstæð stjórnvöld að ræða sem fara með mismunandi verkefni. Sveitarfélögin eru staðbundin, sveitarstjórnir fara með framkvæmd tiltekinna verkefna í afmörkuðum hluta byggðarinnar en ríkið fer með framkvæmd annarra verkefna og ná yfirráð þess og starfssvæði til byggðarinnar í heild til landsins alls, lofthelgi þess og landhelgi.`` Svo mörg voru þau orð um 1. gr. sveitarstjórnarlaga sem við búum við nú.

Ég átta mig ekki alveg á því og á því hafa hreint og klárlega ekki komið fram nægilegar skýringar hvaða nauðir rekur til þess að sveitarfélögin skuli nú þurfa að ná allt inn að miðju landsins, af hverju ekki nægir lengur að það sé einungis byggðin sem skiptist í sveitarfélög. Af hverju þarf að skipta öllu landinu í sveitarfélög miðað við það mynstur sem lagt er upp með þar? Það kemur reyndar fram einhvers staðar í þeim textum sem fyrir liggja að áður en samstarfsnefndin, sem hefur verið að skipuleggja hálendið, skili af sér þurfi að vera búið að ganga frá stjórnskipulagi hálendisins en það er hægt að gera með ýmsum öðrum hætti, herra forseti, en þeim að búa til þessar tertusneiðar úr landinu án þess að skipta Hofsjökli í sex ræmur svo dæmi sé tekið.

Fulltrúi jafnaðarmanna í félmn., hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, hefur enda lagt fram brtt. við þetta ákvæði sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð utan miðhálendis Íslands sem verður sjálfstæð stjórnsýslueining sem lýtur sérstakri stjórn.`` --- Hér kveður við annan tón en þó er sá tónn öllu líkari þeim lögum sem í gildi eru í dag, þ.e. gert er ráð fyrir að miðhálendið verði sjálfstæð stjórnsýslueining en sveitarfélögin verði staðbundin utan miðhálendis Íslands.

Síðan er að því vikið hvernig línur skuli dregnar, að miðhálendið markist af línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta, línu sem miðað var við í tillögum svæðisnefndar að skipulagi hálendisins frá 1997. En um þessa brtt. segir í nál. hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn leggur til að miðhálendi Íslands verði sérstök stjórnsýsluleg heild sem lúti einni stjórn með þátttöku fulltrúa allra landsmanna. Að öðru leyti skiptist landið í sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.

Þá er lagt til að bráðabirgðaákvæði frumvarpsins verði fellt niður, en sett verði nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem mælt verði frekar um mörk og fyrirkomulag hins sérstaka stjórnsýsluumdæmis, miðhálendis Íslands.

Í tillögu minni hlutans er lagt til að mörk miðhálendisins verði miðuð við línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta. Þetta eru mörkin sem náðist sátt um í umfjöllun nærliggjandi sveitarfélaga um tillögu að svæðisskipulagi ... Veigamesti þáttur stjórnsýslunnar eru skipulagsmálin sem kveða á um framtíðarmótun og hagnýtingu hins viðkvæma svæðis, friðun, stýringu ferðamanna, beitarafnot, landgræðslu og umferð manns og búfénaðar.

Mikilvægt er að gerð verði nú þegar atlaga að helstu vandamálum miðhálendisins því að mörg viðkvæm svæði liggja undir skemmdum vegna aukins ágangs manna og dýra. Beinast liggur við að hefja nauðsynlega forvinnu, svo sem víðtækar rannsóknir á miðhálendinu, sem síðan verður grundvöllur stefnu um landnýtingu, landnotkun, friðun og friðlýsingu og ferðamál. Að því loknu er hægt að ráðast í gerð landsskipulags sem nær til landsins alls þar sem mörkuð verður stefna og teknar bindandi ákvarðanir í veigamiklum atriðum. Þá fyrst er hægt að fara að skipuleggja einstök svæði.``

Svo mörg voru þau orð í nál. hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur vegna þeirra brtt. sem hún hefur kynnt og ég hef lesið ögn úr.

Ég mun ekki, herra forseti, ræða frekar um 1. gr. frv. og bráðabirgðaákvæðið að sinni. Ég mun koma að þeim síðar en vil ræða frv. að öðru leyti. Það má næstum segja að þetta frv. skiptist í þessa tvo hluta, annars vegar það sem lýtur að hálendinu og hins vegar það sem lýtur að þeim sveitarfélögum sem byggðin skiptist í í dag.

Þegar ég las þetta frv. fyrst yfir þá verð ég að segja eins og er að ég varð heldur vonsvikin. Einhverra hluta vegna hafði ég vænst þess að þegar sveitarstjórnarlög yrðu endurskoðuð tækju þau meira mið af þeim breytingum sem hafa orðið og eru að verða á samfélagi okkar. Ég hafði vonast eftir framsæknara frv. en þetta frv. staðfestir fyrst og fremst þann veruleika sem við búum við og er í sjálfu sér afskaplega lítil forsögn um það hvernig menn vilja sjá hlutina þróast til framtíðar. Í grg. frv. segir enda að mikil reynsla hafi fengist af framkvæmd sveitarstjórnarlaga og ,,þótti tími til kominn að taka þau til heildarendurskoðunar til að sníða af annmarka og bæta við ákvæðum sem reynslan hefur leitt í ljós að vantað hefur. Sú reynsla er fyrst og fremst fengin frá sveitarfélögunum og félagsmálaráðuneytinu.`` Það er sem sagt verið að sníða af annmarka og staðfesta ríkjandi ástand. Það þykir ekki sérstaklega metnaðarfull löggjöf en um það snýst þetta frv. einmitt, að sníða af annmarka og staðfesta ríkjandi ástand.

En eins og ég sagði hafði ég vænst þess að hér yrði kannski tekið frekara tillit til þess sem hefur verið að gerast í málefnum sveitarfélaganna á undanförnum árum, í rauninni á þeim árum sem lögin frá 1986 hafa gilt.

Við höfum horft á það, herra forseti, að verulegar breytingar hafa orðið á þeim verkefnum sem sveitarfélögin hafa haft með höndum á þessum tíma. Allnokkur breyting varð á verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga árið 1989 og aftur varð mikil breyting þegar grunnskólinn fluttist yfir til sveitarfélaganna og sumir segja að það sé stærsta breyting sem orðið hefur á verkefnum sveitarfélaganna, jafnvel frá upphafi, enda er það svo að grunnskólinn er langstærsta verkefni flestra sveitarfélaga. Auk þessa hefur verið þróað ákveðið tilraunakerfi. Hér eru til fjölmörg reynslusveitarfélög sem eru að reyna ýmsa þætti stjórnsýslu. Við erum með reynslusveitarfélög sem eru að spreyta sig á því að reka heilsugæslustöðvar, sem eru að spreyta sig á málefnum fatlaðra, málefnum aldraðra, skipulags- og byggingarmálum, menningarmálum og ýmsu fleiru. Ég held það sé rétt að líta svo á, herra forseti, að þau málefni sem komin eru út til reynslusveitarfélaganna muni færast yfir til sveitarfélaganna. Það verði ekki aftur horfið. Það muni verða litið svo á að þessi verkefni fari til allra sveitarfélaga með tíð og tíma. Með tilliti til þess hefði mér fundist að þetta frv. ætti að undirbúa þennan flutning, undirbúa þessar áframhaldandi breytingar með öðrum hætti en hér er gert. Í þessu frv. er nefnilega áfram gert ráð fyrir því að stærðarmörk sveitarfélaga geti verið 50 íbúar.

[23:45]

Ég held að okkur öllum sé ljóst að sveitarfélögin hafa ekkert bolmagn til þess að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin með lögum, hvað þá að taka við þeim verkefnum sem við vitum að eru á döfinni á meðan stærðarmörkin eru 50 íbúar. Ég get ekki séð að nokkrum manni geti dottið í hug að 50 íbúa sveitarfélag geti sinnt öllum þeim verkefnum sem þau hafa nú eða eiga að takast á hendur. Ég hafði því vænst þess að með frv. yrði skapaður eðlilegri rammi um þessi verkefni og ef menn treysta sér ekki með sveitarfélagamörkin upp fyrir 50 íbúa þá reyndu menn a.m.k. að skapa eðlilegan ramma um samstarf sveitarfélaganna. En það er ekki gert heldur.

Í gildandi lögum eru sveitarfélögin skyldug til ákveðins samstarfs. Þegar lögin voru sett 1986 var héraðsnefndum ætlað að taka við verkefnum sýslunefnda, sem voru þar með úr sögunni, og sveitarfélögunum var skipað með lögum að taka þátt í því samstarfi, enda hafa héraðsnefndirnar orðið farvegur og vettvangur fyrir ýmiss konar samstarf, m.a. eru það fulltrúar þeirra sem hafa unnið að því skipulagi miðhálendisins sem hefur nú verið til umsagnar.

En með því frv. sem liggur fyrir er öll skylda til samstarfs tekin af sveitarfélögunum, það ákvæði er ekki að finna í þessu frv., auk þess sem héraðsnefndir hafa nú enga stöðu lengur. Þeirra er einungis getið einu sinni og það í upptalningu. En ég mun víkja frekar að stöðu héraðsnefndanna síðar í ræðu minni, herra forseti.

Það er merkileg stefna að setja stærðarmörkin við 50 íbúa, að koma sér hjá því að skapa eðlilegan ramma um samstarf sveitarfélaganna, en ætla samt að halda áfram að færa verkefni yfir til þessa stjórnsýslustigs. Öllum má vera ljóst að hvorki eru sveitarfélögin nógu öflug til að taka við verkefnunum, mörg hver, né heldur er með því frv. sem hér liggur fyrir skapaður eðlilegur rammi um samstarf þeirra. Þetta er stefna sem ég hef, herra forseti, kallað sveltistefnu, þ.e. sveitarfélögin eru neydd til að sameinast með því að færa þeim verkefni en stjórnvöld þora ekki að móta stefnu. Stjórnvöld hliðra sér við að móta stefnu í málefnum sveitarfélaganna en láta það ráðast. En það er þá líka látið ráðast hvort sveitarfélögin yfir höfuð vilja sameinast til að geta tekið við verkefnunum, og þá getur niðurstaðan einungis orðið ein: Íbúar hinna fámennu sveitarfélaga fá einfaldlega ekki þá þjónustu sem þeir eiga heimtingu og rétt á samkvæmt lögum og afleiðing þess er öllum kunn: Mikill flótti úr dreifbýli og yfir í þéttbýli og úr minna þéttbýli í stærra.

Þetta er stefna sem ég tel ekki ásættanlega og hélt satt að segja að fleiri væru mér sammála um að er óásættanleg. Ég verð hins vegar að álykta sem svo miðað við texta frv. að mönnum þyki þetta í góðu lagi.

En rétt til þess að menn átti sig á því hvernig þessum málum er háttað þá held ég, herra forseti, að gagnlegt væri að fara yfir það hvaða verkefni það eru sem sveitarfélögum eru falin með lögum í dag. Sveitarfélögum sem einungis þurfa að hafa 50 íbúa eru falin félagsmál, þar á meðal framfærslumál, aðstoð við aldraða og fatlaða, barnaverndarmál, varnir gegn notkun vímugjafa, rekstur dagvistar fyrir börn, rekstur dvalarheimila aldraðra, rekstur heimilishjálpar og varnir gegn slysum. Menn sjá strax þegar þeir heyra þessa upptalningu að sveitarfélag sem telur 50 íbúa ræður ekki við neitt af þessum verkefnum.

En þetta er ekki það eina. Sveitarfélögum eru samkvæmt gildandi lögum falin atvinnumál, þar á meðal atvinnuleysisskráning og vinnumiðlun. Þessu er reyndar búið að breyta með lögum. En þeim eru falin menntamál, þar á meðal bygging og rekstur skóla, fullorðinsfræðsla og tónlistarfræðsla. Þeim eru falin húsnæðismál, þar á meðal bygging verkamannabústaða. En það mun líka vera að breytast og nú verður þeim fyrst og fremst falið að byggja leiguíbúðir og að gefa grænt ljós á að einhverjir íbúar geti fengið viðbótarlán og borgað síðan í sameiginlegan sjóð sem á að standa undir tapi, ef eitthvert verður, af öllu heila galleríinu.

En þessi sveitarfélög eiga líka að sjá um skipulags- og byggingarmál, þar á meðal gerð aðal- og svæðisskipulags, gerð deiliskipulags, framkvæmd byggingarlaga og byggingareftirlit. Við sjáum í hendi okkar hvernig það gengur fyrir sveitarfélag sem telur 50 íbúa. Þetta sveitarfélag á líka að sjá um almannavarnir og öryggismál, þar á meðal eldvarnir og eldvarnaeftirlit, staðbundnar almannavarnir. Það á að sjá um hreinlætismál, þar á meðal sorphreinsun og sorpeyðingu, holræsalagnir og skolpeyðingu, heilbrigðiseftirlit og meindýraeyðingu. Það á að sjá um heilsugæslu að einhverjum hluta. Það á að sjá um menningarmál, m.a. rekstur bókasafna, rekstur annarra safna, rekstur félagsheimila og stuðning við áhugamannafélög um listir og listsköpun. En eins og menn rekur minni til, og ég veit að hæstv. forseta rekur einnig minni til, kom það í ljós í könnun sem Félagsvísindastofnun lét gera að íbúar hinna dreifðu byggða horfa ekki hvað síst til þess hvernig menningarmálum og fjölbreytni í afþreyingu er háttað þegar þeir velta fyrir sér áframhaldandi búsetu þannig að hér er um mikilvægan málaflokk að ræða.

Það er ekki nóg með það heldur eru íþróttir og útivera einnig stór hluti af afþreyingu og það er einmitt verkefni sveitarfélaga að sinna byggingu og rekstri íþróttavalla, byggingu og rekstri íþróttahúsa, gerð aðstöðu fyrir vetraríþróttir og ýmsar aðrar greinar íþrótta, að reka fólkvanga og önnur útivistarsvæði.

Svo eru sveitarfélögunum falin landbúnaðarmál, þar á meðal umsjón með forðagæslu, eyðingu refa, minka og vargfugls og fjallskilamál, bygging og viðhald mannvirkja, þar á meðal gatna, vega, torga, veitukerfa, hafna o.s.frv. Og að lokum, miðað við þann texta sem er í gildandi lögum, er þeim falið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi og bjargarskort.

Það er einmitt þetta ákvæði, herra forseti, sem hefur verið notað til að réttlæta þátttöku sveitarfélaga á Íslandi í atvinnurekstri. En hún hefur verið mjög mikil víða á landinu þó að hún fari þverrandi. Það var svo til skamms tíma að víða um land voru sveitarfélögin aðilar að stærstu atvinnufyrirtækjum staðanna.

Það hafði líka í för með sér að sveitarfélögin tóku oft á sig miklar fjárhagslegar skuldbindingar vegna þessara fyrirtækja. Það hefur svo sem líka komið fyrir, herra forseti, að sveitarfélögin hafi tekið á sig skuldbindingar vegna annarra fyrirtækja en þeirra sem eru í eigu sveitarfélagsins, að þau hafi veitt svokallaða einfalda ábyrgð vegna þeirra fyrirtækja og hefur þá e.t.v. verið vísað til greinarinnar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi og bjargarskort. En svo hefur það líka gerst, því miður, að lánastofnanir, sem hafa ekki treyst sér til þess að vera ábyrgar í útlánastefnu sinni, hafa varpað ábyrgð yfir á þriðja aðila, þ.e. sveitarfélögin, og sett mönnum stólinn fyrir dyrnar, að þeir fengju ekki lán til þess að endurskipuleggja atvinnurekstur sinn eða fjárfesta nema sveitarfélagið ábyrgðist og það án tillits til þess hvort sveitarfélagið hafi verið eignaraðili eða ekki að viðkomandi atvinnufyrirtæki.

En þetta er sem betur fer eitt af því sem frv. gerir ráð fyrir að breytist og er að mínu mati löngu tímabært. Það er aldeilis fráleitt að lánastofnanir skuli geta þannig í raun nánast skyldað sveitarfélögin til þess að veðsetja framtíðarskatttekjur sínar sem þeim er ekki heimilt. En mönnum hefur verið stillt upp við vegg vegna þess að það hefur verið hlutverk sveitarfélaganna samkvæmt lögum að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi og bjargarskort, eins og þar stendur.

Ég vildi láta þessa getið, herra forseti, þ.e. hversu víðfeðm verkefni sveitarfélaganna eru einmitt í samhengi við það að einungis skuli vera gerð krafa um að eitt sveitarfélag samanstandi af 50 manns. Þetta hefur orðið landslýð nokkuð ljóst að undanförnu vegna þess að við höfum fylgst með ákveðnum átökum í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur þar sem menn hafa verið að reyna að koma í veg fyrir það að sveitarfélög væru sameinuð með ýmsum kúnstum, að því er virðist, til þess að viðhalda íbúatölunni yfir 50. En ég held að öllum sé ljóst sem vilja horfa raunsætt á þessi mál að ef sveitarfélag á að vera burðugt og á að geta tekið við þeim verkefnum sem verið er að flytja yfir til þeirra --- og bara að valda þeim verkefnum sem þau hafa þegar í dag --- þá þyrfti umhverfið að vera gjörólíkt, bæði þyrftu sveitarfélögin að vera fjölmennari og það þyrfti að vera annars konar samstarfsvettvangur fyrir þau en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Menn geta auðvitað bent á að í frv. er ekki bara talið upp að þau geti falið héraðsnefndum tiltekin verkefni og síðan er ekkert frekar fjallað um héraðsnefndir. Það er líka sagt að sveitarfélögin geti myndað byggðasamlög, og um það eru fjórar greinar í frv., og það er líka fjallað um landshlutasamtök. En það er nú svo, herra forseti, að öll þessi samvinnuform eru ólýðræðisleg að því leytinu til að ekki er kosið til þeirra beint og í mörgum minni sveitarfélögunum vill það þróast þannig að sá sem sinnir þessum utanríkismálum sveitarfélaganna, sá sem situr í héraðsnefndinni eða sækir fundi landshlutasamtakanna eða situr í stjórn byggðasamlagsins, er gjarnan ráðinn sveitarstjóri --- hann er ekki kjörinn fulltrúi --- vegna þess að þeir eru alla jafna í hinum minni sveitarfélögum einungis í þessu sem algjörum hjáverkum. Eini aðilinn sem er í sveitarstjórnarmálunum af einhverjum þrótti er ráðinn embættismaður sem áður en varir er farinn að véla um ýmis mál sveitarfélagsins, jafnvel að binda fjárhag þess nokkur ár fram í tímann og stóran hluta fjárhagsáætlana á hverjum tíma, án þess að nokkur hafi í sjálfu sér kosið hann, en sveitarstjórnin hefur framselt valdið til hans.

Þannig býður það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, upp á ólýðræðislega stjórnarhætti. Menn geta svo sem sagt: Þeir eru jafnólýðræðislegir núna. Það er rétt. En við hefðum vænst þess að reynt yrði að þoka málum í þá átt að um lýðræðislegri ákvarðanir yrði að ræða, að sveitarfélögin þyrftu ekki að framselja jafnmikið af valdi og þau gera í dag með þeim samvinnumöguleikum sem eru í gildandi lögum og að þau yrðu burðugri til að taka sjálf á verkefnum sínum.

[24:00]

Eins og ég gat um áðan, herra forseti, voru það héraðsnefndirnar sem tóku við verkefnum gömlu sýslunefndanna. Þær skipuðu fulltrúana í samvinnunefndina um svæðisskipulag. Það hefur nokkuð verið rætt hér um frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum og í ljósi þess er athyglisvert að það er ekki mikið gert úr héraðsnefndunum í frv. Mér sýnist þær einungis nefndar þar einu sinni af tillitssemi við þær héraðsnefndir sem þegar eru starfandi en þær eru sumar mjög öflugar og mikilvægur samstarfsvettvangur sveitarfélaganna.

Það er athyglisvert að þegar spurt hefur verið út í frv. um breytingar á skipulags- og byggingarlögum, um þá sem sjá ættu um að tilnefna þessa tólf fulltrúa, af því menn hafa ekki alveg getað kyngt því að það væru einungis sveitarfélögin sem liggja að miðhálendinu, þá hefur verið sagt að það ættu að vera héraðsnefndir. Ef það hefur staðið til af hverju stendur þá í textanum: Sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu tilnefna samtals 12 fulltrúa? Af hverju stendur þá í greinargerðinni: Áfram starfi sérstök samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins og að í henni verði fulltrúar tilnefndir af sveitarfélögunum sem liggja að miðhálendinu? Bæði í texta frv. og í grg. er sérstaklega tekið fram að þetta skuli vera fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu. Hins vegar hefur, eins og ég gat um, skýringin verið sú að hér væri átt við héraðsnefndir. Þá hlýt ég að hafa a.m.k. tvær spurningar. Í fyrsta lagi: Af hverju stendur það ekki í frv. vegna þess að það gjörbreytir þessu máli? Og í öðru lagi: Af hverju er þá verið að minnka vægi héraðsnefndanna í frv. til sveitarstjórnarlaga? Af hverju halda þær ekki vægi sínu í frv. til sveitarstjórnarlaganna? Jafnvel ætti að auka vægi þeirra og gera þær lýðræðislegri.

Hér er eitthvað sem ekki rímar, herra forseti, og þyrfti svo sannarlega að fara yfir. Best þætti mér ef menn tækju sér góðan tíma, tækju sumarið í að sortera þetta þannig að engin hætta verði á því að við gerum mistök. En það er alveg ljóst að hér þurfa menn að skoða bæði málin. Það dugar ekki, eins og við heyrum Framsfl. tala um í kvöld, að skoða einungis frv. sem hér hefur verið lagt fram en ekki enn verið mælt fyrir, um breytingar á skipulags- og byggingarlögum. Menn verða líka að horfa til frv. til sveitarstjórnarlaganna svo að þetta rími. Það hefur lítið að segja að ætla héraðsnefndunum verkefni í byggingar- og skipulagslögum ef þær eru ekki lengur til í sveitarstjórnarlögum. Ég held því, herra forseti, nauðsynlegt sé að skoða þetta í samhengi.

Hins vegar er textinn á frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum þannig að ég get ekki séð að hann sé sáttatillaga. Ef maður les hann samkvæmt orðanna hljóðan breytir hann ákaflega miklu. Megingagnrýnisefnið hefur verið að þessi 42 sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu muni fá sína sneiðina hvert inn að miðju landsins og síðan muni hagsmunir sveitarfélaganna ráðast nokkuð af áhugamálum þeirra sem þar fara með stjórn hverju sinni. Þessi 42 sveitarfélög eru mikill minni hluti sveitarfélaganna í landinu. Það er ekki aðeins þannig að í þeim búi minni hluti íbúanna heldur er þetta líka minni hluti sveitarfélaganna.

Ég hef það ekki alveg á takteinum hversu mörg sveitarfélögin eru í dag, og við komandi sveitarstjórnarkosningar mun þeim fækka enn, en a.m.k. fá þarna 42 sveitarfélög umtalsvert vald, miklu meira vald en menn virðast hafa áhuga á að veita þeim. Þótt hér sé gert ráð fyrir því að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni til viðbótar fjóra fulltrúa og að tveir þeirra skuli eiga búsetu í Reykjavík, einn á Reykjanesi og einn á Vestfjörðum, þá vil ég vekja athygli á því að stór landsvæði og fjölmenn liggja enn óbætt hjá garði ef þetta verður svona. Ef við tökum Eyjafjörð sem dæmi, eitt af þéttbýlustu svæðum landsins, mundi þetta leiða til þess að einungis Eyjafjarðarsveit, sem liggur að miðhálendinu, hefði eitthvað um það að segja en önnur sveitarfélög í Eyjafirði ekki neitt. Þar búa u.þ.b. 20 þús. manns sem hefðu þá engin áhrif á þetta svæði.

Að mínu mati er slíkt engan veginn fullnægjandi og því, herra forseti, er mikilvægt að þetta mál komist á dagskrá svo ráðherra geti sagt okkur hvað hann er að hugsa, ekki aðeins í frammíkalli eins og hann gerði í gær, heldur geti hann útskýrt fyrir okkur hvernig ,,sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu`` geti staðið fyrir ,,héraðsnefndir``. Hvernig ætlar hann að finna héraðsnefndunum stað í þeim lögum um sveitarstjórnir sem hér stendur til að setja? Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að tala um þetta frv., þó að það sé ekki á dagskrá, vegna þess að það skiptir miklu um framgang frv. til sveitarstjórnarlaga. Það virðist einfaldlega ráða afstöðu ýmissa hér til þess frv. og hvort það geti orðið að lögum.

Herra forseti. Ég hef verið sveitarstjórnarmaður, svona af og til, og finnst sveitarstjórnarstigið merkilegt stjórnsýslustig, sem það er, vegna þess að þar er fjallað um flest þau nærmálefni fólksins sem skipta það máli í daglegu lífi. Ég hef þess vegna viljað lyfta sveitarstjórnarstiginu og viljað að sveitarstjórnir hefðu sem flest verkefni. Mér finnst samt stundum að andinn, þegar verið er að fjalla um málefni sveitarstjórnanna, sé sá að menn beri meiri virðingu fyrir forminu en fólkinu. Hér er ég aftur að víkja að hámarksíbúafjöldanum og möguleikum ýmissa smærri sveitarfélaga til að mæta rétti þeirra íbúa sem þau byggja. Ég held við verðum að muna að þetta snýst um fólk. Ég geri mér reyndar ljóst að fyrir einhverjum hér snúast sveitarfélög um lönd. Ég vil meina að sveitarfélög snúist um fólk og þjónustu við það. Við eigum fyrst og fremst að leitast við að inna þessa þjónustu sæmilega af hendi áður en við gerum formið svo heilagt að við því megi ekki hrófla. Ég held að sú sveltistefna sem ég hef rætt um í kvöld, þ.e. að svæla sveitarfélögin saman eða íbúana í burtu, sé ekki farsæl. Hún hefur ekki verið það og mun ekki verða það á næstu árum meðan til stendur að færa sveitarfélögunum enn fleiri verkefni.

Ég vil, herra forseti, nefna nokkur atriði sem eru nýmæli og eru til bóta. Mér finnst það vera til bóta að ekki sé lengur skylda að nafn sveitarfélags endi á -bæ eða -byggð. Út úr því höfum við fengið afskaplega sérkennileg sveitarfélagaheiti sem menn hefðu víða gjarnan viljað vera án. Ég held að þær breytingar sem hv. félmn. leggur til á 4. gr. séu mjög til bóta. Sömuleiðis finnst mér sú breyting sem lögð er til á 7. gr. athyglisverð, þ.e. brtt. um arðgreiðslurnar. Ég átta mig ekki alveg á því hvort hún verður til bóta. Ég sé þetta þó ekki alveg fyrir mér og vildi gjarnan að hæstv. ráðherra kæmi hér á eftir og útskýrði fyrir okkur hver hugsunin er. Mér skilst að þessi brtt. sé ættuð úr félmrn. og komin inn í nefndina að hans vilja. Hvernig reiknar hann með því að þetta verði útfært, þ.e. að sveitarfélögin geti rekið þjónustustofnanir sínar, ekki aðeins þannig að gjaldskrá þeirra sé til þess að mæta kostnaði heldur að þau geti gert til þeirra arðsemiskröfur og fengið arðgreiðslur út úr þeim?

Það er rétt sem nefnt var hér fyrr í kvöld, ég held það hafi verið hv. þm. Árni Ragnar Árnason sem sagði að í mörgum tilfellum væri hér um að ræða einokunarfyrirtæki, þ.e. fólk á þess ekki kost á að versla við annan ef því ofbýður það verð sem upp er sett. Fróðlegt væri að heyra hvað ráðherra gerir ráð fyrir að sveitarfélögin geti gengið langt í þessum efnum. Ljóst er að þau eru mjög misjafnlega sett hvað þetta varðar. Sum eru í ágætri aðstöðu, eru með ódýrar og löngu afskrifaðar hitaveitur eða vatnsveitur, og geta því gert þó nokkra arðsemiskröfu án þess að verðið hækki upp fyrir það sem gengur og gerist á öðrum svæðum landsins. Einnig væri fróðlegt að heyra hvort ráðherra metur það þá svo að hér verði um skattlagningu að ræða. Sú skilgreining sem við höfum byggt á varðandi skattlagningu er að það sé skattlagning þegar gjaldið sem greitt er er ekki aðeins fyrir þjónustu heldur eitthvað umfram hana.

Vegna þess að stjórnarskráin kveður á um að ekki megi taka skatt eða leggja á skatt nema með lögum þá hlýtur að þurfa að reifa þessa brtt. sem hér er lögð til betur en gert hefur verið. Það hefur verið brýnt nokkuð fyrir sveitarfélögunum á undanförnum árum að þeim væri ekki heimilt að nota gjaldskrár sínar til þess að ná í tekjur. Gjaldskrár þjónustufyrirtækjanna hafa einungis átt að vera, eins og segir í frv. sjálfu, til að mæta kostnaði.

Það er því nauðsynlegt að hæstv. félmrh. fari yfir þetta mál og segi okkur hver hugsunin er og hvernig hann sér framkvæmdina á þessari brtt. fyrir sér, verði hún samþykkt og verði frv. síðan að lögum. Ég vil spyrja forseta: Er hæstv. félmrh. í húsinu?

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að hæstv. félmrh. er í húsinu.)

Hann er hér í húsinu. Ég er með fleiri spurningar sem ég ætla að leggja fyrir hæstv. ráðherra á eftir. Það ætti því e.t.v að gera honum viðvart um það. Ég veit að hann hlýðir kannski á mál mitt þar sem hann er staddur en ég mun að sjálfsögðu ætlast til að hann svari einnig. Það væri því kannski að mörgu leyti þægilegra fyrir hæstv. félmrh. að vera í salnum.

Ég endurtek þessa spurningu ásamt öðrum síðar og held því ræðu minni áfram, herra forseti, þó hæstv. félmrh. sé ekki kominn. Hann kemur á eftir og þá getum við farið yfir þær spurningar sem ég hyggst leggja fyrir hann.

Eins og ég hef getið um hefur mest verið talað um 1. gr. frv. og bráðabirgðaákvæðin. Segja má að það hafi vakið furðu mína og kannski fleiri að það virtist ekki sæta tíðindum að árið 1998 skuli lágmarksíbúatalan vera 50 og að hvergi í frv. skuli gert ráð fyrir lýðræðislegum samvinnuvettvangi til að hin fámennu sveitarfélög geti sinnt skyldum sínum við íbúana.

Ég óttast, herra forseti, að sú löggjöf sem drögin eru lögð að, ekki 1. gr. og bráðabirgðaákvæðin heldur aðrar greinar frv. sem snúa að daglegum rekstri sveitarfélaganna, muni í sjálfu sér ekki bæta nokkurn skapaðan hlut nema e.t.v. fjármálastjórn sveitarfélaganna. Sá rammi sem hér er settur um málefni dreifbýlisins er ekki fullnægjandi.

Ég þakka fyrir að hæstv. félmrh. er kominn í salinn. Eins og ég gat um áðan hyggst ég leggja fyrir hann nokkrar spurningar í lok ræðu minnar og nú líður að þeim lokum. Fyrst vil ég aðeins, eins og ég sagði hér í upphafi máls míns, víkja frekar að 1. gr. og bráðabirgðaákvæðinu. Ég þykist nú hafa farið nokkuð yfir anda frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga. Ég mun fara yfir það aftur með hæstv. ráðherranum hér á eftir en ætla ég að víkja aðeins að 1. gr. og bráðabirgðaákvæðinu, öllu heldur efni þeirra, og hvernig það birtist, bæði okkur og þeim sem hafa lesið sér til um þessi mál úti í samfélaginu eða hafa reynt að fylgjast með.

[24:15]

Eins og margoft hefur komið fram er í frv. gert ráð fyrir því að miðhálendinu verði skipt upp á milli örfárra sveitarfélaga, 42. Það hefur líka komið fram að við jafnaðarmenn getum ekki fallist á þessa niðurstöðu og mat okkar er það að þó að það frv. til skipulags- og byggingarlaga sem hér liggur fyrir yrði að lögum þá væri það ekki fullnægjandi, og allra síst á meðan þar er endurtekið að einungis þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu fái að hafa áhrif á skipulagsmál þess ásamt og með þessum fjórum handvöldu fulltrúum sem Samband ísl. sveitarfélaga á að finna á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum.

Við teljum að ekkert geti réttlætt að svo afdrifaríkt ákvæði verði lögbundið. Þó að ríkisstjórnin virðist ætla að gera það þá er það í bullandi ágreiningi við þjóðina. Ég held að það hafi komið fram, bæði í undirskriftalistum og í þeim áhyggjum sem menn hafa lýst og þeir eru margir hv. þingmennirnir sem hafa komið í þennan ræðustól við þessa umræðu, ekki síst þeir þingmenn sem eru kosnir af því fólki sem býr á suðvesturhorninu, og hafa sagt okkur frá áhyggjum þeirra sem við þá hafa talað. Við sem komum annars staðar að ættum að sönnu að hafa sömu áhyggjur ef frv. fer fram óbreytt vegna þess að eins og ég sagði áðan, mun einungis lítið brot af sveitarfélögunum hafa hér áhrif ef ekki verða gerðar á breytingar.

Við erum á þeirri skoðun, herra forseti, að þjóðarauðlind sem felst í ósnortnum víðernum hálendisins, söndum þess og jöklum, hraunum og gróðri eigi að vera sameign allrar þjóðarinnar og Alþingi verði að tryggja þjóðarsátt um stjórn og skipulag svæðisins. Alþingi beri einnig að tryggja að meiri hluti þjóðarinnar, bæði þeir sem búa hér og annars staðar um landið, komi að stjórn og skipulagi þessa sameiginlega svæðis.

Ég held að það sé rétt að taka fram, vegna þess að hér hafa menn annað veifið borið okkur sem höfum áhyggjur af þessu það á brýn að við vantreystum sveitarfélögunum, að það er í sjálfu sér ekki verið að taka neitt frá þessum sveitarfélögum þó að farið yrði að tillögu okkar jafnaðarmanna og þannig ekkert verið að vantreysta þeim í sjálfu sér til þess að sinna þeim verkefnum sem þau sinna núna, þó e.t.v. væri full ástæða til þess að vantreysta einhverjum þeirra, þeim allra fámennsutu, vegna þess að það má vera ljóst af yfirferð minni áðan yfir þau verkefni sem sveitarfélög eiga að sinna að mörg þessara sveitarfélaga sinna þeim ekki, einfaldlega vegna þess að þau hafa ekki tök á því. Fram hjá því hefur verið litið og það er eitt af því sem ég vildi ræða við hæstv. ráðherrann á eftir.

En það er ljóst að stjórnsýslan utan byggða hefur verið óljós og framkvæmd skipulags- og byggingarmála hefur verið tilviljanakennd. Það þekkjum við af því sem þegar hefur gerst og menn hafa tekist á um varðandi byggingar uppi á hálendinu. Nú virðist ekkert stjórnvald bært til þess að ákveða um skipulagsmálin, gefa heimild til bygginga og hafa eftirlit með þeim. Enginn virðist fara með mikilvæga þætti opinbers valds, svo sem lögreglustjórn og almannavarnir utan sveitarfélaga og lögsagnarumdæmi héraðsdómstólanna átta ráðast af sýslumörkum og staðarmörkum kaupstaða. Þess vegna er nauðsynlegt að setja skýr lagaákvæði um stjórnsýslu á öllu miðhálendinu, þar með talið jöklum og ákveða þarf hver fer með stjórnsýslu á þessu svæði.

Við erum nefnilega ekki á móti því að það sé ákveðið enda er það grundvöllur ákveðinnar framvindu, bæði varðandi skipulag hálendisins og aðra þróun. En það er afdráttarlaus skoðun okkar að líta beri á miðhálendið sem eina stjórnsýslulega og skipulagslega heild undir einni stjórn. Og þar vil ég enn vísa til þeirrar brtt. sem hér liggur fyrir.

Það er nefnilega svo að fólkið í landinu nýtir öræfin í æ ríkara mæli til gönguferða, til útivistar alls konar og ef marka má þær áhyggjur sem fram hafa verið settar óttast menn að ef þetta frv. sem hér liggur fyrir verður að lögum þá verði almannaréttur ekki virtur. Ég held þess vegna að skýr skilaboð verði að koma héðan frá Alþingi, frá ráðherrum með lagasetningu, um að ekki standi til að gæta hér einungis sérhagsmuna heldur verði almannaréttur virtur og að menn taki þann tíma sem þarf til að sannfæra þjóðina um að svo verði.

Það er auðvitað eðlilegt að fleiri en íbúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu standi að mótun og skipulagningu svæðisins. Er ég þá ekki að gera lítið úr þessum fjórum sem, miðað við frv. sem ekki er á dagskrá, eiga að fá að taka þátt í þessu. Landsmenn verða að geta treyst því að almannaréttur ráði ferðinni, t.d. að réttur almennings til umferðar um landið sé skýr en ekki hagsmunir einstakra sveitarfélaga umfram þann rétt. Það er ljóst að árekstrar á milli staðbundinna sveitarstjórna annars vegar og einstaklinga og félagasamtaka hins vegar eru ekki óþekktir nú þegar, þegar kemur að umferðarrétti þeirra síðarnefndu um landsvæði utan byggða, og ferðamenn telja að slíkum ágreiningsmálum hafi fjölgað hin síðari ár. Auðvitað fjölgar þeim með sífellt aukinni útivist landsmanna. Það er þess vegna sem litið er á þessa tillögu um skiptingu miðhálendisins á milli 42 sveitarfélaga sem atlögu að almannarétti.

Herra forseti. Jafnframt er nauðsynlegt að skipulagning miðhálendisins byggi á heildarsýn svo gætt verði samræmis á öllu svæðinu en hætt er við að einstök sveitarfélög geti ekki tryggt þá heildarsýn jafnvel þó svæðisskipulag verði gert.

Í skipulagslögum segir að við gerð aðalskipulags skuli stefnt að því að ná samræmi við skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga, að stefnt skuli að því. Þetta er ekki nógu sterkt orðalag. Við hljótum í þessu tilfelli að gera kröfu til þess að um samræmi verði að ræða, það verði um algjört samræmi að ræða á milli svæðisskipulags og þess aðalskipulags eða þeirra aðalskipulaga og deiliskipulaga sem gerð verða inni á hálendinu. Það má ekki gerast að framkvæmdin verði sú að einstök sveitarfélög geti gengið á svig við svæðisskipulag á einhvern hátt og að aðrir hagsmunir en hagsmunir heildarinnar fái að ráða.

Ég gat um það í upphafi ræðu minnar, þar sem ég vitnaði í Steinunni Sigurðardóttur rithöfund sem lýsti landinu okkar í ágætu erindi, að mikill hluti auðlinda þjóðarinnar liggur á hálendi Íslands. Menn hafa talað um það í þessari umræðu og víðar að lítil stefna hafi verið mótuð um nýtingu þessara auðlinda. Menn velta fyrir sér sterfnumörkun í orkumálum, svo sem ákvörðun um hámarksnýtingu vatns- og varmaorku, stefnu í ferðamálum á miðhálendinu og ákvörðun um staðsetningu þjóðgarða. Hér hafa verið að koma fram tillögur um þjóðgarða en engin stefnumótun hefur farið fram, ekki af hálfu yfirvalda. Þetta eru allt verkefni sem í raun væri verið að færa yfir til sveitarfélaganna við skipulagningu hálendisins og auk þess vegagerð, mannvirkjagerð, afmörkun virkjanasvæða, verndarsvæða og ákvörðun um þjóðgarða. Þetta eru allt þættir sem mundu ákvarðast í aðalskipulagi sveitarfélaganna og einnig uppgræðsla landsvæða og beitarafnot.

Ég vil nefna það hér, herra forseti, að nefnt hefur verið í mín eyru að mönnum hafi láðst að taka tillit til beitarþols í þeim drögum að svæðisskipulagi fyrir hálendið sem nú liggja fyrir og líklega um 600 athugasemdir hafa borist við. Að það sé atriði sem lítt sé tekið tillit til. Ég vil leyfa mér að vitna í formlegar athugasemdir við þessa tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins og vitna í Yngva Þorsteinsson, sem segir með, leyfi forseta:

,,Við skipulagsgerð eins og hér er um að ræða hlýtur að vera grundvallaratriði að leitað sé allra gagna sem máli skipta um náttúrufar landsins og að trúverðugleiki þeirra gagna og þar með notagildi sé síðan metið. Hafi þetta verið gert hvað varðar gróðurfar hálendisins er niðurstaðan vægast sagt furðuleg. Þær ,,tillögur`` sem gerðar eru um beitarnýtingu hálendisins taka ekki tillit til þeirrar þekkingar sem fyrir hendi er um ástand gróðurs og jarðvegs á hálendinu. Þeirrar þekkingar var m.a. aflað með gróðurkortum RALA og með rofkortum RALA og Landgræðslu ríkisins.``

Herra forseti. Landgræðsla ríkisins segir síðan í formlegri athugasemd við tillöguna að svæðisskipulagi miðhálendisins ,,að skilgreina verði nánar hugtakið ,,ástand lands`` svo og þau helstu hugtök önnur sem notuð eru í umræðunni um verndun lands. Enn fremur verði aflað frekari upplýsinga er varða undirstöður tillagna um landgræðslumál. Má þar nefna upplýsingar um raunveruleg gróðurskilyrði, æskilega útbreiðslu og samsetningu gróðurs, jarðvegsrof og margháttuð landkostasjónarmið.``

Ég get þessa hér vegna þess að miðað við þau frumvörp sem fyrir liggja og að einungis 42 sveitarfélög eigi að fara með það mikla vald sem hér er verið að leggja til að þau fari með, þá óttast menn að hagsmunum þeirra sem byggja þessi sveitarfélög verði sinnt í ríkara mæli en áhugamálum og hagsmunum annarra landsmanna. Menn óttast e.t.v. þá niðurstöðu sem varð við þessa tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins þar sem nákvæmlega þess hafi ekki verið gætt nægjanlega, sem velfelstir landsmenn telja mesta umhverfisvandamál Íslands, að hugað yrði að beitarþoli og gróðurfari.

Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að geta þessara hluta í umræðunni vegna þess að ýmsir hér velta því fyrir sér hverju þeir íbúar sem ekki koma til með að eiga fulltrúa í skipulagningu miðhálendisins hafa áhyggjur af. Þetta er eitt af því.

[24:30]

Það er réttlætt í grg. við frv. til sveitarstjórnarlaga, gott ef það er ekki í bráðabirgðaákvæðinu sjálfu, að staðbundin stjórnvöld fari með ákvörðunarvald á þessum svæðum, á þessum tertusneiðum sem ætlað er að búa til. En það er ástæða til að geta þess, herra forseti, að stór hluti þeirra svæða sem frv. gerir ráð fyrir að skipt verði upp á milli sveitarfélaganna er í órafjarlægð frá því sem í dag er sveitarfélagið. Um er að ræða býsna víðfeðm svæði sem lítil umferð hefur verið um frá upphafi byggðar. Í því sambandi er vert að nefna Ódáðahraun, svæði norðan Vatnajökuls, Sprengisand, Nýjadal, Veiðivatnasvæðið og svæðin fyrir norðan Tungnaárjökul, svo auðvitað alla jökla, þar á meðal Vatnajökul. Þessir hlutar landsins opnuðust mönnum ekki með þeim hætti sem við horfum til þeirra nú fyrr en um miðbik þessarar aldar fyrir tilstilli áhugamanna um útivist. Örnefnin á þessum stöðum sýna það því að þau eru mörg hver ekki nema nokkurra áratuga gömul. Bændur hafa ekki nýtt þessi svæði eða lítið, og lítil sem engin umferð hefur verið um þau.

Þess vegna er því hvorki hægt að réttlæta þá framkvæmd sem hér er verið að fara í með staðbundinni þekkingu eða þekkingu þessara sveitarfélaga né með langvarandi nýtingu. En við þekkjum það að annars staðar þar sem verið er að úthluta verðmætum hafa menn nú gjarnan viljað horfa til reynslu, samanber lögin um stjórn fiskveiða þar sem meginreglan er sú að horft er til reynslu af veiðum þegar veiðirétti er úthlutað.

Nei, herra forseti, það liggur fyrir að áhugafólk um útivist úr þéttbýlinu hefur verið hvað ötulast við að nýta þessar víðáttur og kynna þær fyrir landsmönnum öðrum. Langvarandi heimild til búfjárbeitar á afréttum skapar heldur engan eðlilegan grundvöll að stjórnsýsluyfirráðum í nútímaskilningi. Það má kannski velta því fyrir sér hversu eðlilegt það er að þeir sem nýta afréttinn fari sjálfir með þann þátt skipulagsmála sem ákvarðar t.d. gróðurvernd, sem felst m.a. í beitarfriðun.

Herra forseti. Ég sagði að ég væri með spurningar sem ég vildi leggja fyrir hæstv. ráðherra og ætla nú að vinda mér í þær. Í fyrsta lagi langar mig til að inna hæstv. félmrh. eftir ákvæði sem við ræddum snemma í vetur en það er um lögheimilismál. Í 1. gr. frv. til sveitarstjórnarlaga er sagt að hver maður teljist þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili. Lögheimilislögin kveða síðan nánar á um hvernig þessu skuli háttað. Í haust spurði ég hæstv. félmrh. hvort hann væri tilbúinn til að beita sér fyrir því að hjón gætu átt lögheimili hvort í sínu sveitarfélagi. Ærin ástæða var fyrir þeirri fyrirspurn. Ástæðan var sú að það kemur upp reglulega að sjómenn munstra sig á skip sem gert er út frá einum stað en eru búsettir á öðrum. Síðan kemur upp krafa frá þeim stað sem skipið er frá, að viðkomandi sjómaður skipti um lögheimili ella kunni hann að missa skipsrúmið. Þetta hefur skapað ýmis vandamál og þar af leiðandi koma upp þessar vangaveltur hvort ekki væri einhvern veginn hægt að koma því fyrir innan lögheimilislaganna að hjón þyrftu ekki að vera með sameiginlegt heimilisfang heldur gætu með einhverju móti verið hvort með sitt heimilisfangið, að til væru einhver ákvæði sem heimiluðu slíkt og að menn fyndu einhverjar aðferðir til að fara með útsvarsgreiðslur í samræmi við það.

Hæstv. ráðherra tók þessu vel og ég vil spyrja hann hvort eitthvað hafi verið aðhafst í þessum efnum. Ég held að það væri mjög farsælt ef hægt væri að koma málum þannig fyrir að þeirri togstreitu sem vill verða á milli sveitarfélaga vegna þessara einstaklinga sem munstrast á skipin væri eytt.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðherra út í 7. gr. frv. Það eru eiginlega tvö atriði í 7. gr. sem mér fyndist gott að fá frekari skýringar á. Það er í fyrsta lagi í 2. mgr. þar sem segir að sveitarfélög skuli vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma. Og ég velti því fyrir mér, herra forseti, af hverju punkturinn var ekki settur fyrir aftan ,,velferðarmálum íbúanna``. Af hverju er það ekki bara afdráttarlaust að sveitarfélögin skuli vinna að sameginlegum velferðarmálum íbúanna, punktur? Af hverju er þessi varnagli sleginn, ,,eftir því sem fært þykir á hverjum tíma``? Er það e.t.v. vegna hinna fámennu sveitarfélaga sem engan veginn geta staðið undir þessum skyldum eða hver er hugsunin þarna?

Í öðru lagi vildi ég gjarnan fá frekari skýringar á þeirri brtt. sem meiri hluti félmn. leggur til varðandi 4. mgr. 7. gr., þ.e. að gjaldskrá fyrirtækja og stofnana sveitarfélaganna skuli ekki einungis vera til að mæta kostnaði heldur megi sveitarfélögin setja fram kröfur um tiltekinn arð eða arðgreiðslur. Þetta stangast nokkuð á við þá þróun sem verið hefur þar sem það hefur verið vefengt að sveitarfélögin gætu tekið greiðslur af sínum stofnunum og fyrirtækjum umfram það sem kostnaðurinn er, vegna þess að ef þau gerðu það þá væru þau farin að skattleggja og slíkt væri ekki heimilt samkvæmt stjórnarskrá. Mig minnir að komið hafi upp mál sem sneri að heilbrigðiseftirlitinu þar sem sveitarfélögin innheimta heilbrigðisgjald af fyrirtækjum. Síðan er engan veginn víst að eftirlitsmaður komi og líti á aðstöðu fyrirtækjanna og þar með væri hægt að líta á heilbrigðisgjaldið sem skatt. En hér kveður við nýjan tón og ég vildi gjarnan að ráðherrann segði okkur hvernig hann sér þetta fyrir sér, hvernig hann sér þetta ákvæði þróast.

Sveitarfélögin eru ákaflega missett hvað varðar möguleika til þess að taka arð af sínum fyrirtækjum. Ég veit ekki hvort ráðherrann heyrði það hér áðan þegar ég var að fjalla um þetta ákvæði en ég gat þess þá m.a. að við vitum að í sumum sveitarfélögum eru gamlar og löngu afskrifaðar veitur sem sveitarfélögin geta haft ágætan arð af án þess að gjöldum sé stillt það hátt að íbúarnir kveini undan. Það er spurning hvernig menn sjá þetta fyrir sér og hvort ráðherrann telur að þetta ákvæði kunni e.t.v. að auka á mismunun þegna landsins eða hvort hann telur að á einhvern hátt geti þarna verið um réttlætismál að ræða og þá af hverju. Og hvort hann telur að hér verði um að ræða þjónustugjald eða skatt. Við höfum byggt á OECD-skilgreiningu um hvað er skattur. Miðað við þá skilgreiningu sýnist mér að hér sé verið að ræða um skatt. En ég vildi gjarnan heyra útskýringu hæstv. ráðherra á þessari brtt. sem mér skilst að sé ættuð úr félmrn. og hlýtur þá að vera sett inn með blessun ráðherrans.

Mér fannst líka áhugavert ákvæðið í síðustu málsgrein 24. gr., að þegar aðalmaður flytur úr sveitarfélaginu um stundarsakir megi ákveða að hann skuli víkja úr sveitarstjórn þar til hann tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu. Er hér átt við þegar menn fara í tímabundið nám eða hvað? Það gefur alla vega mikinn sveigjanleika að menn skuli geta látið kjósa sig í sveitarstjórn og síðan flutt burt en haldið sínu sæti að því leytinu til að þegar þeim hentar að koma til baka að þá geti þeir tekið sætið aftur.

Ég vil vísa í 34. gr., vegna þess að þar stendur, með leyfi forseta:

,,Missi fulltrúi í sveitarstjórn kjörgengi`` --- sem hann gerir auðvitað ef hann er með lögheimili í öðru sveitarfélagi, þá er hann ekki kjörgengur lengur --- ,,skal hann víkja úr sveitarstjórninni,`` --- en hér stendur ,,sbr. þó ákvæði 4. mgr. 24. gr.`` sem ég var að lesa hér áðan um það að hann geti haldið sætinu.

Ég held að það væri ágætt að fá útskýringar á því hvernig menn reikna með að þetta ákvæði verði notað. Það líður sjálfsagt hratt að því að félmrn. þurfi að úrskurða í málum sem þessu tengjast því mér sýnist ljóst að upp muni koma ágreiningur einhvers staðar um hvað átt sé við.

Sömuleiðis vildi ég gjarnan að ráðherrann segði okkur sína túlkun eða túlkun félmrn. á því hverjir eru kjörgengir í nefndir. Í 33. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Aðal- og varamönnum í sveitarstjórn er skylt að taka kjöri í nefnd, ráð eða stjórn á vegum sveitarfélagsins.``

Þetta finnst okkur flestum eðlilegt. En það er hins vegar svo að menntmrn. hefur tekið að sér túlka sveitarstjórnarlögin og menntmrn. hefur túlkað lögin þannig að fulltrúum í sveitarstjórn væri ekki heimilt að sitja í skólanefnd. Ég hef verið á þeirri skoðun, og það eru fleiri, að þarna sé um ákveðinn misskilning að ræða af hálfu menntmrn., að þeir átti sig ekki á því að skólnefnd er starfsnefnd sveitarstjórnar og þess vegna ekkert óeðlilegt við það og kannski miklu frekar í hæsta máta eðlilegt, að fulltrúar í sveitarstjórn sitji í skólanefnd. (Félmrh.: Hvar hefur þessi túlkun komið fram?) Þú finnur hana á netinu í túlkunum ráðuneytisins á einstökum deilumálum sem vísað hefur verið til ráðuneytisins. Ég held hún sé frá 1996 eða 1997. Hún hefur legið fyrir. Þetta hefur svolítið verið rætt meðal sveitarstjórnarmanna og skólafólks, kannski áhugafólks um hvort tveggja, vegna þess að þetta þykir sérkennilegt, ekki síst vegna þess að samkvæmt sveitarstjórnarlögum er sveitarstjórnum beinlínis heimilt að taka skólamálin til sín ef um fámenni er að ræða. Því skýtur það skökku við ef sveitarstjórnin getur tekið skólamálin til sín að fulltrúar í sveitarstjórnum skuli ekki mega sitja í skólanefndum. (Gripið fram í: Já.) Ég held að þetta sé misskilningur af hálfu menntmrn. og ég held að það væri mjög gott ef hæstv. félmrh. ræddi þetta við kollega sinn í ríkisstjórninni þannig að þetta yrði endurskoðað og það yrði þá gert áður en skipað verður í nefndir að afloknum næstu kosningum.

Áfram með spurningarnar. Í 3. mgr. 44. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að ákveða að fela öðrum aðilum en nefndum afgreiðslu mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins.``

Ég held að það væri ágætt að frekari skýringar kæmu fram en þær sem eru í skýringum með frv. Mér finnst að hér sé kannski ákvæði sem vísar svolítið inn í tilraunaverkefnin, þ.e. tilraunverkefni þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið að sér ákveðin atriði sem varða skipulags- og byggingarlög þar sem um það er að ræða að byggingarfulltrúar hafa fengið ákveðið ákvörðunarvald innan tiltekins ramma. Gott væri að fá það staðfest ef það er hugsunin. Ég held að þetta geti víða verið til bóta en þarf að vera skýrt að mínu mati. Ég er nokkuð viss um það sem reynd sveitarstjórnarmanneskja að ákvæði sem þetta getur nákvæmlega valdið ágreiningi.

Síðan er það 54. gr. þar sem fjallað er um ráðningu framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Þar er talað um að uppsagnarfrestur skuli vera þrír mánuðir af beggja hálfu miðað við mánaðamót. Og það er ef framkvæmdastjóri sveitarfélags er ráðinn til óákveðins tíma.

Nú hefur stundum verið litið svo á að biðlaun væru eins konar uppsagnarfrestur, að réttlæting biðlaunanna fælist í því að eðlilegt væri að þeir sem missa vinnuna sviplega, eins og gerist stundum við kosningar er nýr meiri hluti myndast, ættu rétt til síns uppsagnarfrests og þess vegna væru þeim greidd biðlaun. Hér er uppsagnarfresturinn afmarkaður þrír mánuðir og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort með þessu sé þá verið að gefa einhverja forskrift um lengd biðlaunatíma framkvæmdastjóra sveitarfélaga. En eins og kunnugt er hafa sumir framkvæmdastjórar sveitarfélaga --- ætli þeir séu ekki einhverjir hæst launuðu embættismenn í landinu --- náð að semja um sex mánaða biðlaunatíma.

[24:45]

Síðasta spurningin, svo ég fari nú að hætta þessu, snýr að stækkun sveitarfélaga. 88. gr. í kaflanum um stækkun sveitarfélaga hefst svo: ,,Ráðuneytið skal vinna að stækkun sveitarfélaga`` og síðan er tekið fram ,,með samruna fámennra sveitarfélaga í stærri og öflugri heildir. Skal ráðuneytið vinna að þessu í samráði við einstök sveitarfélög, Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.``

Ég vildi samt fá skýringar umfram það sem er í greininni sjálfri: Hvaða hugmyndir er ráðuneytið með varðandi stækkun sveitarfélaga, fyrst þetta er sett fram sem markmið hér í frv.? Ég hef gert það að nokkru umtalsefni í ræðu minni að það er erfitt og jafnvel ógerlegt fyrir minnstu sveitarfélögin að takast á við þau verkefni sem sveitarfélögin hafa samkvæmt lögum þegar í dag, hvað þá þau verkefni sem fyrirséð eru að þau muni þurfa að takast á hendur. Ég er sammála þeirri stefnu að ráðuneytið eigi að vinna að stækkun sveitarfélaga og hefði viljað sjá því fastar fylgt eftir í frv. því sem við erum að fjalla um. Ráðuneytið og hæstv. ráðherra hefur aðrar skoðanir um málið en setur samt fram ákveðna stefnumótun sem ég vildi þá gjarnan að hann gerði okkur betri grein fyrir.

Herra forseti. Ég held að ég sé búin að fara yfir þau atriði sem mér fannst ástæða til að benda á í þessari umræðu. Ég hef fjallað nokkuð um þau ákvæði sem valdið hafa mestum ágreiningi, þ.e. 1. gr. og bráðabirgðaákvæðið. Ég hef orðið að víkja að frv. sem ekki er hér á dagskrá en það reyndist nauðsynlegt samhengisins vegna. Ég hef varið mestu af tíma mínum aðrar greinar frv., þ.e. þær greinar sem lúta að daglegum rekstri sveitarfélaganna og störfum sveitarstjórna.

Sveitarstjórnarstigið er mjög mikilvægt. Þar fer fram það sem skiptir flesta mestu máli, þ.e. sú þjónusta við hverja fjölskyldu dags daglega. Því er mjög mikilvægt hvernig til tekst með setningu laga um þá starfsemi, hvernig sveitarstjórnarlögin líta út og þetta frv. er þess vegna að mínu mati með þeim mikilvægari sem hér er um fjallað. Það væri álíka mikilvægt, herra forseti, þó að 1. gr. væri óbreytt frá gildandi lögum og ekkert bráðabirgðaákvæði væri.