1998-04-30 02:09:24# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[26:09]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að ég kveð mér hljóðs um þetta atriði. Fyrr í kvöld þegar ég innti hæstv. forseta eftir framvindu þessa máls var ekki hægt að skilja mál hæstv. forseta öðruvísi en svo að þegar næsti ræðumaður hefði lokið sínu máli, þá mundi forseti gefa yfirlýsingu um það hvenær við mundum láta nótt nema og hætta þessu. Það liggur alveg fyrir, herra forseti, að fjölmargir eiga eftir að tala mikið um þetta mál og það er alveg ljóst að mælendaskrá mun ekki tæmast í kvöld. Það er nauðsynlegt fyrir okkur, herra forseti, sem ætlum að taka þátt í umræðunni og höfum búið okkur undir að flytja hér langt og ítarlegt mál, að við vitum hvort við fáum færi á því í nótt eða ekki.

Ég tel sjálfur, herra forseti, að það skipti sóma þingsins nokkru að við högum vinnubrögðum okkar eins og siðuðu fólki sæmir. Ég tel það ekki svo þegar við högum okkar svona. Við höfum verið hér á sextánda eða sautjánda tíma og hæstv. forseti hann treystir sér ekki til þess að segja, líkt og á öllum öðrum venjulegum vinnustöðum, hvenær hann hyggist láta þessu verki lokið.

Ég spyr, herra forseti: Er ekki mögulegt, til þess að halda áfram þeirri góðu sátt sem hefur nú verið á millum forseta þingsins og þingflokka stjórnarandstöðunnar, að formenn þingflokka og forseti hittist til þess að ræða þetta? Ég tel þetta úr takti við þau vinnubrögð sem tekist hefur að koma á undir forsæti hæstv. forseta Ólafs G. Einarssonar með góðri aðstoð varaforseta, þar sem ríkt hefur sæmileg sátt um vinnutilhögun í þessu þingi. Mér sýnist ekki, herra forseti, að rétt sé fram sáttahönd, nú þegar við, á síðustu dögum þingsins, reynum að ráða til lykta hér fjölmörg veigamikil mál.

Er ekki vilji til þess af hálfu hæstv. forseta að reyna að ná bærilegum samvinnuanda milli stjórnar og stjórnarandstöðu? Ég spyr, herra forseti, vegna þess að hér hefur verið kallaður til sögunnar sá forseti sem stundum hefur verið nefndur ,,maðurinn með gullhjartað``. Er ekki rétt að forseti geri nú örstutt hlé og reyni að leysa úr málum í bærilegum friði með samtölum við stjórnarandstöðuna?