1998-04-30 02:16:36# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[26:16]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég tók þann kostinn að blanda mér ekki í þær umræður sem hér áttu sér stað um stjórn fundarins. Hins vegar er óhjákvæmilegt annað en vekja á því sérstaka athygli að við umræður um þetta mikilvæga mál, lög um sveitarstjórnir á Íslandi, eru 17 þingmenn í húsinu. Það sem sérstaklega er athyglisvert í því sambandi er að af þeim níu sem færa málið inn í þingsal, þ.e. fulltrúum úr félmn., eru þrír við þessa umræðu. Þar af tveir stjórnarandstæðingar, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og Ögmundur Jónasson, og talsmaður meiri hluta nefndarinnar, hv. þm. Magnús Stefánsson.

Hér er með öðrum orðum ekki einn einasti fulltrúi Sjálfstfl. í félmn. að svara fyrir þessi mál. Ég segi það gjarnan við 2. umr., þegar frv. koma úr nefndum þingsins, að ég eigi yfirleitt ekkert vantalað við hæstvirta ráðherra um þau efni og ég stend við það. Ég á hins vegar margt vantalað við sérfræðinga stjórnmálaflokkanna, þá hv. þm. sem farið hafa höndum um viðkomandi frumvörp, lagt á þau sitt mat og skoðað þau í krók og kima. Það á auðvitað ekki síst við í því stórmáli sem hér um ræðir. Virðulegi forseti, þetta eitt gerir það að umræðan hér verður býsna marklítil og nánast marklaus, hvað sem líður klukkunni. Það eitt að ég eigi ekki þess kost að spyrja fulltrúa Sjálfstfl. í félmn., stærsta þingflokksins sem flutt hefur þetta mál í þingið eftir ítarlega umræðu í félmn., gerir það að verkum að hér verður ekki haldið áfram svo vitiborið sé.

Auðvitað er reynt að halda því til haga að í húsinu eru fjórir þingmenn Sjálfstfl. og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, nýkjörin formaður þingflokks Sjálfstfl. stendur hér vaktina af mikilli plikt. Mér er það ekki nægilegt. Það eru einmitt þessir sérfræðingar stjórnarflokkanna sem ég vil að leggi við hlustir. Því spyr ég virðulegan forseta hvort að þess sé að vænta að þeir hv. þm., sem ég mun nú ekki nafngreina sérstaklega af tillitssemi við þá, við vitum hér um hverja er að ræða, muni sjást við þessa umræðu.

(Forseti (GÁ): Forseti getur lýst því yfir að hann gerir sér ekki grein fyrir því en þeim ber auðvitað að vera við þessa umræðu.)

Virðulegur forseti Hér er auðvitað um grafalvarlegan hlut að ræða. Ég er ekki að þæfa málið eða flækja að ósekju. Hvernig í veröldinni get ég hins vegar farið yfir þennan mikilvæga lagabálk með einhverjum vitrænum hætti ef loku fyrir það skotið, bara út frá náttúrufræðilegum forsendum, að þeir sem eiga að hlýða á mál mitt séu á staðnum? Hefur virðulegur forseti nokkur tök á að kanna það hvort þess sé að vænta að fulltrúar stjórnarflokkanna í félmn. Alþingis, sem fluttu þetta mál hér inn á þingið, muni koma til fundarins? Því mér finnst eiginlega nauðsynlegt að ég viti það. Ef svo reynist ekki vera finnst mér við blasa að umræðunni hljóti að ljúka eða að henni verði frestað í kvöld. Ef þeirra er að vænta þá get ég reynt að haga málflutningi mínum þannig að ég bíði með þær spurningar sem ég hafði hugsað mér að beina sérstaklega til þeirra.

(Forseti (GÁ): Forseti bað um örstuttan tíma undir umræðum um fundarstjórn forseta og ... )

Virðulegi forseti. Til að enginn misskilningur sé hér á ferðinni, þá er ég ekki að gera sérstakar athugasemdir um fundarstjórn forseta, það er ekki þannig.

(Forseti (GÁ): Forseti er að upplýsa að hann hefur ekki niðurstöðu í því máli sem hann var beðinn um að hugleiða. Hann bað um frest og biður nú hv. þm. um að hefja ræðu sína.)

Hér er einhver misskilningur á ferðinni, virðulegur forseti. Ég er ekki að gera athugasemdir um fundarstjórn forseta hér. Ég er eingöngu að leita upplýsinga um það hvort þess sé að vænta að fulltrúar stjórnarflokkanna, þeir sem flytja þetta mál inn á þing úr félmn., verði viðstaddir umræðuna. Það er spurning mín og ég bið forseta um svar við því.

(Forseti (GÁ): Forseti skal leita upplýsinga um það atriði.)

Vill forseti að ég fresti ræðu minni á meðan?

(Forseti (GÁ): Það verður að vera í valdi hv. þm.)

Ég óska eindregið eftir því að þar til að svör fást við því að þá fái ég til þess heimild að fresta ræðu minni.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hv. 1. þm. Reykn. og aðalforseti eru hér á fundi að skoða þau atriði sem komið hafa fram í umræðunni. Forseti biður um smátíma til þess að fá upplýsingar af því.)

Ég hef fullan skilning á aðstæðum hér í þinginu og öllum þeim mikilvægu fundahöldum sem eiga sér stað. Til að taka fyrir allan misskilning þá hef ég ekki óskað eftir því sérstaklega að þessir þingmenn, sem ég hef ekki nefnt hér á nafn, verði ræstir út. Það er ekki mín beiðni. Ég hef ekki beðið um að þessir þingmenn verði vaktir um miðja nótt til þess að koma til umræðunnar. Spurning mín var eingöngu um það hvort forsetadæmið hefði vitneskju um hvort þeirra væri að vænta, hvort þeir hefðu skroppið úr húsi af einhverjum orsökum. Eru þeir á leið hingað til fundarins eins og eðlilegt mætti teljast?

Ég sé og heyri að virðulegur forseti er upptekinn í öðru en vildi árétta það sem ég sagði. Það má ekki fara á milli mála að ég var ekki að biðja forseta um að vekja þessa hv. þm. (Gripið fram í.) Ég var ekki að biðja um það. Spurning mín var eingöngu hvort það kynni að vera þannig, sem auðvitað er sennilegasta skýringin, að þeir hafi skroppið úr húsi og séu í næstu húsum eða á leið til þessarar umræðu. Þess vegna bað ég um skjót svör við því. Ég tel eðlilegt að þeir séu á skrifstofum sínum, fylgist þar með umræðunni og séu rétt ókomnir. Af þeim sökum bauðst ég til að bíða með að hefja ræðu mína þannig að ég gæti beðið eina eða tvær mínútur uns þeir kæmu hingað til fundarins. Það var undir þeim formerkjum sem ég var með þessi tilmæli.

Er þetta misskilningur af minni hálfu?

(Forseti (GÁ): Forseta leiðist þetta þóf. Hér komu upp sex eða sjö þingmenn og ræddu um fundarstjórn forseta og hann bað um smáhlé. Síðan lauk þeirri umræðu og hv. þm. tók því að koma í ræðustól og hefja ræðu sína. Forseti biður hv. þm. að hefja ræðuna.)

Virðulegi forseti. Ég hélt ég þyrfti ekki að endurtaka mig. Ég er hér ekki að ræða um fundarstjórn forseta. Hann tók auðvitað gjörla eftir að ég var ekki þátttakandi í þeirri umræðu. Hér er ég að vekja máls á allt öðrum hlutum. Þeir lúta að viðveru hv. þingmanna, sérfræðinga stjórnarflokkanna í því máli sem hér er til umræðu. Mín spurning var eingöngu þessi: Hefur forseti upplýsingar um það hvort þess sé að vænta að umræddir hv. þm. séu á leið til fundar? Það hefur ekkert með fundarstjórn forseta að gera. Ég hef rætt það hér áður.

(Forseti (GÁ): Forseti hefur það ekki hér í höndunum hverjir eru í þessari nefnd og hefur ekki hugmynd um hvort ... )

Þá verð ég, fyrst að forseti hefur ekki þær upplýsingar, að lesa þau nöfn sem hér um ræðir. Í félmn. eru, samkvæmt þeim plöggum sem ég hef fengið á skrifstofu þingsins, eftirtaldir þingmenn: Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstfl., Rannveig Guðmundsdóttir, Alþfl., sem er hér á fundinum, Siv Friðleifsdóttir, Framsfl., sem ekki er á fundinum, Kristján Pálsson, Sjálfstfl., sem ekki er á fundinum, Ögmundur Jónasson, Alþb., sem er á fundinum, Pétur H. Blöndal, Sjálfstfl., sem var á fundinum en er ekki lengur, Magnús Stefánsson, Framsfl., sem er á fundinum, Kristín Ástgeirsdóttir, óháð, sem ekki er á fundinum og Arnbjörg Sveinsdóttir, Sjálfstfl., sem ekki er á fundinum.

Þá ætti það að liggja ljóst fyrir hvaða fólk hér um ræðir þó ég hafi af fremsta megni reynt að forðast að opinbera það sérstaklega eins ég hef nú gert. Það er alveg nauðsynlegt, án þess að ég ætli að fara í frekari stæla um þetta mál, að athugasemdir mínar eru engan veginn tengdar þeim umræðum sem hér áttu sér stað um stjórn fundarins áðan. Ég er eingöngu að velta því fyrir mér, sem er auðvitað stórpólitískt mál, ekki aðeins formlegt, þingtæknilegt og um stöðu þinghaldsins, heldur einnig um það hvort ég eigi tök á að eiga pólitískan orðastað við fulltrúa Sjálfstfl. í félagsmálunum, sérfræðinga stærsta þingflokksins í félmn. Það er spurning mín.

Ef svarið er nei, þá veit ég það. Ég hef ekki fengið svar við því. Og ég gaf mér það, og trúi því þar til ég fæ sönnur á annað, að þessir hv. þm. væru á næstu grösum. Ef þeir eru það ekki og eru sofandi heima, þá læt ég við svo búið standa. Ég hef auðvitað skilning á því að hv. þm. þurfi að hvíla sig þó að aðrir standi hér vaktina. Þá er það bara þannig.

En ég vildi gjarnan fá svör við því, það er mín einfalda spurning, hvort þess sé að vænta, án þess að ég óski þess að þeir verði ræstir, að þeir komi hingað til fundarins. Eru þeir á leið til fundarins?

Ég skal hins vegar gefa forseta einhverjar mínútur til að komast að því. Ég mun því hefja þessa almennu umræðu í trausti þess. Nú veit hæstv. forseti hverjir þetta eru og það auðveldar honum væntanlega að hafa upp á þeim.

Virðulegi forseti. Þetta mál er auðvitað stórpólitískt mál. Hér er ekki tæknileg útfærslu á því hvernig sveitarstjórnir í landinu eigi að starfa til næstu framtíðar. Hér er um pólitískt mál að ræða. Hér hafa menn, í þessum ræðustól og hringinn í kringum landið fyrr og síðar, rætt um hlutverk sveitarstjórna og samspil þeirra við ríkisvaldið. Menn hafa haft miklar hugmyndir um það hvernig þetta samspil gæti gengið fyrir sig. Sumir stjórnmálaflokkar hafa gengið svo langt að vilja brjóta upp það fyrirkomulag sem við búum við í dag og höfum að mestu leyti búið við um langt árabil. Ég á þá sérstaklega við stefnumörkun Framsfl. um þriðja stjórnsýslustigið. Framsfl. hefur að vísu ekki verið einróma í því máli en átt sér skoðanasystkini í öðrum flokkum.

[26:30]

Einstaka þingmenn Alþb. hafa léð máls á því að skynsamlegt væri að stefna að hinu þriðja stjórnsýslustigi, sem væri eins konar millistig milli sveitarstjórna og ríkisvalds. Þetta gengur hins vegar ekki eftir í frv. því sem við höfum fyrir framan okkur. Ég hef reynt að leggja við hlustir og fylgjast grannt með umræðunni um frv. en ég hef satt að segja ekki heyrt marga ræðumenn, ef nokkurn, ræða þennan stórpólitíska þátt málsins. Ég spyr ég hvort það sé algerlega liðin tíð til að Framsfl. hafi í frammi þetta sjónarmið. Það er eins og mig minni að Steingrímur Hermannsson, fyrrum forustumaður og foringi Framsfl., hafi stundum nefnt þetta til sögunnar. Það var ekki fyrir svo mörgum árum að það var talið munu gerbreyta stöðu og styrk dreifðari byggða í landinu að setja á þetta þriðja stjórnsýslustig. Þannig var talið að tryggja mætti stöðu hinna dreifðu byggða gagnvart ríkisvaldinu. Um þetta heyrist hvorki hósti né stuna lengur.

Í þessu samhengi, því að það er auðvitað nátengt því frv. sem við ræðum hér, velti ég því upp hvort þetta stefnumið Framsfl. hafi verið sett ofan í skúffu og tilheyri fortíðinni. Hafa hinir nýju foringjar Framsfl. gefist upp á þessu máli? Það væri kannski fróðlegt að hv. talsmaður félmn., hv. þm. Magnús Stefánsson, færi um það orðum, kannski í andsvari á eftir eða síðar meir í þessari umræðu sem á talsvert í land með að ljúka.

Af því að ég er að gera að umtalsefni hv. þingmenn og sérfræðinga hér í málefnum sveitarfélaga, ég nefndi þá sérstaklega til sögunnar fulltrúa í félmn., þá er ekki einhlítt að í þeirri nefnd séu aðeins sérfræðingar sem vita eitthvað um málefni sveitarfélaga. Mér telst til að það séu eigi færri en tuttugu og tveir eða þrír þingmenn hv. sem hafa setið í sveitarstjórnum um lengri eða skemmri tíma. Sumir þeirra sitja raunar enn í sveitastjórn, a.m.k. tveir sem ég man eftir, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Kannski eru þeir fleiri. Þess vegna sakna ég þess dálítið í umræðunni að menn leggi sitt pólitíska lóð á þessar vogaskálar og ræði það frv. sem hér um ræðir undir pólitískum formerkjum og spyrji sig: Hvað þýðir það í raun og sann þegar menn stíga á stokk og ræða um aukið sjálfsforræði sveitarfélaga? Hvað þýðir það þegar ríkisstjórnir, sem koma og fara, lýsa því yfir að færa beri verkefni frá miðstýrðu ríkisvaldi yfir til sveitarstjórna á landinu? Fylgir þar hugur máli eða er þetta almennt snakk og hjal á hátíðarstundum? Enginn sem ég man eftir reynt að festa hendur á þessari pólitísku spurningu.

En ef maður skyldi reyna að leita svara í því frv. sem hér er á boð borið, þá er svarið ákaflega skýrt og augljóst. Það er enginn metnaður til þess að styrkja sjálfstæði sveitarfélaga. Þvert á móti er sú þróun, þrátt fyrir tal og aðgerðir í þá veru að flytja vald og verkefni frá ríki til sveitarfélaga, stöðvuð í frv. eða með öðrum orðum, henni er snúið við. Þetta frv. er auðvitað því marki brennt að sveitarstjórnarmenn og sveitarfélög í landinu mega tæplega skipta um skoðun eða yfirleitt hafa skoðun án þess að leita til æðsta valdsins, félmrn. eða úrskurðarnefndir, til þessa eða hins um leyfi fyrir hitt og þetta.

Þetta finnst mér vond þróun. Þessi þróun gengur þvert á það sem langflestir hv. þm. og allir stjórnmálaflokkar hafa hamrað á hér árum og áratugum saman, því að flytja vald og verkefni frá miðstýrðu ríkisvaldi til sveitarfélaga.

Aðgerðir og tal í þá veru eru hins vegar tóm sýndarmennska þegar hið háa Alþingi og framkvæmdarvaldið, ríkisstjórn, ætla á sama tíma að þrengja svigrúm sveitarfélaganna til að ráða málum sínum sjálf. Það er innihald og kjarni þessa máls sem við erum að ræða hér. Það er innihald þessa frv. til sveitarstjórnarlaga. Því er nú verr og miður. Hafi stjórnarþingmenn ekki áttað sig á því, þá er nú kominn tími til að þeir geri það. Eða eru þeir einfaldlega sammála því og hafa þeir þá skipt um skoðun?

Það er kannski ekkert vit í því, að mati Sjálfstfl. og Framsfl., að færa vald frá miðstýrðu ríkisvaldi út í hérað. Það á ekki að gera það, aðeins að tala um það. Þegar verkefnin eru flutt frá miðstýrðu ríkisvaldi út í hérað þá ætlar ríkissjóður, framkvæmdarvaldið, ráðuneytin og stofnanir ríkisins, hver af annarri, að ráðskast með og ráða hvernig þeirra þjónustu verður háttað.

Af því ég er hér í tölfræði um þingmenn þá held ég að þeir séu um 12 talsins, þingmenn stjórnaflokkanna sem hafa setið í sveitarstjórnum. Ég er undrandi á því hve fáir þeirra hafa vikið einu aukateknu orði að þessum málum. Hafa þeir engan áhuga á því hvað þetta frv. er að segja okkur og hvað skilaboð þetta frv. flytur byggðum landsins, ekki bara til sveitarstjórnanna, ekki bara til kjörinna bæjarfulltrúa hringinn í kringum landið heldur til fólksins, kjósendanna í þessum byggðum? Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, og mikilvægt í mínum augum að menn átti sig á því og glöggvi sig kirfilega á því hvert við stefnum í þessum málaflokki.

Hér er ekki eingöngu um að ræða tæknilega útfærslu á því hvernig fundahaldi eigi að haga í sveitarstjórnum, hvenær og hvernig eigi að kjósa oddvita og ráða framkvæmdastjóra. Það er að sönnu ákaflega mikilvægt í þessu viðamikla frv. Það má segja að séu svona tæknilegar útfærslur sem menn geta rætt og reifað og komist að niðurstöðu um í nefndum þingsins og hugsanlega í góðum anda í almennum umræðum í þinginu en það hefur ekkert með pólitík að gera. Ég sakna þess enn þá, virðulegi forseti.

Það var kannski af þeim sökum, en ekki af neinum stráksskap, sem ég nefndi það sérstaklega að ég saknaði sérfræðinga stjórnarflokkanna í þessum málefnum. Það er að segja: Hver er stefnan í raun og sanni? Hvað vill Sjálfstfl. sem hefur a.m.k. fram undir það síðasta talað mjög í þá veru að dreifa eigi valdi. Það hefur Sjálfstfl. m.a. sýnt með því að selja öll þau ríkisfyrirtæki sem skila peningum. Þeir breyta þeim fyrst í hlutafélög og selja þau síðan til einkaaðila. Það hefur Sjálfstfl. stundum í góðu samstarfi, m.a. í síðustu ríkisstjórn við Alþfl., gert með því að flytja verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga. Þá er þess skemmst að minnast er grunnskólarnir voru fluttir yfir til sveitarfélaganna. Það var auðvitað stórt skref í þessa átt og ég var mikill fylgismaður þess. Ég trúi því og veit raunar að það mun leiða til betri skóla og betri þjónustu við nemendur, kennara og annað starfsfólk skólanna.

Þessi atriði eru ekki nefnd. Hæstv. félmrh. ræddi þetta lítið sem ekkert í framsöguræðu sinni hér við 1. umr. málsins. Hann fór hins vegar inn á hinar tæknilegu forsendur þessa frv. Því að þetta frv. hefði yfirleitt einhver pólitísk skilaboð eða væri í þá veruna var ekki að heilsa þá. Hæstv. félmrh., sem flytur þetta mál inn í þingið, hafði engin slík skilaboð. Þaðan af síður hef ég heyrt þau frá talsmönnum stjórnarflokkanna, séfræðingum þeirra í félmn., því að þeir hafa ekki allir lagt orð í belg. Þó að um það bil 15 hafi þegar talað við þessa umræðu þá eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar, sem rætt hafa um þessi mál af hálfu stjórnarflokkanna. Þetta er auðvitað verulegt áhyggjuefni. Auðvitað er ekki nýtt í þinginu, og sérstaklega í tíð þessarar ríkisstjórnar, að menn forðist það eins og heitan eldinn að ræða hér pólitík og telji hið háa Alþingi meira og minna einhvers konar tæknilega útfærslustofnun á þeim pappírum sem frá ráðuneytunum koma og þingnefndirnar séu fyrst og síðast að lagfæra vitleysur sem gerðar eru í ráðuneytunum með hjálp frá ýmsum góðum umsagnaraðilum. Þetta er mikill misskilningur. Þetta er ekkert nema hluti af því starfi sem hér þarf að fara fram. Hér þarf auðvitað hina pólitísku umræðu um mál.

Það er orðið býsna sláandi, í hverju stórmálinu á fætur öðru, hvernig stjórnarþingmenn þegja þunnu hljóði. Ég var til að mynda að ræða hér stórmál um daginn. Það laut að loftferðum. Í fljótu bragði finnst kannski engum það neitt sérlega spennandi mál. Það gengur út á lagasmíð, að mörgu leyti dálítið tæknilega, um það hvernig eftirlitsþáttum skuli háttað með loftförum hér á Íslandi, flugvallagerð og skipan flugráðs og fleiru. Í því máli var til að mynda stórpólitísk grein sem laut að framsali valds til samgrh. Samkvæmt henni mátti hann selja allt laust og fast eftir því sem hann vildi eða hvað sem seljanlegt væri í flugrekstri hérlendis undir stjórn ríkis og Flugmálastjórn. Í stjórnarliðinu var enginn sem reyndi að ræða þau mál út frá pólitískum forsendum. Samgrh. reyndi það auðvitað ekki neitt. Það að særa stjórnarþingmann upp um þetta stórpólitíska mál var árangurslaust. Sérstaklega kallaði ég þá eftir viðhorfum Framsfl. til þessara mála því að Sjálfstfl. er þó að þessu leyti stefnu sinni trúr að hann vilja einkavæða blint, það er bara trúaratriði hjá honum. Framsfl. hefur a.m.k. fram undir það síðasta reynt að stemma þar við stigu og haft ýmsar efasemdir um ágæti þess og a.m.k. viljað, eins og við alþýðuflokksmenn, meta í hvert skipti hvort skynsamlegt væri.

Í þessum efnum var það algjörlega vonlaust mál. Sem betur fer er þeirri umræðu ekki lokið, 3. umr. um loftferðir, þannig að enn þá er von til þess að Framsfl. lýsi sjónarmiðum til þeirrar einkavæðingar. Ég ætla út af fyrir sig ekki að staldra við það mál. Nóg er efnið í því frv. sem hér um ræðir.

Ég sagðist hafa af því áhyggjur að það vantaði metnaðinn í þetta frv. og að menn hefðu ekki sett fram neina pólitíska framtíðarsýn þegar það var samið. Ég vil minna á, virðulegi forseti, í þessu samhengi að 1994 var breytt ákvæðum stjórnskipunarlaga, stjórnarskrárinnar. Nú hljóðar 78. gr. stjórnarskrárinnar þannig, sú grein lýtur að hlutverki sveitarfélaga, þannig, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.``

Í eldri stjórnskipunarlögum fyrir 1994, í 76. gr., sem þá hét, hljóðaði þessi texti svona:

,,Rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálft málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipað með lögum.``

[26:45]

Ég sat í nefndinni sem vann að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég man það sérstaklega að þegar að þessu ákvæði kom, þá lagði ég talsvert til málanna. Ég skal fúslega upplýsa, virðulegi forseti, að það var engin tilviljun að þetta lykilorð, sem var í gömlu stjórnarskránni, að sveitarfélögin skuli ráða sjálf málefnum sínum með ,,umsjón`` stjórnarinnar er ekki lengur í þeirri stjórnarskrá sem við búum við í dag. Með öðrum orðum er hvergi í þessu ákvæði stjórnarskrárinnar að finna það sem var í hinu gamla ákvæði, að framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin, hefði stjórnarskrárskipaðan rétt til þess að hafa umsjón með sveitarfélögum. Í stjórnarskránni er eingöngu kveðið á að málefnum sveitarfélaganna skuli skipað með lögum. Að öðru leyti skulu þau ráða sínum málum sjálf.

Þetta er algjört grundvallaratriði, virðulegi forseti, og nauðsynlegt að halda til haga í ljósi þess sem ég sagði áðan. Þetta frv. til sveitarstjórnarlaga, sem við erum að ræða við 2. umr., gengur í þveröfuga átt. Tilhneigingin er í þá átt að stjórnin, ríkisstjórnin, og ráðuneytin hafi, nánast daglega, umsýslu og umsjón með málefnum sveitarfélaga. Það er ekki í anda stjórnarskrárinnar og þeirrar stjórnarskrárbreytingar sem gerð var 1994. Þetta er algjört lykilatriði og ég mótmæli því harðlega að ráðuneytið, höfundar þessa frv., hafi ekki strax í upphafi þeirrar vinnu glöggvað sig á þeirri breytingu sem þarna átti sér stað. Þarna er mikill misskilningur á ferðinni.

Ég vil undirstrika þetta grundvallaratriði málsins mjög ákveðið og nefna það að hér eru ákveðin atriði sem ganga beinlínis í þá átt að auka vald og afskipti ráðuneyta af málefnum sveitarfélaga, jafnvel í daglegum málefnum sveitarfélaga, fremur en að þróunin gangi í hina áttina. Ég hafði trúað að flestir stefndu að því, m.a. með hliðsjón af þessum stjórnarskrárbreytingum og einnig af margítrekuðum og endurteknum yfirlýsingum núv. ríkisstjórnar, síðustu ríkisstjórnar og gott ef ekki var ríkisstjórnarinnar 1988--1991. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál.

Virðulegi forseti. Þau lög sem hér er verið að breyta eru frá 1986. Margir gætu haldið að það nýleg lög, tólf ára gömul, hefðu staðist býsna vel tímans tönn og af þeim ástæðum væri varla tilefni til þess að gera stórpólitískar breytingar á þeirri lagaumgjörð sem sveitarfélögin hafa búið við, þetta tólf ára skeið. Í umsögn Reykjavíkurborgar, sem skilar langítarlegustu umsögn allra sveitarfélaga um þetta frv., er einkunnin sú að þær breytingar sem gerðar séu á núgildandi lögum séu svo lítilvægar að það taki því ekki að telja þær upp. Þarna er borgarlögmaður að gefa skýrslu til borgarráðs. Það segir auðvitað meira en mörg orð um hve innihaldslítið þetta frv. í raun og veru er.

Virðulegi forseti. Nú mér finnst ég tala dálítið út í vindinn vegna fámennis á þessum fundi. Ég á þess sem betur fer kost að ræða málið betur í seinni ræðu minni og bind vonir við að einhverjir stjórnarliðar muni þá leggja við hlustir. Hér er vissulega mjög mikilvægt mál á ferðinni. Í von um að ég hitti síðar á hlustandi eyru í hópi stjórnarliða ætla ég að ljúka þessari ræðu minni.