Tillaga um dagskrá næsta fundar

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 10:43:01 (6010)

1998-04-30 10:43:01# 122. lþ. 115.91 fundur 331#B tillaga um dagskrá næsta fundar#, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[10:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér virðast vera í þann veginn að gerast alveg fáheyrð tíðindi. Rétt er að vekja athygli á því að um er að ræða stjfrv. og hluta af samkomulagi sem gert var í þingnefndum um afgreiðslu á mikilvægu máli. Fróðir menn telja að það hafi gerst síðast og kannski í eina skiptið áður árið 1959 að gripið hafi verið til þess ráðs að bera upp tillögu um breytingu á dagskrá með þessum hætti.

Enginn veit þess nokkur fordæmi að stjfrv. og flm. stjfrv. eins og hæstv. umhvrh. greiði atkvæði gegn því að mál sem hann leggur fyrir Alþingi fái að hefja vegferð sína í þinginu, enda er það svo órökrétt og óefnislegt sem nokkuð getur verið. Hér hljóta að vera einhver þvílík undirmál á ferðinni að fáu er til að jafna.

Auk þess, herra forseti, er auðvitað verið að rjúfa samkomulag og það er mjög alvarlegt ef þingmenn geta ekki treyst því að hlutir sem gengið er frá í þingnefndum og settir eru í nefndarálit haldi og þeir séu sviknir með þessum hætti sem hér á að fara að gera.

Það er líka mjög alvarlegt, herra forseti, í ljósi mikilvægis þessa máls og þeirra mála sem hér eru á ferðinni að málið skuli ekki fá að koma fyrir þingið, fara út til umsagnar þó ekki væri meira þannig að það fái umfjöllun í sumar o.s.frv.

Að síðustu, hæstv. forseti, sem ég veit að hæstv. forseta sem reyndum manni er fullljóst, mun þessi atburður ef svo heldur sem horfir verða til að stórspilla enn því andrúmslofti sem er í þinghaldinu á þessum dögum og var þó ekki á bætandi. Ég segi já.