Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 10:55:00 (6017)

1998-04-30 10:55:00# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[10:55]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að vekja athygli á þeim tíðindum sem hér hafa orðið. Meiri hluti Alþingis hefur í nafnakalli ákveðið að neita að taka fyrir sitt eigið þingmál. Flutningsmenn málsins, hæstv. umhvrh., hafa neitað að taka málið fyrir þannig að greinilegt er að ekki er lýðræðislegur vilji til þess að málið verði rætt.

Af hverju er málið svona viðkvæmt, hæstv. forseti og hæstv. félmrh.? Hvað hafa þeir að skammast sín fyrir? Hvað er að? Hvernig stendur á þessu? Eru nokkur dæmi þess að menn hafi hagað sér svona? Hvaða járnkló er að læsa sig hér í þingræðið? Hver er það sem ber ábyrgð á því í raun og veru að koma í veg fyrir að þingræðisleg umræða eigi sér stað?

Í tilefni af þessum einstöku vinnubrögðum meiri hlutans munum við þingmenn Alþb. og óháðra leggja fram í sveitarstjórnarlagafrv. eftirfarandi tillögu um rökstudda dagskrá:

,,Þingflokkur Alþb. og óháðra harmar þá niðurstöðu meiri hluta Alþingis að neita að taka til umræðu frv. frá ríkisstjórninni sjálfri um breytingu á skipulags- og byggingarlögum þar sem reynt er að leita sátta í viðkvæmu deilumáli. Þar með er ljóst að ríkisstjórnin vill ekki ná neinni almennri sátt um skipulagsmál hálendisins. Jafnframt er ljóst að litlu breytir hvort frv. til sveitarstjórnarlaga nær fram að ganga á þessu vori eða bíður næsta vetrar. Með hliðsjón af þessu leggur þingflokkur Alþb. og óháðra til að Alþingi samþykki að frv. ríkisstjórnarinnar til sveitarstjórnarlaga verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.``

Samkvæmt þingsköpum, sem eru ólík venjulegum fundarsköpum, er það þannig að tillaga af þessu tagi kemur ekki til atkvæða fyrr en við lok umræðunnar. Mér segir svo hugur, herra forseti, án þess að ég segi neitt fleira á þessu stigi málsins, að umræðunni um sveitarstjórnarlögin sé ekki lokið.