Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:04:01 (6022)

1998-04-30 11:04:01# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að endurtaka það að hér hafa gerst fáheyrð tíðindi og í raun og veru ótrúlegir hlutir. Þegar leitað er einhverra skýringa á því hvað ráðið geti þessari afstöðu meiri hlutans, þá er það auðvitað þannig, og ég er sammála hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur um það, að þar getur ekkert annað komið til en óhreinindi, undirmál og blekkingaleikur. Það er augljóst mál að framlagning þessa frv. af hálfu hæstv. umhvrh. var sýndarmennskan helber og ein.

Það verður leiðinlegt að þurfa að spyrja þann mæta dreng, hæstv. umhvrh., hér eftir í hvert einasta sinn sem hæstv. ráðherra leggur fram frv., hversu oft sem það á eftir að gerast, hvort hæstv. ráðherra vilji að málið komi á dagskrá, hvort hæstv. ráðherra sé jafnvel á móti því að frv. verði rætt o.s.frv.

Þá tek ég undir það, herra forseti, að nýkjörinn formaður þingflokks Sjálfstfl. byrjaði störf sín ekki gæfulega með slettugangi af þessu tagi í garð stjórnarandstöðunnar. Með því að gera það var verið að afvegaleiða málið og draga athyglina frá kjarna málsins, sem er sá, að hér er á ferðinni stjfrv. og meira en það. Þetta frv. eða þessi nálgun efnislega er hluti af samkomulagi sem gert var í þingnefnd og tengist afgreiðslu mála í þinginu.

Herra forseti. Mér sýnist það alveg augljóst mál að allur þessi málapakki hæstv. ríkisstjórnar er nú í uppnámi og það bíður ekkert annað þessara frumvarpa en að fresta þeim til haustsins. Ég tel að hæstv. forseti gerði rétt í því að fresta frekari umfjöllun um þau og setjast niður með formönnum þingflokka til að endurskipuleggja þinghaldið á síðustu dögunum miðað við það að þessi frumvörp verði lögð til hliðar. Það er tilgangslaust, að mínu mati, að halda því áfram í ljósi stöðunnar sem upp er komin að þrælast á þessu máli.