Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:05:01 (6023)

1998-04-30 11:05:01# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:05]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það hefur komið hér upp nýtt hugtak varðandi þingsköp sem er ekki til í þingsköpunum en virðist vera til í þingsköpum stjórnarflokkanna og það væri fróðlegt að vita hvort þingflokksformennirnir mundu vera svo vinsamlegir að dreifa þessum sérstöku þingsköpum sem þeir eru með. Í þeim þingsköpum stendur að stjórnarfrumvörp séu flutt til kynningar. Það stendur hvergi í þeim þingsköpum sem við hin hér kunnum.

Auðvitað er ekkert til sem heitir að stjórnarfrumvörp séu flutt til kynningar. (Samgrh.: Það er altítt og hefur gerst á hverju einasta þingi.) Það veit hæstv. samgrh. ekkert um og getur komið í ræðustólinn á eftir ef hann þorir að koma í ræðustólinn. (Gripið fram í.) Hann veit ekkert um það. Hvar stendur það í þingsköpunum, hæstv. samgrh.? (Samgrh.: Það er nú sumt leyft sem ekki er bannað.) Í hvaða grein? ,,Það er nú sumt leyft sem ekki er bannað``, sagði hæstv. samgrh. Við þekkjum hans embættisfærslu.

Veruleikinn er sem sagt þessi að verið er að reyna að telja fólki trú um að þingsköpin séu allt öðruvísi en þau eru. En það er ekki þannig. Það er ekki til neitt sem heitir --- til kynningar.

Í öðru lagi er greinilegt að það frv. sem hefur verið neitað að taka á dagskrá vakti í málinu sem samkomulagsmöguleiki en forusta stjórnarþingflokkanna hefur brugðist þeim skyldum sínum að stuðla að góðri samstöðu með stjórnarandstöðunni í málum af þessu tagi. Og ég harma það um leið og ég óska hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur til hamingju með að vera formaður þingflokks Sjálfstfl. að hennar fyrsta ganga skuli hafa verið svo ill að snúa út úr athugasemdum okkar í þessu máli með því að segja að það sé skrýtið að stjórnarandstaðan skuli vilja koma stjfrv. hér inn og reynir að breyta þessu máli í fliss, máli sem er alvara. Veruleikinn er sá að þetta mál var hluti af sveitarstjórnarlögunum og veruleikinn er þá líka sá, herra forseti, að úr því að þetta hefur verið fellt, þá munum við tryggja það með öðrum hætti að málið verði rætt annars staðar. Við kunnum margar leiðir í þeim efnum, herra forseti, og höfum verulega þjálfun þannig að ég tel að það sé nauðsynlegt að það komi fram að við munum ræða þessi mál.

Við alþýðubandalagsmenn og óháðir höfum flutt tillögu um rökstudda dagskrá. Verði henni hafnað munum við meta afstöðu okkar til einstakra greina og málsins í heild eftir því sem aðstæður leyfa á þeim tíma.