Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:16:41 (6028)

1998-04-30 11:16:41# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:16]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Að gefnu tilefni var það svo að bæði sá sem hér stendur og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir héldu því sjónarmiði mjög eindregið fram í umræðu innan félmn. að miðhálendið yrði ein stjórnsýslueining. Það gengur hins vegar þvert á 1. gr. frv. sem gerir ráð fyrir að öllu landinu verði skipt í stjórnsýslueiningar á milli sveitarfélaga.

Við vorum reiðubúin að gera þá málamiðlun á þeirri forsendu að sú breyting yrði gerð á skipulagslögum að trygging fengist fyrir því að miðhálendið yrði ein skipulagseining.

Nú kemur fram í máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að þetta sé smámál. Forsendu þeirrar málamiðlunar sem við gerðum og þeim fyrirheitum sem við töldum að lægju í því að kynna okkur stjfrv. þannig að við sáum okkur fært að skrifa undir frv. með þeim fyrirvara að samhliða yrðu gerðar, er lýst sem smámáli. (VS: Nei. Það er ekki rétt hjá þér.)

Ég ítreka, hæstv. forseti, að hér hafa sprottið upp umræður sem er engan veginn lokið því að ljóst er að fyrir þinginu liggur ekki aðeins umræða um sveitarstjórnarmál heldur líka um siðferði.