Ósk um viðveru ráðherra

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:21:06 (6031)

1998-04-30 11:21:06# 122. lþ. 115.95 fundur 336#B ósk um viðveru ráðherra# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:21]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, hreyfði þeirri hugmynd áðan og í ljósi þeirrar niðurstöðu sem hér varð og þess að fullkominn ófriður er um störf þingsins, meiri hlutinn hefur sagt í sundur friðinn í þessari stofnun, í ljósi þess teldi ég skynsamlegt eins og hv. þm. benti á að efnt yrði til fundar strax til að endurskipuleggja þingstörfin vegna þess að það er meiningarlaust að halda áfram umræðunni með þeim hætti sem ella á sér stað.

Ég hvet forseta til þess í allri vinsemd að efna til slíks fundar þannig að önnur mál verði tekin á dagskrá til meðferðar en þau hörðu átakamál sem eru bersýnilega uppi ella. Hafni forseti þeirri ósk minni þá verður það auðvitað að hafa sinn gang og þá munu menn ræða sveitarstjórnarlög fram eftir degi. Fari svo þá tek ég undir þá ósk hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að auk hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh. verði hæstv. forsrh. kvaddur til vegna þess að hann er mjög mikilvægur aðili málsins af því að þau undur hafa gerst að fjöldi þingmanna taldi að verið væri að gera pólitískt samkomulag, fjöldi þingmanna taldi að málið lægi þannig að því væri hægt að treysta og ég segi: Á þingferli mínum hefur það aldrei gerst að jafnstór hópur þingmanna hafi staðið upp og sagt: ,,Samkomulag sem gert var við okkur hefur verið svikið.`` Ég skora á forseta sem gæslumann þingsins alls, líka hagsmuna og viðhorfa stjórnarandstöðunnar, að fresta fundinum tafarlaust og endurskipuleggja þinghaldið því að það er rugl að reyna að halda málunum áfram með þeim hætti sem ríkisstjórnin mundi ella reyna að gera í hroka sínum.