Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:58:13 (6050)

1998-04-30 11:58:13# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:58]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu hv. þm. kom fram að hann er ekki trúaður á að þessi litlu sveitarfélög geti leyst þessi mál af eigin rammleik nema þá í samstarfi við aðra og það er auðvitað mergurinn málsins. Slíkt samstarf getur að sjálfsögðu verið mjög erfitt á t.d. stöðum þar sem svo háttar til að mannvirki rís á landi margra sveitarfélaga en það er aðeins eitt sveitarfélagið sem hefur allar tekjurnar. Þá gæti verið erfitt fyrir hin sveitarfélögin að semja um sameiginleg verkefni við það sveitarfélag sem eitt hefur tekjurnar.

Mig langar í lokin til að spyrja hv. þm. hvort hann sé sammála því viðhorfi hv. þm. Árna Mathiesens, umhverfisráðherraefni Sjálfstfl., að þarflaust sé að afgreiða það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur lagt fram til kynningar á Alþingi en neitað að mæla fyrir.