Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 13:51:45 (6058)

1998-04-30 13:51:45# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[13:51]

Össur Skarphéðinsson (frh.):

Herra forseti. Ég held þá áfram ræðu minni þar sem frá var horfið. Ég hafði farið í ítarlegu máli yfir það frv. til sveitarstjórnarlaga sem liggur fyrir og einkum og sér í lagi gert að umræðuefni þau ákvæði frv. sem lúta að fjármálum sveitarfélaganna sem ég tel að séu í mun betra horfi að því frv. samþykktu.

Það fer hins vegar ekki hjá því, herra forseti, að það sem hefur legið undir þessari umræðu er sá draugur sem vakinn var upp af hæstv. umhvrh. með því frv. sem hann dreifði í skyndingu í fyrradag og var eins og kastað væri sprengju inn í þingsal. Ég ætla hvorki að reifa frekar þann málabúnað og þann langa slóða sem það mál hefur dregið á eftir sér né þann skugga sem það hefur kastað yfir þessa umræðu.

Hins vegar er óhjákvæmilegt í framhaldi af því að allir stjórnarliðar sem tekið hafa til máls í umræðunni hafa gert það að umræðuefni að nefna að nánast allir hafa þeir lýst því að nauðsynlegt sé að breyta því á einhvern hátt. Það hefur hins vegar orðið til þess, ásamt yfirlýsingum einstakra þingmanna og hæstv. félmrh., að ógleymdri yfirlýsingu hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, formanns þingflokks sjálfstæðismanna, að sá hluti stjórnarandstöðunnar sem taldi sig hafa gert einhvers konar samkomulag við stjórnarliða um málið hefur lýst því yfir að sá grundvöllur sem undir því var sé brostinn. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt, herra forseti, að reifa lítillega þetta frv. sem hér hefur verið dreift jafnvel þó svo undarlega horfi við að hæstv. umhvrh. skirrist við að ræða frv. hér á þingi. Hann að vísu skaut sér inn í umræðu með lítinn ræðustúf þar sem hann reifaði helsta efni frv. En frv. var að öðru leyti engin skil gerð. Hv. þingmenn hafa tæpast haft tóm til þess að kynna sér það. Þess vegna held ég, sökum þess mikilvægis í umræðunni sem fylgir því frv., að nauðsynlegt sé að reifa það lítillega.

Þetta frv. er í beinu framhaldi af 1. gr. þess frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér liggur fyrir og bráðabirgðaákvæði sem fylgir sama frv. Það gerir sem sagt ráð fyrir því að miðhálendinu verði skipt upp í hrepparenninga, upp í tertusneiðar eins og sumir hafa kallað það, þar sem sveitarfélögunum verður falin stjórnsýsla yfir miðhálendinu. Það þýðir, herra forseti, að hægt er að benda á hluta á miðhálendinu sem munu að öllum líkindum falla undir umsjón 14 sveitarfélaga. Einn lítill blettur í Kverkfjöllum er líklegur til þess að falla undir stjórnsýslu 14 sveitarfélaga. Þetta er auðvitað úr öllu lagi, herra forseti.

Megingagnrýnin sem að þessu hefur beinst er auðvitað sú að miðhálendið er eign allra. Svo er. Miðhálendið hefur til skamms tíma sögulega séð ekki verið nýtt af neinum. Það hefur ekki vettvangur neinnar umferðar. Þegar Guðbrandur Þorláksson til að mynda teiknaði sitt fyrsta Íslandskort, þá var ekki eitt einasta örnefni og enga þjóðleið yfir miðhálendið að finna á því korti. Þegar langafabarn hans, Þórður Þorláksson biskup sem lést 1696 eftir að hafa unnið gríðarlegt þrekvirki á sviði landakortagerðar, gerði sín þrjú landabréf sem hann að lokum gaf sínum arfakóngi Kristjáni V., þá er einungis eitt örnefni sem tengist miðhálendinu þar að finna og það var Sprengisandur. Hvers vegna? Vegna þess að hindurvitni og hjátrú gerðu það að verkum að jafnvel þeir ferðamenn sem fóru þingleiðir og þjóðleiðir milli landshluta þorðu ekki af ótta við tröll og útilegumenn að hvarfla frá þessum þjóðleiðum. Miðhálendið var því órannsakað.

Bændur nýttu það auðvitað að hluta til til afréttar og beitar. Fyrir liggja margir dómar sem sýna að sá afmarkaði nytjaréttur sem í því felst felur engan eignarrétt í sér, engan. Miðhálendið var því lokað svæði fram á þessa öld. Þeir sem opnuðu það voru ferðamenn af þéttbýlissvæðunum. Það voru þeir sem gerðu það. Það voru þeir sem leiddu fram þessar ósnortnu náttúruperlur sem þá voru þar og eru góðu heilli margar enn. Það voru erlendir menn sem höfðu að vísu bólfestu á Íslandi eins og Daniel Bruun liðsforingi sem fyrstir fóru þarna um og tóku myndir og komu þessari fegurð á framfæri við þjóðina.

Þjóðin hefur í vaxandi mæli sótt þangað til útivistar. Hún hefur í vaxandi mæli upplifað þessa mannlausu auðn sem sína eign. Vitaskuld er þetta eign þjóðarinnar. Það er alveg ljóst að á næstu árum mun umferð ferðamanna, innlendra sem erlendra, stóraukast inn á þetta svæði. Þess vegna er nauðsynlegt, herra forseti, að koma höndum yfir skipulagsþáttinn. Um það eru allir sammála. Enginn mælir á móti því.

Ef menn horfa svolítið lengra fram í tímann þá er líka nauðsynlegt að ná höndum yfir löggæsluna. Hv. þm. Pétur H. Blöndal gat þess í löngu máli í gær að fyrir 35 árum hefði varla nokkur einasti maður farið inn á miðhálendið, stöku rúta sést þar á fallegum sumardögum. Nú er þetta orðið umferðarsvæði. Jafnvel núna þegar vetri er að halla gerist það að hundruð stórra jeppa fara inn á miðhálendið á sunnudögum. Það er ekki langt síðan að við hv. þm. Guðni Ágústsson og hæstv. menntmrh. vorum saman á fundi Þingvallanefndar á Þingvöllum og okkur var tjáð að þá hefðu um það bil 150 stórir fjórhjólajeppar farið inn á miðhálendið.

Ég kannast líka við það, herra forseti, frá því að ég var umhvrh. að til mín bárust kvartanir sökum þess að ekkert skipulag var á löggæslu og umferð á miðhálendinu og á þeim svæðum sem hæstv. félmrh. hefur haldið fram að séu eini partur landsins sem ekki fellur í dag að gildandi lögum undir sveitarfélögin, þ.e. jöklunum. Þess vegna er nauðsynlegt ekki bara að koma höndum yfir skipulagsþáttinn heldur líka yfir löggæsluna. Hins vegar er ekki tekið á því í þessu frv. Þar er einungis skipulagsþátturinn tekinn. Það er þess vegna sem við jafnaðarmenn leggjum til að sérstök nefnd fari með stjórnsýsluna alla á miðhálendinu.

Látum það vera, herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til kynningar frá hæstv. umhvrh. sem hefur verið dreift og hefur verið uppspretta allra þeirra deilna sem hér hafa staðið yfir á þriðja dægur. Þar kemur fram að umhvrh. ætlar að skipa samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn að loknum næstu sveitarstjórnarkosningum. Þessi samvinnunefnd á að fjalla um svæðisskipulag miðhálendisins.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir barði sér á brjóst í ræðum fyrir tveimur dögum og sagði: ,,Þetta er sigur fyrir mig. Ég náði þessu fram.`` Fram kom í umræðum af hennar hálfu að hún skildi ekki þetta frv. Hún hélt til að mynda að byggingarþátturinn væri líka tekinn undir samvinnunefndina með þessum hætti. Því fer auðvitað víðs fjarri, herra forseti.

Það sem stingur í augu er að þessi samvinnunefnd stendur frammi fyrir gerðum hlut. Hvaða vald hefur hún, herra forseti? Vald hennar er það eitt, eins og segir í 2. gr., að Skipulagsstofnun skal leita álits samvinnunefndarinnar á þeirri tillögu sem liggur fyrir í dag frá hinni gömlu nefnd. Hún á að leita álits. Hvaða vald hefur þessi samvinnunefnd? Hún hefur ekkert vald. Hún hefur það vald eitt að koma með viðhorf sín. Það er ekkert sem segir að umhvrh. þurfi að taka tillit til þess. Hvergi kemur fram í greinargerðinni að hann muni gera það og það sem verst er er að í máli hans kom ekki heldur fram að hann mundi gera það.

[14:00]

Hér liggur beinlínis fyrir enn frekar í gadda slegið að sáttargjörðin sem fólst í frv. virðist m.a. hafa verið gerð til þess að blekkja hluta stjórnarandstöðunnar, eins og þingmenn Alþb., með því að telja þeim trú um að þarna væri komin upp sérstök samvinnunefnd sem ætti að fara með þetta skipulag. Svo er einfaldlega ekki. Hún hefur umsagnarrétt. Það er allt og sumt.

Fyrir að utan að vera alfarið á móti þessari tilhögun geri ég auðvitað mjög stríðar athugasemdir við það verksvið sem þessi samvinnunefnd fær. Hér virðist einvörðungu um það að ræða að þetta er ákveðin útfærsla á 12. gr. gildandi skipulags- og byggingarlaga, sem við samþykktum 28. maí í fyrra, og einungis er verið að taka á svæðisskipulagi. Ég tel nauðsynlegt að svona nefnd, ef hún á að verða barn í brók, fái að koma mjög alvarlega inn í aðalskipulagið líka, aðalskipulagið sem verður áfram á höndum sveitarfélaga. Annað er óhjákvæmilegt þrátt fyrir það sem segir hér í 2. málsl. 4. mgr., að stefnan sem kemur fram í svæðisskipulagi miðhálendisins skuli færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélags og staðfest sem slík.

Það má auðvitað segja sem svo, herra forseti, að umhvrh. hefði að þessu samþykktu ákveðið vald til þess að hafna staðfestingu á aðalskipulagi sem honum þætti ekki gera það. Ég tel hins vegar að það sé allsendis ófullnægjandi að ekki sé kveðið skýrar á um það mál. Ég bendi á að hæstv. umhvrh. lyppaðist niður eins og --- ja, við skulum ekki hafa nein orð um það --- en hann lyppaðist niður og staðfesti einmitt nýlegt aðalskipulag þar sem sveitarfélag tók sér eiginlega traustataki part af miðhálendinu án þess að hafa nokkra lagastoð til þess, í bullandi andstöðu við allt og alla.

Herra forseti. Ég held þess vegna að þetta sé meingallað og það er stórkostlegur galli á þessu að samvinnunefnd um svæðisskipulagið, skuli ekki hafa tök á því að koma miklu sterkar inn í aðalskipulag. Jafnframt, herra forseti, verð ég að vekja eftirtekt á því að skipulögum má deila í þrennt, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag og síðan er að vísu landsskipulag þar fyrir ofan samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum. En af þessu skiptir deiliskipulag ekki sístu máli sem hefur alltaf verið á færi sveitarfélaga. Ég tel að færa megi full rök að því að inni á þessari sameign þjóðarinnar sem við munum, að samþykktu þjóðlendufrv. loksins slá eign okkar á sem þjóð, að hægt sé að færa full rök að því að ef menn á annað borð ætla að fulltrúar þjóðarinnar komi með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessu frv. að skipulagsmálum miðhálendisins, sé fullkomlega rökrétt að þeir geti líka hlutast til um deiliskipulag. Ég segi það ekki síst með tilliti til þess að þarna er um að ræða ofurviðkvæm svæði, svæði þar sem skipti frosts og sumars gera það að verkum, gróðurþekja og dýralíf er skammvinnt og gríðarlega viðkvæmt, að það er mjög auðvelt að laska náttúrufar þarna með tiltölulega litlu átaki. Það er mikil hætta sem einstakar litlar náttúruperlur --- ég nefni Herðubreiðarlindir, ég gæti auðvitað nefnt margar fleiri --- eru í vegna ágangs ferðamanna. Því tel ég að það skipti miklu máli hvernig deiliskipulagi er hagað á svona svæðum og ég tel sem sagt að almannavaldið hafi fullan rétt til þess að koma að því. Ég áskil mér sem íbúi í Reykjavík og sem borgari á Íslandi, sem eigandi að miðhálendinu, fullan rétt til þess að hafa skoðun á því hvernig á að haga t.d. deiliskipulagi á þessum örsmáu, viðkvæmu svæðum innst í kjarna miðhálendisins.

Það er hins vegar alveg ljóst að hæstv. félagsmála- og umhverfisráðherrar ætla sér að draga sem mest úr áhrifum borgaranna t.d. á deiliskipulag. Þetta sjáum við, herra forseti, í síðasta málslið 4. mgr., þar sem segir: ,,Tillaga að deiliskipulagi eða breytingar á því skal auglýst á áberandi stað.`` Herra forseti, á hvaða áberandi stað og hvar? Innan sveitarfélaganna?

Í grg. kemur hvergi fram að við sem búum annars staðar á landinu eigum einhvern kost á því að segja álit okkar á deiliskipulagi sem gert á landsvæði sem við eigum þó og sem verður í gadda slegið með þjóðlendufrv. (Gripið fram í.) Nei, það er einfaldlega ekki svoleiðis, herra forseti, og ég veit að hæstv. félmrh. bíður eftir því að komast að á eftir mér og það er alveg sjálfsagt að ég veiti honum ... (Félmrh.: Hvernig er deiliskipulag auglýst í Reykjavík?) Herra forseti. Hér kemur hæstv. félmrh. með nákvæmlega sömu röksemd og hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann fellur í þá ferlegu gryfju að telja að skipulag í Reykjavík og skipulag á miðhálendinu séu eitthvað sambærileg. Um það er ekki hægt að hafa önnur orð en þau að þau birta sárgrætilegan misskilning á eðli málsins. Í framhaldi af þessu mætti ætla að hæstv. félmrh. mundi fyrir hönd landsbyggðarinnar segja, eins og hv. þm. Pétur Blöndal gerði í gær: Hvers vegna má landsbyggðin ekki hafa áhrif á skipulag í Reykjavík?

Ég segi fyrir mig að mér er alveg sama um það en málið er bara ekki sambærilegt. Við erum að tala um mjög viðkvæm svæði og þó að innan Reykjavíkur sé að finna náttúruperlur eins og Elliðaárdalinn, strandlengjuna og Heiðmörkina eru þær ekki viðkvæmar í þeim skilningi sem til að mynda Herðubreiðarlindir eru, alls ekki, sem sæta nú þegar ágangi sem skilur eftir ummerki sín á landinu. Þess vegna segi ég það, herra forseti, að frammíkall hæstv. félmrh. staðfestir þann skilning minn að honum finnst það ekkert sjálfgefið að íbúar þéttbýlisins eða fulltrúar þeirra hafi einhver áhrif eða umsagnarrétt að deiliskipulagi á miðhálendinu. Ég held því fram að það sé sjálfsagður réttur okkar vegna þess að þar er verið að tefla um mjög dýrmæta og viðkvæma staði, herra forseti.

Ég held því sem sagt fram að starfssvið þessarar samvinnunefndar sé allsendis ófullnægjandi. Ég held því fram að möguleikar okkar til þess að hafa áhrif til að mynda á deiliskipulag og aðalskipulag, og þegar ég segi ,,okkar`` er ég að tala um fulltrúa þéttbýlisins, séu allsendis ófullnægjandi. Ég held því fram að hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh. vilji ekki leyfa íbúum þéttbýlisins að koma sjónarmiðum sínum að hinum smæstu skipulagseiningum á miðhálendinu. En ég tel að við eigum siðferðilegan rétt á því vegna þess að þetta er okkar land. Það er ekki fyrr en núna, það er fyrst núna, sem er verið að slá í rauninni eign sveitarfélaganna á það vegna þess að ég get ekki kallað það annað. Ég vek athygli á því að með dómi Hæstaréttar í máli varðandi Landmannaafrétt 1981, þar segir þó, herra forseti, að löggjafarvaldið geti komið að slíkum svæðum með reglum og lögum en þegar búið er að samþykkja þetta þá erum við meira að segja svipt því. Þarna er í rauninni verið að taka þann vísi sem þéttbýlið hefur að því að hafa áhrif á miðhálendið í burtu, og það verða menn auðvitað að gera sér grein fyrir.

Þá kem ég, herra forseti, að skipan þessarar samvinnunefndar. Við höfum heyrt hérna að hver og einn einasti þingmaður stjórnarliðsins fyrir utan einn, sem tekið hefur til máls, hefur lagst með einhverjum hætti gegn þeirri framkvæmd sem gert er ráð fyrir í þessari grein, 1. gr. þess frv. Það hefur hver einasti --- fyrir utan hæstv. félmrh. og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur --- þingmaður stjórnarliðsins og líka þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem upphaflega fylgdu þessu máli, talað þannig að nauðsynlegt væri að breyta þessu ákvæði þannig að önnur viðhorf kæmu að. Það gerðu hv. þm. Árni M. Mathiesen, Pétur H. Blöndal, að sjálfsögðu Ólafur Örn Haraldsson, Kristín Ástgeirsdóttir sem fylgdi frv., allir þingmenn Alþb. sem talað hafa, jafnvel Guðni Ágústsson ræddi það.

Herra forseti. Þetta sýnir að fullur er vilji fyrir því í þinginu að koma þeim sjónarmiðum, sem við jafnaðarmenn höfum haldið fram og raunar aðrir líka, að nauðsynlegt sé að auka með einhverjum hætti lýðræðið í þeirri gerð sem hér liggur fyrir okkur. Það er ekki hægt að sætta sig við það að í því formi, sem þessi nefnd sem bara á að sjá um skipulagið, skuli enginn fulltrúi náttúruverndarsamtaka, enginn fulltrúi útivistarmanna, enginn fulltrúi ferðafélaga, enginn fulltrúi ferðaþjónustunnar hafa nokkurn möguleika á því að koma viðhorfum sínum þarna í gegn. Vegna þess að af reynslunni ætla ég að hvorki hæstv. félmrh. né hæstv. umhvrh. muni skipa slíka menn sem sína tvo fulltrúa í þessa nefnd.

Þarna er því lögð fyrir skipan sem allir stjórnarliðar, sem hafa rætt málið, hafa með einum eða öðrum hætti, mælt í gegn. Hafa tekið undir með þeim viðhorfum okkar að það skortir aðkomu fólksins að þessum málum. Sömuleiðis, herra forseti, hafa menn hver um annan þveran í aðdraganda þessa máls --- einkum framsóknarmenn --- gengið fram á völlinn, barið sér á brjóst og slegið sig til riddara og sagt: Við munum aldrei styðja þetta mál. Vegna hvers? Vegna þess að fulltrúar 67% þjóðarinnar, þ.e. íbúar Reykjaness og Reykjavíkur, fá ekki að koma að málinu.

Hvað gerist svo? Svo liggur þetta hrak að frumvarpi fyrir þar sem Reyknesingum er boðið upp á það að hafa einn fulltrúa af átján. Það er lýðræðið sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem lætur ekki einu sinni svo lítið að koma hér í dag, telur að hún geti farið með til kjósenda sinna og sagt: Sjáið þið hverju ég hef náð fram? Ég hef náð fram að við fáum einn fulltrúa af átján. Reykvíkingar fá tvo fulltrúa af átján. Er þetta lýðræði, herra forseti?

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hélt merka ræðu í gær þar sem hann lýsti því að hann gæti fallist á þetta. Hann lýsti því hversu fjölmargir kjósendur hefðu aftur og aftur komið að máli við hann og sagt honum að það væri ótækt með öllu að Reykvíkingar gætu ekki komið sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi skipulag miðhálendisins. Og svo sagði hv. þm.: Nú geta þeir það hins vegar því þeir fá tvo fulltrúa af átján.

Herra forseti. Hvernig ætli menn útkljái þessi mál á þeim vettvangi þar sem hann þekkir hvað best, t.d. í Íslandsbanka hf.? Ég mundi spyrja hv. þm. að því ef hann væri nærstaddur og hlýddi á orð mín. Hvernig mundi hv. þm. ætla að menn afgreiddu deilumál á aðalfundi í Íslandsbanka? Hvernig afgreiddu þeir t.d. deiluna um það þegar hv. þm. vildi verða bankaráðsmaður og aðrir sóttu gegn honum? Það var að sjálfsögðu afgreitt með atkvæðagreiðslu. Þá skiptir auðvitað vægið máli. Þá skiptir það máli hversu margir fulltrúarnir eru.

Í þessu dæmi er það þannig, herra forseti, að Reykjavík og Reykjanes, sem samtals hafa innan sinna vébanda 67% þjóðarinnar fara með þrjá fulltrúa af átján, sjöttung atkvæða. Það þýðir það að allt bendir til þess að ef til deilna drægi í samvinnunefndinni og það kæmi til atkvæðagreiðslu mundi sá ágreiningur væntanlega verða sá hinn sami og hér hefur komið aftur og aftur fram í umræðum um þessi mál, þ.e. það verða átök milli hagsmuna dreifbýlis og þéttbýlis. Þá hefur þéttbýlið þrjá fulltrúa af átján. Það er alveg ljóst hvernig slík atkvæðagreiðsla færi. Hún mundi að sjálfsögðu tapast. Niðurstaða mín er þessi: Hagsmunir þéttbýlisins eru gróflega fyrir borð bornir með þessu frv.

Í annan stað, herra forseti, vek ég athygli á því, eins og ég hef gert fyrr í ræðu minni, að þetta frv. er algjörlega gallað að því leyti til að það meinar ákveðnum íbúum þjóðarinnar alfarið að koma að stjórn skipulags miðhálendisins með einhverjum hætti. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess, herra forseti, að það segir að af þessum átján fulltrúum eiga þau sveitarfélög, sem eru 40--50 talsins og liggja að miðhálendinu, að tilnefna tólf fulltrúa. Síðan er það Reykjavík og Reykjanes og Vestfirðir. En það eru auðvitað fjölmörg, ég veit ekki hversu mörg, en það eru mörg sveitarfélög sem detta þarna niður milli skips og bryggju. Það eru sveitarfélög eins og smáhreppar á Suðurlandi. Það er fæðingarhreppur hv. þm. Guðna Ágústssonar, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur. Fjarlægari landshluta nefni ég, stórbæ á íslenskan mælikvarða eins og Akureyri.

Af hverju, herra forseti, er verið að gera íbúa þessara staða landlausa á miðhálendinu? Af hverju mega sjónarmið þeirra ekki koma að þessu? Ég spyr. Engin svör hafa fengist við því en ég vek eftirtekt á því að það var skilyrði hv. þm. Péturs H. Blöndals og hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur fyrir því að falla frá fyrirvara sínum við stuðninginn við frv. til sveitarstjórnarlaga að allir íbúar landsins hefðu möguleika á að koma að stjórninni. Það gerist einfaldlega ekki. Þess vegna tel ég, fyrst hv. þm. Pétur H. Blöndal er kominn hingað aftur (Gripið fram í: Aftur á staðinn.) Mættur á staðinn galvaskur, eigi hann auðvitað að skýra fyrir þjóðinni hvernig í ósköpunum stendur á því að hann fellur frá fyrirvara án þess að skilyrði hans séu uppfyllt. Hvernig ætlar hann að verja það fyrir þeim kjósendum, sem hann sagði sjálfur hér í gær að hefðu komið og reifað óánægju sína með málið, þá staðreynd að hann hefur samþykkt gerning sem gerir það að verkum að Reykvíkingar og Reyknesingar, samtals 67% þjóðarinnar, fá þrjá fulltrúa af átján. Hvers konar lýðræði er það og hvað hefði hv. þm. sagt um lýðræði af þeim toga þegar hann var einn þeirra manna sem réð fyrir Íslandsbankanum hf.? (Gripið fram í.) Þú ert ekkert búinn að gera það.

[14:15]

Herra forseti. Ég segi þess vegna að þetta er allsendis ófullnægjandi frá sjónarhóli lýðræðisins. Ég spyr líka hv. þm. Magnús Stefánsson, vaskan pilt af Vesturlandinu: Hvers konar ball verður það nú þegar 40--50 sveitarfélög ætla að fara að velja 12 fulltrúa? (Gripið fram í.) Ég veit ekki um það, herra forseti, en ég velti því hins vegar fyrir mér af því að hv. þm. er frsm. meiri hlutans hvernig hann ætli sveitarfélögunum að fara þessa leið. Enginn hefur reifað það í þessum umræðum. Enginn hefur bent á það. En ég ímynda mér að allir þeir dansleikir sem hin ágæta hljómsveit Kátir piltar sem þingmaðurinn var einu sinni meðlimur í ... (Gripið fram í: Upplyfting.) Ég man ekki hvað hún heitir því að ég er lítt kunnugur á þessu svæði. En ég þori að veðja að enginn dansleikur sem hann hefur verið á á Vesturlandi mun fara jafnmikið úr böndum og það ball sem verður boðið upp á þegar 40--50 sveitarfélög eiga að velja úr sínum hópi 12 fulltrúa. Hvers vegna? Vegna eftirfarandi: Það er um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni að tefla. Þegar menn fara í að byggja orkuver, lón, miðlanir, línur og vegi þá skiptir miklu máli fyrir örfámenn sveitarfélög hvaða tekjur þær fá af þessum byggingum. Og tekjurnar helgast af staðsetningu mannvirkjanna. Það er því alveg ljóst að um þetta verður auðvitað tekist af miklu afli.

Ég held líka, herra forseti, að við höfum fengið forsmekkinn af því hvað gerist þegar sveitarfélögin fá þetta vald. Ég veit að mig greinir á við marga þá sem hafa lagst með svipuðum rökum og ég gegn þessu frv. um aðkomu smárra sveitarfélaga. Ég hef ekkert á móti þeim og tel í sjálfu sér að þau gætu farið með ýmis af þeim hlutverkum sem þeim er ætlað. En ég held hins vegar, herra forseti, að forsmekkinn af því sem gæti gerst, ef þetta yrði samþykkt, höfum við séð í Svínavatnshreppi þar sem einu merkilegasta og elsta félagi Íslendinga, Ferðafélagi Íslands, var beinlínis úthýst með ofbeldi með húsnæði sitt, þar sem ferðamenn hvaðanæva af Íslandi höfðu áratugum saman gist á ferðalögum sínum um miðhálendið. Þeim var bókstaflega fleygt í burtu með valdi af hreppsnefndinni sem tók sér það vald að skipuleggja sig inn á miðhálendið án nokkurra gildra raka, en fékk eigi að síður staðfestingu umhvrh. fyrir því. Ég held að þetta sé einungis forsmekkurinn.

Munu menn þá ekki allt eins fara í það að ryðja burt öðrum skálum sem víðs vegar er að finna, eignir ferðafélaga og annarra félagasamtaka? Menn skulu ekki halda að hér sé um að ræða örfáar byggingar. Á miðhálendinu eru nú u.þ.b. 700--800 byggingar, hvorki meira né minna. Ég held þess vegna að við höfum séð hvað þarna er að gerast, herra forseti.

Ég tel því að það væri ógæfuspor ef þetta frv. yrði samþykkt. Og ég gleðst yfir því kjarkleysi sem hæstv. umhvrh. hefur sýnt í málinu, a.m.k. leyfi ég mér að túlka það sem vott af iðrun, vott af samviskubiti yfir vondu verki.

Ég held því fram, herra forseti, að ef þetta verður gert að veruleika, ef Alþingi samþykkir þetta frv., sé verið að svipta 67% þjóðarinnar sjálfsögðum og siðferðilegum rétti sínum til ítaka á miðhálendi Íslands sem þekur 43% af flæmi landsins. Og hverjir fá þetta vald? Að mestu leyti þau 4% íbúanna sem búa í örfámennum 40--50 sveitarfélögum. Ég mótmæli þessu, herra forseti, í nafni alls þess réttlætis sem menn hafa reifað í þessum sölum í gegnum tímann.

Andstaða manna og stuðningur við þetta frv. er á mismunandi rökum reistur. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem ekki er staddur hér í dag, hefur lýst fylgi við þetta frv. vegna skipulagsvinnunnar. Það er nauðsynlegt að það komi fram að hann hefur flutt hérna rök sem eru að mörgu leyti gild og það er auðvelt að skilja þau. Hann talar um að ásókn annarra geira, eins og t.d. orkugeirans, inn á miðhálendið sé orðin svo stríð að nauðsynlegt sé að spyrna þegar við fótum. Hann telur að sú viðstaða sem menn hafi sé sá vísir að svæðisskipulagi sem nú þegar liggur fyrir frá hendi þeirrar nefndar sem var skipuð 1993 og hann óttast að ef menn fara þá leið sem til að mynda jafnaðarmenn hafa lagt til muni sú vinna falla niður og sóknarfæri fyrir orkugeirann muni skapast inn á þessi svæði. Hann sagði, herra forseti, að sú áhætta sem fælist í því að til yrði skipulag undir áhrifum sveitarstjórna sem er ekki nógu gott, væri betri en sú áhætta sem við tækjum ef við mundum breyta þessu eins sem t.d. jafnaðarmenn hafa verið að ræða.

Ég er honum ekki sammála, herra forseti. Ég held að vísu að alltaf yrði ákveðin áhætta fyrir hendi sama hvaða háttur væri hafður á skipulagi miðhálendisins. Það mundi líka gilda ef sá háttur væri hafður á sem jafnaðarmenn vilja, þ.e. að ein stjórn færi með alla stjórnsýsluna. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, herra forseti, að áhættan væri minni þá. Ég rökstyð það svona: Ef þarna væri um að ræða átta eða níu fulltrúa, eins og við höfum lagt til, sem skipaðir yrðu af almannavaldinu með einhverjum hætti, þá mundi það væntanlega útrýma þeim hreppasjónarmiðum sem má búast við að skytu upp kolli meðal þeirra 40--50 sveitarfélaga sem skipa þá 12 fulltrúa sem verða langvaldamestir í þessari samvinnunefnd. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að röksemd hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar hafi ekki sama vægi og þær röksemdir sem við höfum flutt gegn máli hans. Ég skil hins vegar hugsun hans. Hann telur að hann sé í nauðvörn fyrir miðhálendið. Hann telur að hann sé að verjast á þennan hátt ásælni sterkra og valdamikilla fyrirtækja innan orkugeirans. Ég skil það, herra forseti, en ég held einfaldlega að veruleikinn sé breyttur. Ég held að jafnvel þó orkugeirinn færi á fullt skrið þá séu viðhorfin í þjóðfélaginu svo breytt, m.a. vegna umræðna á Alþingi um þetta mál og um Kyoto-samninginn, að viðnámið er miklu meira en áður. Þess vegna tel ég að ekki sé hægt að taka að öllu leyti gild rök hv. þm.

Þó hann sé hér fjarri er nauðsynlegt, herra forseti, að ég rifji það eigi að síður upp vegna þess að hann hefur farið giska mikinn í umræðum varðandi Alþfl. og talið að við höfum á einhvern hátt verið upphafsmenn að því að draga sveitarmörkin þarna inn á miðhálendið. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að það komi fram að árið 1990, þegar Alþfl. var vissulega í stjórn en Alþb. líka, var lagður fyrsti vísirinn að því að draga mörk sveitarfélaga með þessum hætti inn á miðhálendið. Það var gert m.a. á vegum Landmælinga Íslands og það var líka gert af einhverjum öðrum aðilum sem ég man ekki alveg hverjir voru, herra forseti. En mér finnst nauðsynlegt að þetta komi fram. Þannig að ef menn ætla að deila um það sem skiptir ekki máli í dag, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur gert, og halda því fram að það hafi verið í tíð ríkisstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl. sem þessi draugur sá fyrst dagsins ljós, þá er það rangt. Það var í tíð ríkisstjórnar sem Alþfl. átti aðild að en að sömu ríkisstjórn átti einmitt Alþb. aðild líka.

Þessi hugmynd sem Alþb. hefur fylgt fram að þeim atburðum sem gerðust hér í morgun, hefur áður verið rædd. Þessi hugmynd sem var málamiðlun, svo ég noti orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar, og fól í sér að skipulagsþátturinn var tekinn út úr og mörk sveitarfélaganna framlengd inn á miðhálendið, er hugmynd sem Alþb. er ekki ókunn.

Á 113. löggjafarþingi 1990--91 var lögð fyrir Alþingi skýrsla um undirbúning að löggjöf um stjórnsýslu á miðhálendi Íslands og þar er þessi möguleiki reifaður. Þar er frá því greint að til að bæta úr því ófremdarástandi sem skýrsluhöfundum þótti vera í skipulags- og byggingarmálum þá hafi komið fram sú hugmynd, með leyfi forseta: ,,... að framlengja mörk allra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu þannig að landinu öllu yrði þar með skipt í sveitarfélög.``

Síðan segir, með leyfi forseta, í þessari skýrslu: ,,Þessi hugmynd virðist tæplega raunhæf.``

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ræddi um hana í máli sínu í gær eins og hún væri bara einn af þeim valkostum sem fyrir hendi væru. Þessi nefnd segir hins vegar: ,,Þessi hugmynd virðist tæplega raunhæf.``

Herra forseti. Hverjir sátu í þessari nefnd? Þar sátu fulltrúar ýmissa stofnana, ýmissa ráðuneyta og ýmissa stjórnmálaflokka. Einn stjórnmálaflokkur, einn stjórnmálaflokkur aðeins, hafði tvo fulltrúa í þessari nefnd. Það var Alþb. Það voru þingmennirnir Geir Gunnarsson og hinn þingmaðurinn sem skrifar undir það að þessi hugmynd hafi tæplegast verið raunhæf var hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Hugmyndinni sem hann telur núna ásættanlega málamiðlun var slátrað af hans hendi árið 1990. (Gripið fram í: Þetta eru stórtíðindi.) Þetta eru stórtíðindi.

Þetta skiptir máli, herra forseti, vegna þeirrar umræðu sem hér varð um söguna í gær og vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur ítrekað, aftur og aftur, komið því að í umræðum að fyrsta hugmyndin að þessu hafi orðið til í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar raunin er sú að hugmyndin varð fyrst til í tíð ríkisstjórnar sem Alþb. átti aðild að. En þá var henni líka slátrað kirfilega með glæsilegum röksemdum sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skrifaði undir.

Mér finnst líka nauðsynlegt, herra forseti, að reifa aðeins tildrög þeirrar vinnu sem hefur farið fram á miðhálendinu. Á grundvelli þeirrar skýrslu sem ég vitnaði til áðan og unnin var af nefnd sem Júlíus Sólnes kom á laggir, lagði fyrrv. umhvrh. Eiður Guðnason fram frv. sem gerði ráð fyrir því að miðhálendið yrði ein stjórnsýslueining. Sú hugmynd lenti í miklum ógöngum í þinginu. Illu heilli risu upp menn í stjórnarliðinu, í Sjálfstfl., tóku höndum saman við framsóknarmenn og hugmyndin var --- svo maður noti orðalag götunnar --- kýld köld.

Í framhaldi af því var haldinn fundur með ýmsum aðilum, m.a. sveitarstjórnarmönnum og út úr því kom ákveðin málamiðlun sem var lögð inn í þingið. Sú málamiðlun fól í sér að lagt var til að samþykkt yrði bráðabirgðaákvæði við gildandi skipulagslög sem fól í sér möguleikann til að setja upp samvinnunefnd sem ætti að vinna að skipulagi miðihálendisins. Sú tillaga fór til umhvn. Alþingis. Hún var samþykkt þar samhljóða. En þegar hún kom fram í þinginu aftur fylgdi henni auðvitað nefndarálit, herra forseti, þar sem tekið var skýrt fram að samþykkt frv. um þá nefnd hefði engin áhrif á lögsögu á miðhálendinu. Ég ætla þessa vegna, herra forseti, að lesa hér það sem kemur fram í umsögn umhvn. með því frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur áherslu á að þau mörk, sem dregin verða um miðhálendið, munu á engan hátt breyta núverandi réttarstöðu hvað varðar eignarhald á svæðinu og lögsögu yfir afréttum og almenningum.``

Það var alveg klárt að þingið tók af allan vafa um það hvaða grunnur var undir samþykkt þessarar tillögu. Það var ekki verið að gera neina tillögu að einu eða neinu sem varðaði einmitt lögsögu og þar með stjórnsýslu yfir miðhálendinu. Mér finnst að þetta geti ekki verið skýrara.

Í ræðu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti þá sagði hann orðrétt líka, með leyfi forseta:

,,En einnig tek ég mjög eindregið undir það að spurningin um eignar- og umráðarétt á hálendinu er málefni sem tengist þessu. Það varð skýrt af málsmeðferð í nefndinni og viðræðum við þá lögfræðinga sem rætt var við að æskilegt, mjög æskilegt er, svo ekki sé fastara að orði kveðið, að tillaga þar að lútandi komi fram og verði afgreidd á Alþingi hið allra fyrsta.``

[14:30]

Herra forseti. Hér vitna ég í orð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og af þeim dreg ég þær ályktanir að í fyrsta lagi geri hv. þm. skýran greinarmun á eignarrétti og umráðarétti. Í öðru lagi segir hv. þm. Hjörleifur Guttormsson að stefnu um umráðaréttinn vanti. Með öðrum orðum, það vantar stefnu um stjórnsýsluna. Það umræðuefni er helsta bitbeinið hér í umræðunum. Ef hv. þm. kallar eftir stefnu varðandi stjórnsýsluna, getur það einungis stafað af því, ef maður reynir að hugsa þetta rökrétt, að hann telji að í tillögunni, eins og hún kemur hérna fyrir þingið á sínum tíma, felist engin stefna um stjórnsýsluna. Ella væri hann ekki að kalla eftir henni.

Þess vegna held ég, herra forseti, að fyrst hv. þm. Hjörleifur Guttormsson taldi að engin stefna fælist í frv. sem varðaði umráðarétt og stjórnsýslu og Alþfl. bar hér inn í þingið fyrir hönd þeirrar ríkisstjórnar sem þá var, þá sé algjörlega fráleitt af honum að halda því fram, eins og hann gerði í umræðu sinni hér í fyrradag, að við berum ábyrgðina á því að staðarmörkin séu framlengd inn á miðhálendið með þessum hætti. Sá skilningur hans stangast einfaldlega á við þann skilning sem kom fram í ræðu sem hann flutti af því tilefni. Mér finnst mikilvægt að koma þessu að í umræðuna, herra forseti.

Ég hef, herra forseti, í alllöngu máli, sem ég hefði gjarnan viljað hafa svolítið styttra og gagnorðara en mér er einfaldlega ekki betur gefið af náttúrunnar hendi að tjá mig knappyrtar en þetta, enda málið yfirgripsmikið.

Það sem ég hef farið yfir, herra forseti, er í fyrsta lagi aðdragandi þess að hæstv. umhvrh. sprengdi í loft upp þá umræðu sem hér var hafin með því að kasta hérna inn hraki af frv. um breytingu á skipulagslögum. Það rauf þá sáttargerð sem hluti af stjórnarandstöðunni hafði gert. Ég hef í öðru lagi farið ítarlega yfir það frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér hefur verið til umræðu. Ég hef í þriðja lagi fagnað ýmsu sem þar hefur komið fram. Þar hef ég sér í lagi tekið undir með mínum ágæta vini, hv. þm. Pétri H. Blöndal, um að þau fjögur atriði sem sérlega varða fjármál sveitarfélaganna eru til stórra bóta. Andstætt honum hef ég hins vegar lýst ákveðnum fyrirvara um ákvæði um arðgreiðslur sem þar er vegna þess að ég tel að það skjóti lögum undir það að sveitarfélög fari að okkur með dulinni skattheimtu.

Í fjórða lagi, herra forseti, hef ég neyðst til þess að fara yfir frv. um breytingar á skipulagslögum sem hæstv. umhvrh. kom með inn í þingið. Ég tel a.m.k. að ég hafi skýrt afstöðu jafnaðarmanna til þess. Við erum á móti þeirri ólýðræðislegu framkvæmd sem þar kemur fram í samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins. Við erum á móti því ólýðræði sem felst í að íbúar þéttbýlisins fái einungis þrjá af átján fulltrúum nefndarinnar. Ég tel að starfssvið samvinnunefndarinnar sé allsendis ófullnægjandi. Ég tel að við, íbúar þéttbýlisins, þurfum einnig að koma að öllum stigum skipulagsins og geta haft einhvern rétt til aðfinnslna um deiliskipulagið. Mér finnst við ekki hafa þarna þann rétt, herra forseti.

Ég hef bent á að hv. þm. Pétur Blöndal og Siv Friðleifsdóttir féllu frá fyrirvara sínum án þess að þeim skilyrðum sem þau settu í upphafi hefði verið fullnægt.

Ég hef síðan farið nokkrum lofsamlegum orðum um fyrri hluta ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar en jafnframt rakið nokkur söguleg atriði sem ég taldi nauðsynlegt að koma á framfæri. Þar ber hæst, herra forseti, að tilurð hugmyndarinnar um að draga staðarmörk sveitarfélaganna inn á miðhálendið varð ekki til í tíð síðustu ríkisstjórnar. Sú hugmynd varð til í tíð ríkisstjórnarinnar þar á undan. Hún var reifuð í nefnd þar sem Alþb. átti flesta fulltrúa, eða tvo og aðrir stjórnmálaflokkar einn, en var slegin af í þeirri nefnd.

Þetta, herra forseti, tel ég að sé nægileg yfirferð af minni hálfu. Mér þykir miður að hafa ekki getað gert það á skemmri tíma. Málið er yfirgripsmikið, ég hef fortíð í málinu sem ég þurfti nauðsynlega að skýra. Jafnframt, herra forseti, vil ég lýsa því yfir, þó að það komi þessu máli ekki beinlínis við, að ég tel eins og þessu hefur undið fram, algjörlega nauðsynlegt að þetta mál, frv. til sveitarstjórnarlaga, fylgi málinu sem hæstv. umhvrh. kom með í þingið. Ég tel því að nauðsynlegt sé að samþykkja þá tillögu til rökstuddrar dagskrár sem Alþb. hefur lagt hér fram, um að vísa þessu máli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá. Það þýðir, herra forseti, að báðum málunum er frestað til hausts og það tel ég mjög mikilvægt.