Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 15:48:17 (6067)

1998-04-30 15:48:17# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[15:48]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. beindi til mín þremur eða fjórum spurningum. Ég þakka honum fyrst fyrir þann heiður og þær hamingju- og heillaóskir sem hann beindi til mín í tilefni af pólitískum sigrum. Ég er auðvitað alltaf að vinna pólitíska sigra en það er gott að fá það staðfest af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Hv. þm. spurði m.a. hvernig ætti að skipa þá 12 fulltrúa sem kveðið er á um að sveitarfélögin, sem liggja að miðhálendinu, eigi að tilnefna í nefnd um svæðisskipulag miðhálendisins ef frv. það sem hér hefur verið lagt fram og er nú reyndar ekki hér á dagskrá með formlegum hætti verður að lögum á haustþingi. Ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því að það verði neitt vandamál að þau sveitarfélög sem þarna eiga aðild að máli komi sér saman um þessa 12 fulltrúa. Í fyrsta lagi er farvegur fyrir það í dag, þannig að það er hefð fyrir því þar sem héraðsnefndir sem land eiga að miðhálendinu hafa þegar skipað fulltrúa í svæðisnefnd sem þar vinnur og er að störfum í dag eins og hv. þm. þekkja. Í öðru lagi eru ávallt fjölmörg verkefni sem sveitarfélög þurfa að koma sér saman um að tilnefna fulltrúa í og ég veit að það verða engin vandamál í því efni.

Hv. þm. spurði um hversu mikil réttindi þessi nefnd hefði í raun til að vera aðeins umsagnaraðili að aðalskipulagi og hvernig ráðherra hugsaði það. Hún er það fyrst og fremst, hún skal fyrst og fremst vera umsagnaraðili og hún sendir síðan umsagnir sínar eða álit til Skipulagsstofnunar sem tekur þær til skoðunar og metur hvernig hún leggur málið fyrir ráðherra og það kemur síðan til hans að gera það upp hvernig það verður endanlega samræmt. Ef ágreiningur er uppi hlýtur það að koma inn til ráðherra.

Í þriðja lagi spurði hv. þm. hvernig og hvenær mætti vænta þess að málið yrði staðfest og sagði að ég hefði lýst því yfir fyrr í umræðum á þessum vetri að svæðisskipulag mætti staðfesta að hausti. Ég lýsti því yfir þá að það yrði ekki gert fyrr en svæðisskipulagsnefndin, sem ég hef veitt frest fram undir áramót, til 1. desember, hefur lokið sínum störfum, og verði þetta nýja frv. að lögum á haustþingi, sem hefur verið nokkuð til umræðu, þá er alveg ljóst að það yrði ekki gert fyrr en á hinu árinu, vonandi fljótlega á hinu árinu en hin nýja nefnd verður auðvitað að fá sinn tíma (Forseti hringir.) til að fara yfir málið, ekki til að taka það allt upp eða endurvinna það, heldur til að gera athugasemdir við það sem skipulagsstjórn tekur síðan til athugunar og sendir ráðherra. --- Ég bið forseta afsökunar á að hafa farið langt fram yfir tímann.