Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 15:56:38 (6070)

1998-04-30 15:56:38# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[15:56]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tók vandlega eftir því að hann forðaðist að svara spurningu minni um hvaða ástæður lægju því til grundvallar að hann orði frumvarpstexta sinn þannig að stærstu þéttbýlissveitarfélögin í hans eigin kjördæmi, Akureyri og Húsavík, séu algerlega útilokuð frá því að geta átt nokkra aðild að þessari samvinnunefnd. Þau hefðu ekki verið útilokuð frá því ef hæstv. ráðherra hefði orðað frumvarpstextann eins og hann sagði að ætti að skilja hann, þ.e. að hann gerði ráð fyrir að héraðsnefndirnar kæmu sér saman um tilnefningu þessara fulltrúa, en hann orðar það þveröfugt. Hann orðar það svo að það skuli aðeins vera þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendi Íslands sem hafi þennan rétt. Hvers vegna? Hvaða ástæðu sér hann fyrir því að útiloka Akureyri og sína kæru Húsavík, sjálfan fæðingarstaðinn, Betlehem? Hvernig stendur á því að hann sér ástæðu til að útiloka þessa tvo staði sérstaklega frá áhrifum? Hvað segir hann hérna? Hann segir nánast bara þetta eitt: Ég ætla að framlengja, verði þetta samþykkt, umsagnarfrestinn sem verið hefur vegna þessa svæðisskipulags um einhverjar vikur eða mánuði og síðan ætla ég að gefa samvinnunefndinni rétt á að tjá sig. En þessi eini fulltrúi í samvinnunefndinni sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er að færa Reyknesingum öðlast ekkert meiri rétt en hann hefur nú þegar, því hann hefur nú þegar rétt til þess eins og hver annar Íslendingur að gera athugasemdir við tillögu um svæðisskipulag og hann öðlast ekkert meiri rétt með aðild sinni að samvinnunefndinni sem hv. þm. samdi um. Ég segi nú, virðulegi forseti, er það nú samningur, er það nú samningamaður.