Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 15:59:11 (6071)

1998-04-30 15:59:11# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[15:59]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér fór hv. þm. Sighvatur Björgvinsson með ýmsar tölur í upphafi máls síns um að fulltrúinn frá Reykjanesi hefði 1/70 hluta áhrif. Ég áttaði mig ekki alveg á þeim reikningi en ég fæ kannski betri upplýsingar um það á eftir. En það er alveg ljóst að þessi leið sem við erum að velja núna, er trygging fyrir því að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa aðkomu, tveir frá Reykjavík, einn frá Reykjanesi og einn frá Vestfjörðum og það er meira en hægt er að segja um þá leið sem Alþfl. vill fara. Þar eiga að koma að nokkrir fulltrúar, m.a. fjórir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og engin trygging að þeir verði af þessu svæði, þótt maður telji að það verði líklegt, en það er engin trygging. Hér er þó trygging.

[16:00]

Varðandi það hvort þessi nefnd hafi einhver áhrif, er ég mjög sannfærð um að hún mun hafa áhrif. Við erum að horfa til framtíðar. Hér erum við að sjá samvinnunefnd sem á að vinna til framtíðar. Eftir hverjar einustu sveitarstjórnarkosningar á hún að ákveða hvort hún tekur þetta mál upp, skipulagið, og endurskoðar það, bætir það.

Ég var spurð hvort samið væri um einhvern ákveðinn tíma sem þessi nýja nefnd ætti að fá til að skoða núverandi tillögu og vísa í því sambandi í svar sem fram kom áðan hjá hæstv. umhvrh. Ég horfi til framtíðar. Ég horfi ekki endilega á þessa tillögu sem núna er til auglýsingar og ég býst ekki við að gerðar verði miklar breytingar á henni, einhverjar væntanlega en ekki miklar þannig að ekki er verið að tala um að henda þeirri vinnu.

En ég verð að lýsa furðu minni á því hvernig er níðst á manni hér. Hv. þm. fagnaði því að ég kom í salinn en svo er manni ráðlagt að réttast væri að víkja úr salnum aftur. Ég furða mig á þessum málflutningi. Ég er mjög stolt af þessu samkomulagi, lagði mig mikið fram við það og með þrautseigju náðist það fram þannig að ég átta mig alls ekki á því hvernig hægt er að níðast á manni fyrir það.