Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 16:41:05 (6082)

1998-04-30 16:41:05# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[16:41]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það hefur mikið upp á sig að halda áfram umræðum um þetta atriði. Mér sýnist ljóst að niðurstaðan sé sú að ekki hafi verið nægjanlega skýrt milli manna hvernig þessir hlutir voru innsiglaðir í félmn., því miður. Ég vísa auðvitað til þess sem fulltrúar minni hlutans sem að þessu samkomulagi ætluðu að standa hafa sagt, hv. þm. Ögmunds Jónassonar, hvernig hann kynnti mál í okkar þingflokki og hvað hann sagði úr ræðustóli fyrr í dag. Ég vísa til þess sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur sagt og þess sem hún las upp úr nefndaráliti þar sem rætt er um samhliða breytingar, annars vegar á sveitarstjórnarlögunum og hins vegar á skipulags- og byggingarlögunum. Í okkar huga er ljóst að þetta hefur þetta legið þannig. Það kann að hafa verið eitthvað óskýrt að þessir hlutir ættu að verða samferða hér í gegn.

Ég held að hv. þm. skilji að það er erfitt fyrir okkur að standa að hlutunum ef afgreiða á annan hlutann en skilja hinn eftir í fullkominni óvissu. Það er ekki gott að efna hlutina þannig. Ef málum er miðlað þá þarf helst öll málamiðlunin að ganga fram samsíða. Það er löngu þekkt t.d. að í hnífakaupum eða öðru slíku þurfa menn helst að skiptast á hnífum í sömu andrá. Er það ekki?

Ég veit að hv. þm. skilur að því miður er það svo að í kjölfar atburðanna í morgun er grundvöllurinn brostinn fyrir því að standa að þessari málamiðlun og þessari niðurstöðu í því samhengi sem við töldum að hún ætti að vera.