Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 16:45:23 (6085)

1998-04-30 16:45:23# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[16:45]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið dálítill ljóður á þessari umræðu sem fram hefur farið hér í dag (Gripið fram í.) að hv. þingmenn --- já, og undanfarna daga. Það er rétt að halda því til haga --- að hv. þingmenn hafa verið að gera því skóna að þau viðhorf sem jafnaðarmenn og aðrir sem fylgja þeim að málum hafa haft frammi byggist á því að við vantreystum sveitarstjórnarmönnum. Þetta er algjör grundvallarmisskilningur og alveg augljóst að menn hafa ekki kynnt sér mikið það mál eða hlýtt mikið á þær umræður sem hér hafa farið fram og dálítið sorglegt, virðulegi forseti, þegar menn eru að reyna að eyðileggja umræðuna með svona innleggjum.

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur tekið á sig svo sérstaka mynd að það þekkist víst ekki í þingsögunni og kannski óþarfi að rekja það sérstaklega. En grundvallaratriðið í málinu hefur verið, og það sem menn hafa náttúrlega einbeitt sér að og rætt sérstaklega, að það er verið að færa lögsögumörk sveitarfélaga inn á mitt hálendi. Og með því er náttúrlega verið að færa sveitarfélögum ákveðnar valdheimildir inn á hálendið.

Það sem deilt hefur verið um í þessu máli og er kjarni þessa er spurningin um það hvernig við fáum best þjónað heildarhagsmunum og komið á heildstæðu svæðisskipulagi fyrir hálendið. Þar takast á tvenn viðhorf, annars vegar viðhorf ríkisstjórnarinnar þess efnis að rétt sé að skipta hálendinu upp í ræmur og að hvert sveitarfélag sem land á að hálendinu fari þar með sinn hluta og hins vegar þeirra sem vilja skipuleggja þetta svæði sem eina heild. Það er nákvæmlega kjarni málsins í þessari umræðu og hefur alla tíð verið. Það að einhver hópur hv. þingmanna hafi þá skoðun að það eigi að skipuleggja þetta sem eina heild felur ekkert sjálfkrafa í sér vantraust á sveitarstjórnarmönnum. Þessi viðhorf eru til háborinnar skammar þeim þingmönnum sem hafa sett þau hér fram, og dæma þá sjálfa meira en málflutningur nokkurra þeirra jafnaðarmanna sem hér hafa flutt mál sitt eða annarra sem eru á svipaðri skoðun.

Ég hlýt í upphafi ræðu minnar, virðulegi forseti, að nefna það aðeins að þetta mál verður ekki rætt nema í samhengi við frv. hæstv. umhvrh. Það er einfaldlega svo að það frv. er einhvers konar samkomulag í þessu sveitarstjórnarmáli og það er gersamlega vonlaust að ræða frv. um sveitarstjórnarmál nema í samhengi við það og þau viðhorf sem þar koma fram þannig að ég mun líkt og fleiri hér halda mig dálítið á þeim nótum. En enn fremur þá held ég, samhengisins vegna, að mjög æskilegt sé að fara vel yfir sögu skipulags- og byggingarmála hér á landi og hvernig sú saga hefur þróast. Það held ég að sé nauðsynlegt til að skýra þá stöðu sem nú er komin upp í þessum málum og við ræðum í dag. Það er nú einu sinni svo að sagan endurtekur sig æ ofan í æ og hún gerir það hér og nú eins og svo oft áður.

Áður en ég kem að því að fara yfir söguna vil ég þó nefna það sérstaklega að vörn hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta þingmanna á Alþingi fyrir því að þeirra eigið mál sé ekki tekið á dagskrá hefur verið sú að málið hafi aðeins verið sett hér fram til kynningar. Þegar hæstv. umhvrh. kvaddi sér hljóðs í umræðunni um sveitarstjórnarlög kom hvergi fram í hans máli að þetta mál væri sett fram til kynningar. Ef ég leyfi mér að vitna í þessa ræðu á stangli þá segir hæstv. umhvrh. aðeins, með leyfi forseta:

,,Meiri hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að heildstætt skipulag væri eðlilegt á miðhálendinu og mikilvægt að afréttir og þjóðlendur á því svæði verði svæðisskipulögð sem ein heild. Meiri hlutinn vekur í þessu sambandi athygli á 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, ...``

Og til þess að koma til móts við þessi sjónarmið þá segir hæstv. umhvrh., með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin hefur fallist á að leggja fram frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með þegar áorðnum breytingum, ... Þingflokkar ríkisstjórnarinnar hafa fallist á að það frv. verði lagt fram.``

Það er því alveg ljóst að frv. hæstv. umhvrh. er fyrst og fremst innlegg í þessa umræðu og samkomulag til þess að reyna að greiða götu sveitarstjórnarfrv. Það verður því ekki rætt nema í samhengi við það, enda er það einu sinni svo að með því að færa lögsögumörk sveitarfélaga upp undir mitt hálendið er þeim fært vald á mjög mörgum málaflokkum á svæðum þar sem þeir höfðu ekki valdið áður. Og það er stóra álitamálið í þessu. Það er verið að færa þeim ákveðnar valdheimildir á svæðum sem þeir höfðu ekki vald áður. Um það snýst þessi umræða fyrst og fremst, þ.e. hvort rétt sé að gera þetta svona eða hvort rétt sé að koma á einni nefnd eða einu stjórnvaldi sem fari með skipulagsmál á þessu svæði.

En eins og ég sagði, virðulegi forseti, í upphafi þá held ég að nauðsynlegt sé samhengisins vegna að rekja sögu skipulags- og byggingarmála hér á landi til að menn átti sig á henni. Sagan endurtekur sig og svo virðist vera í þessu máli sem og mörgum öðrum. Fyrstu lög sem samþykkt voru á Alþingi um byggingarmál voru samþykkt árið 1905. Þá var samþykkt frv. til laga um byggingarsamþykktir. Þessi gömlu frv. eiga það sameiginlegt að þau voru yfirleitt ágætlega unnin og á nokkuð góðu máli og skiljanlegu og það er annað en við hv. þingmenn eigum að venjast í dag þegar við reynum að stauta okkur í gegnum þau frv. sem úr ráðuneytunum koma. Þau eru á einhverju máli sem þrautin er þyngri að skilja.

Í athugasemdum við fyrsta lagafrv. sem samþykkt var um byggingarmál, segir svo, virðulegi forseti, og hefst þá tilvitnun:

,,Það er kunnugt, að nú sem stendur, byggir hver í kauptúnunum eins og hann vill, og á hvern þann hátt, er hann vill, ef hann að eins hefur fengið byggingarleyfi eiganda eða umráðamanns jarðarinnar; húsunum er því komið fyrir, eins og hverjum þykir sjer bezt henta, án þess nokkuð sje hirt um götur eða torg, eða að nokkurt samræmi sje milli húsanna, ekkert skeytt um brunahættu eða þessháttar. Það verður því að teljast mjög nauðsynlegt að koma skipulagi á þetta, og það eigi einungis í hinum stærri heldur í öllum kauptúnum landsins, og þegar ný kauptún eru löggilt, ætti það að vera hið fyrsta verk að afmarka bæjarstæðið, gjöra uppdrátt af því og miða niður götur og torg. Stjórnin ætlast til, að gott skipulag komist á í kauptúnunum, ef byggingarnefndir eru settar í þeim, og ef þær hafa fastar reglur til að fara eptir, og hefur því samið frumvarp þetta ...``

Það var nú þannig árið 1905 að þá sáu menn fyrst hversu nauðsynlegt var að hér væri gott skipulag á málunum og að byggðir gætu varla þróast af nokkru viti nema byggðin væri skipulögð eins og best mætti. Það má kannski jafna lýsingunni á því sem þarna kemur fram við það sem er að gerast núna á hálendinu. Nú eru landsmenn farnir að nýta hálendið í miklum mun meira mæli en áður hefur verið gert og kannski uppgötva miklu meira en áður hversu mikil auðlind felst í hálendinu. Eins og kemur fram í því sem ég las upp áðan, virðulegi forseti, þá töldu menn á þessum tíma nauðsynlegt að skipuleggja byggðir landsins svo að byggðin fengi að þróast eins og best yrði á kosið.

Við stöndum nákvæmlega frammi fyrir þessu á hálendinu núna. Nú er nýting á hálendinu orðin það mikil að til þess að við getum haft þar hönd í bagga með því hvernig þessi þróun verður þá þurfum við að koma skipulagi og böndum á það hvernig við nýtum hálendið. Nú hefur þessi þörf í raun færst frá byggðinni og upp á hálendið þannig að þessu má um margt saman jafna.

En það sem er sérstaklega merkilegt í þessum lögum frá árinu 1905 er að á þeim tíma var sveitarfélögunum falið það hlutverk að gera skipulagsuppdrætti og byggingarsamþykktir þannig að sú skipan sem komst á þessi mál í fyrra, fyrir ári þegar við færðum að fullu skipulags- og byggingarmál til sveitarfélaganna, á sér fordæmi í því hvernig málum var fyrir komið árið 1905. Með því var í raun og veru verið að hverfa aftur til fortíðar. Og þetta er dálítið merkilegt þegar menn skoða þá þróun sem átt hefur sér stað hér landi hvað varðar skipulags- og byggingarmál.

Virðulegi forseti. Mannanna verk eru ekki óskeikul og allt þarfnast endurskoðunar og eins var með skipulags- og byggingarmál hér á landi. Þó að menn vildu vel í upphafi, árið 1905, þá tókst sú skipan sem þar var komið á ekki nægjanlega vel. Á því herrans ári 1920 var því enn lagt fram á Alþingi frv. til laga sem hét frv. til laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Því frv. var ætlað að fella úr gildi þau lög sem giltu um byggingarsamþykktir því að á þeim tíma höfðu menn komist að þeirri niðurstöðu að það að sveitarstjórnir skyldu fara með skipulags- og byggingarmál hefði ekki reynst vel. Því þótti ljóst og nauðsynlegt á þessum tíma að breyta því fyrirkomulagi. Það var gert með lögum sem samþykkt voru árið 1920, þ.e. lög um skipulag kauptúna og sjávarþorpa.

Í greinargerð með því frv. er að finna þá röksemdafærslu sem býr að baki því að færa byggingar- og skipulagsmál, sem ekki voru nefnd þeim nöfnum á þessum tíma, frá sveitarfélögunum til ríkisins aftur. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr þingskjali röksemdafærslu þess hvers vegna menn töldu nauðsynlegt á þeim tíma að færa byggingar- og skipulagsmál frá sveitarfélögunum aftur til ríkisins. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Þótt lög þessi sjeu betri en ekki neitt,`` --- og er þá verið að vitna til laga frá 20. október 1905 --- ,,sjerstaklega hafi komið því til leiðar, að nokkrir bæir hafi gert byggingarsamþykktir, þá eru þau að miklu leyti bygð á röngum grundvelli. Þau leggja bæjarstjórnum starf á herðar, sem þær eru alls ekki vaxnar, því að það mun sanni næst, að fæstir bæjarstjórnarmenn vita öllu meira um skipulag bæja en t.d. úrsmíði og læknisfræði.`` --- Þetta sögðu menn árið 1920. --- ,,Hefir þetta leitt til þess, að þær hafa algjörlega leitt það hjá sjer að láta gera skipulagsuppdrætti af bæjunum, þótt örfáar undantekningar sjeu,`` --- og er þar vitnað til Akureyrar og Ísafjarðar --- ,,og lögin hafa að þessu leyti eigi náð tilgangi sínum. Lakast er þó, að engin minnsta von var um það, að skipulag bæjanna kæmist í viðunandi horf, þótt lögunum hefði verið stranglega framfylgt, því að það er áreiðanlega ofvaxið hverjum manni, sem ekki hefir staðgóða sjerþekkingu á málinu, að ráða stórlýtalítið fram úr skipulagi bæjar. Reynslan í Reykjavík er órækur vottur þess, og er þar þó um fleiri menn að velja en víðast annars staðar. Þrátt fyrir lög þessi er skipulag bæjanna enn á ringulreið. Byggingarnefndir bæta götum við og marka húsastæði, eftir því sem augnabliksþörf kallar að, án þess að í fullu, rækilegu hugsuðu sambandi sje við heildina. Verður þá oft erfitt að komast hjá því í smábæjum, að hending ein, eða hagur einstakra manna, ráði miklu um skipulagið.``

[17:00]

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti, þegar menn rökstuddu það á þeim tíma að færa byggingar- og skipulagsvald frá sveitarstjórnunum aftur til ríkisins. Nú er dálítill endurómur þeirra orða sem sögð voru í þessari gömlu greinargerð: ,,Þrátt fyrir lög þessi er skipulag bæjanna enn á ringulreið. Byggingarnefndir bæta götum við og marka húsastæði eftir því sem augnabliksþörf kallar að, án þess að í fullu, rækilega hugsuðu sambandi sé við heildina.``

Þetta er kannski, virðulegi forseti, röksemdafærslan fyrir því grundvallarviðhorfi sem jafnaðarmenn hafa borið fram á þinginu. Til þess að ná heildstæðu svæðisskipulagi á hálendinu verður að skipuleggja það sem eina heild. Það er ekki skynsamlegt að skipta hálendinu upp í margar ræmur. Þá er hættan sú að hver skipuleggi fyrir sig án tillits til heildarinnar. Í því samhengi þýðir ekkert að vísa til þessa svæðisskipulags sem nú er unnið að, enda hefur hvert sveitarfélag neitunarvald um það. Því er ekki ljóst hvort það komist nokkru sinni á leiðarenda eða verði samþykkt. Á þessari stundu liggur ekkert fyrir um það, þrátt fyrir að svæðanefndin hafi sem slík unnið ágætt starf og markvisst og ekkert yfir því að klaga.

Ég ætla, virðulegi forseti, að halda áfram með sögu skipulags- og byggingarmála. Þetta frv. sem ég vitnaði til áðan og dugði vel var samþykkt árið 1920 og stóð nánast óbreytt, þó með örlitlum breytingum, til ársins 1964. Þá voru í fyrsta skipti samþykkt sérstök skipulagslög sem fengu það nafn. Það var fyrsta skiptið árið 1964. Í því frv. kemur fram í fyrsta skiptið hugtakið samvinnunefnd. Í athugasemdum við lagafrv. það segir, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpi nefndarinnar er gert ráð fyrir heimild til þess að skipta landinu í skipulagsumdæmi eftir kjördæmum með sjö manna skipulagsnefnd í hverju umdæmi, sbr. 2.--4. gr. í frv. nefndarinnar. Í frumvarpi því sem hér liggur fyrir, er horfið frá þessari hugmynd. Hins vegar er gert ráð fyrir skipun samvinnunefndar, sbr. 3. gr. frv., þar sem svo hagar til að skipulag eins sveitarfélags verður ekki farsællega ákveðið án þess að tillit sé tekið til skipulagsins í nærliggjandi sveitarfélagi eða fleirum nærliggjandi sveitarfélögum.``

Síðar segir, með leyfi virðulegs forseta: ,,Ekki er gert ráð fyrir að ályktanir samvinnunefndar séu lokaákvarðanir um skipulagsmál, heldur verði skipulagsstjóri og hlutaðeigandi sveitarstjórn, hvor fyrir sig, að fjalla um málið áður en skipulagsuppdrættir samvinnunefndar geta hlotið staðfestingu ráðherra. Nefndin er því í eðli sínu ráðgefandi nefnd, en þó er ætlast til að hún eigi frumkvæði að gerð uppdrátta, sem vegna staðhátta eru ákvarðandi að einhverju leyti fyrir skipulag í fleirum en einu sveitarfélagi.``

Hér er augljóslega á ferðinni, og kemur kannski fyrst fram í þessari sögu, hugsunin á bak við frv. það sem hæstv. ráðherra lagði fram á Alþingi í fyrradag, þ.e. að samvinnunefndin sé fyrst og fremst ráðgefandi en ekki ætlað að hafa frumkvæði. Þá hugsun, sem hv. þm. fengu á sitt borð í formi frv. og hefur fengið nokkuð þokkalega umræðu hér á þinginu, má rekja allt til ársins 1964. Frumlegra en svo er það nú ekki. Þegar tvö ár eru í aldamótin er lausnin á innbyrðis vandamálum í ríkisstjórninni sótt til þankagangs sem ruddi sér nú til rúms í skipulagsmálum árið 1964 hér á landi. Þó verður að taka fram að skipulagsmál hafa tekið miklum framförum frá þeim tíma þó að ríkisstjórninni hafi kannski ekki hugkvæmst að leita eftir nýjum hugmyndum til þess að leysa úr þeim vandamálum sem hún stendur frammi fyrir. Enda fór það svo, virðulegi forseti, að þau lög sem samþykkt voru 1964 dugðu í 33 ár, þar til ný lög um skipulags- og byggingarmál voru samþykkt í fyrra.

Til þess að skilja samhengið í öllu þessu og þá hugsun sem felst í nýframlögðu frv. hæstv. umhvrh. er nauðsynlegt að skoða örlítið markmiðssetninguna í frv. því sem samþykkt var í fyrra. Þar segir, virðulegi forseti, í athugasemdum að markmið frv. séu, með leyfi forseta:

,,1. Einfaldari meðferð skipulags- og byggingarmála og aukið frumkvæði sveitarfélaga.

2. Skilgreind eru mismunandi stig skipulagsáætlana: deiliskipulag, aðalskipulag, svæðisskipulag og landsskipulag. Þessi stigsmunur er ekki í gildandi lögum en hefur verið útfærður í reglugerð, að landsskipulagi undanteknu.``

Þriðja markmiðið er kannski kjarni málsins: ,,Frumkvæði skipulagsgerðar (aðalskipulags og deiliskipulags) og ábyrgð er flutt til sveitarfélaga sem er samkvæmt gildandi lögum hjá skipulagsstjórn ríkisins. Því þyrfti ekki að leita heimildar ríkisvaldsins til að auglýsa skipulagstillögu eins og nú háttar til.``

Í þessu, virðulegi forseti, kemur fram sú hugsun sem birtist síðan í 3. gr. núverandi skipulags- og byggingarlaga, að frumkvæði til þess að gera svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag er fyrst og fremst hjá sveitarfélögunum. Aðrir hafa ekki frumkvæði. Sú nefnd sem nú á að setja á laggirnar hefur því í raun ekkert hlutverk. Henni er ekki ætlað að hafa neitt hlutverk, annað en það að veita umsagnir um aðalskipulag. Önnur verkefni eru henni ekki ætluð.

Það kemur skýrt fram í lögunum að frumkvæðið í breytingum á svæðisskipulagi er hjá sveitarstjórnum og þeirri nefnd sem koma á á fót og átti að vera hin stóra sátt milli andófsaflanna innan ríkisstjórnarflokkanna og umhvrh. Í henni er ekki að finna neitt bitastætt, því miður.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið þessa sögu til þess að menn átti sig á ástæðum þess að skipulags- og byggingarmál eru komin í núverandi horf og hvernig það samræmist þeirri sáttargjörð sem hæstv. umhvrh. bar inn í þingið í fyrradag. Ég held að það sé nauðsynlegt, til þess að átta sig á þessari sáttargjörð, að menn geti séð málið frá upphafi, hvernig það hefur þróast í gegnum tíðina og hvaða viðhorf hafa verið uppi hverju sinni.

Eðli málsins samkvæmt, virðulegi forseti, ætla ég að fara næst í margumrætt frv. hæstv. umhvrh. og reyna að rökstyðja, betur en ég hef gert hingað til, hvernig sú sáttargjörð sem þar er lögð fram sé á engan hátt viðunandi fyrir okkur jafnaðarmenn og aðra þá sem eru þeirrar skoðunar að ekki muni nást þjóðarsátt um skipulag á hálendinu nema þar fari nefnd eða ráð sem hafi veruleg áhrif á nýtingu hálendisins. Öðruvísi verður ekki þjóðarsátt. Það þýðir ekkert að koma með heimatilbúna nefndarskipan úr Framsfl. og bera hana fram sem einhverja sáttargerð. Það er engin sátt og getur aldrei falist í slíku.

Virðulegi forseti. Ég ætla þá að reyna að fara betur yfir þetta frv. og reyna að rökstyðja betur þær fullyrðingar sem settar hafa verið fram um það að þetta frv. sé á engan hátt til þess fallið að skapa þjóðarsátt um stjórnun, skipulagningu og nýtingu hálendisins. Ef við næðum sátt um það með einhverjum hætti væri kannski hægt að ná hér sögulegum sáttum milli þéttbýlis og dreifbýlis. Það væri nú ekki lítið ef hæstv. umhvrh. legði sín lóð á þær vogarskálar að ná þar sögulegum sáttum. Það væri bautasteinn sem hæstv. umhvrh. gæti verið stoltur af.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara aðeins yfir þetta frv. til laga um breytingar á skipulags- og byggingarlögum sem, eins og ég sagði í upphafi máls míns, er óhjákvæmilegt að komi til umræðu í tengslum við sveitarstjórnarfrv. sem hér liggur fyrir. Í fyrsta lagi segir þar, virðulegi forseti, í 1. mgr. 1. gr.:

,,Miðhálendið, sem markast af línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta, skal svæðisskipulagt sem ein heild.``

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir það hér áðan, þegar hann sagði að þessi lína yrði ekki dregin þannig að um hana verði alger sátt. Það er alveg ljóst. Miklar deilur eru og hafa verið um hvar beri að draga þessi mörk. Enn fremur er hugtakið ,,afrétt`` ekki notað alls staðar á landinu. Þannig að strax í 1. mgr. þessa frv. er ljóst að það verður mjög erfitt í framkvæmd og nánast ómögulegt.

Því verður jafnframt að halda til haga, virðulegi forseti, að samkvæmt gildandi lögum, og það er engin ætlun að breyta því með þessu frv., verður ekkert svæðisskipulag samþykkt nema hvert einasta sveitarfélag, sem land á að hálendinu, samþykki svæðisskipulagið. Með öðrum orðum hefur hvert einasta sveitarfélag, rúmlega 40 sveitarfélög, sem aðild eða land á að hálendi Íslands, neitunarvald um það hvort samþykkt verði svæðisskipulag af hálendinu eða ekki. Það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá.

Þess vegna er alveg ljóst, virðulegi forseti, að allt tal um svæðisskipulag er marklaust þar til fyrir liggur að öll 42 sveitarfélögin sem land eiga að hálendinu samþykki það.

[17:15]

Núna er sú svæðissamvinnunefnd, sem skipuð var 1993, að fara yfir þær umsagnir sem henni bárust. Eftir því sem ég kemst næst er henni ætlað að ljúka störfum 1. des., hæstv. umhvrh., og þá mun hún skila tillögum til skipulagsstjóra. Þar til fyrir liggur hvort hvert einasta sveitarfélag samþykki þetta svæðisskipulag þá er í raun og veru tómt mál að tala um að hér verði eitthvert svæðisskipulag. Það er kjarni málsins hvað varðar 1. mgr.

Í 2. mgr. þessa frv., sem kynnt var í fyrradag segir svo, með leyfi forseta:

,,Umhverfisráðherra skipar samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum.``

Síðan heldur áfram þar sem fram kemur hvernig manna eigi nefndina og það hefur komið fram í umræðunum og kannski ástæðulaust að rekja það frekar. En það staðfestir a.m.k. að til skuli vera nefnd sem eigi að hafa þetta nafn. Það að nefndin sé til fyllir þingmenn stjórnarliðsins sjálfstrausti um að eitthvað gott muni hún sennilega láta af sér leiða því að henni eru ekki falin nein verkefni. Ofurtrú á nefndaskipan í öllum málum er í raun og veru að verða verulegt lýti á samfélaginu. Nú þegar hefur komið fram að hæstv. umhvrh., sem einnig gegnir starfi hæstv. landbrh., hefur skipað frá því að hann kom í landbrn. --- og liggja nú ekki fyrir upplýsingar um umhvrn. --- tæplega sjötíu nefndir á tæplega tveimur og hálfu ári, því að fyrirspurnin varðaði aðeins, að mig minnir, 1. júlí 1997. Á rúmlega tveimur árum hefur hann skipað tæplega 70 nefndir og hér skal bæta einni við.

En í 3. mgr. frv., virðulegi forseti, er komið að því að fela nefndinni verkefni og það er ekki lítið sem hún á að gera. Ég held að nauðsynlegt sé að lesa það:

,,Samvinnunefndin fjallar um svæðisskipulag miðhálendisins og gefur Skipulagsstofnun umsögn um tillögu að aðalskipulagi sveitarfélaga á svæðinu og breytingar á þeim.``

Það er ekkert annað, virðulegi forseti. Sáttargjörðin er þá slík að búið er að skipa nefnd sem á að gefa umsögn um aðalskipulagið. Andófsöflin fallin frá fyrirvörum, allt fallið í ljúfa löð því að það er komin nefnd. (Gripið fram í: Er það ekki vel að verki staðið?) Virðulegi forseti. Ég kem kannski nánar að því síðar en vissulega felst í þessu ákveðin snilld, að snúa andófsöflunum af villu síns vegar með því að láta þá hafa nefnd, og það ekki litla nefnd, 18 manna nefnd. Það er aldeilis hægt að arranséra því að koma vinum og kunningjum í nefnd, átján stykki, vesgú. Það er ekki lítið.

En verkefni fær hún engin. Það er því aðalatriðið að þarna sé góður félagsskapur 18 manna en önnur verkefni fær hún ekki en að veita þessa umsögn ef sveitarfélögin hafa haft frumkvæði að tillögu að aðalskipulagi.

Síðan kemur í 4. mgr. 1. gr. þessa frv., virðulegi forseti, eitthvað sem er mjög erfitt að skýra, og reyndar menn hafa reynt að skýra og beina fyrirspurnum til hæstv. umhvrh. Ég ætla að halda áfram og beina þeirri fyrirspurn til umhvrh. Ég beindi þeirri spurningu m.a. til hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem ég held að sé oft á tíðum best lesinn og manna fróðastur um þessi mál. Hann treysti sér ekki til þess að svara því hvað hæstv. umhvrh. hafi dottið í hug að láta þessa nefnd gera. Hann gat ekki séð það.

Ég ætla að lesa 4. mgr. í þessari grein sem er um margt mjög merkileg:

,,Að loknum sveitarstjórnarkosningum metur samvinnunefnd hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið.``

Virðulegi forseti. Það kom fram greinargerð sem ég las og fylgdi núgildandi lögum að ,,allt frumkvæði að breytingum á svæðaskipulagi, deiliskipulagi og aðalskipulagi er hjá sveitarfélögunum.`` Það er alveg klárt. Það er sérstök markmiðslýsing í því frv. sem samþykkt var í fyrra, þar kemur fram að þetta frumkvæði er hjá sveitarfélögunum og í 3. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að þetta frumkvæði er þar. Frumkvæði að breytingu á þessum skipulagslögum er hjá sveitarfélögunum og engum öðrum. Það er kjarni málsins.

Í því ljósi verðum við að skoða þá stórkostlegu setningu sem hér stendur:

,,Að loknum sveitarstjórnarkosningum metur samvinnunefnd hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið.``

Er verið að breyta gildandi lögum? Er verið að færa frumkvæðið að því frá sveitarfélögunum til þessarar nefndar, eða hvað þýðir þessi setning? Er þetta snilldin sem sneri andófsöflunum frá villu síns vegar? Birtist hún þarna, virðulegi forseti? Birtist hún í því að fela einhverri nefnd að endurskoða eitthvað sem hún hefur ekki heimild til þess að endurskoða vegna þess að frumkvæðið er hjá allt öðrum aðilum?

Þegar ákvæðin eru skýrð saman kemur á daginn að þetta er algjörlega marklaust. En á þetta hoppuðu a.m.k. tveir þingmenn með fyrirvara, sem verða nú væntanlega varla kallaðir annað hér eftir en þingmennirnir með fyrirvarann, hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Ég kem reyndar nánar að því á eftir, virðulegi forseti.

Ég hef kannski gert fulllítið úr þessari nefnd vegna þess að henni er þó falið eitt hlutverk til viðbótar við það sem ég hef hér farið orðum um og það hlutverk er að finna í 2. gr. þessa frv. En þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Skipulagsstofnun skal leita álits samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins, sbr. 12. gr. a, á tillögum að svæðisskipulagi miðhálendisins sem unnið er að á vegum samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins sem skipuð var árið 1993, áður en Skipulagsstofnun gerir tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu þess.``

Það merkir að um það svæðisskipulag sem nú er unnið að og verið er að skoða umsagnir um og nefndin á að klára fyrir 1. des. fær 18 manna nefndin umsagnarrétt og má gefa álit. En það er tímabundið. Það er bara varðandi þetta eina svæðisskipulag. Hún hefur því a.m.k. tímabundið verkefni, að gefa álit um þetta.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, og er mér ekki hlátur í hug, að ég verð að taka ofan fyrir hæstv. umhvrh., eða hverjum þeim sem tókst að selja andófsöflunum þessar hugmyndir og telja þeim trú um það að með því móti yrði komið til móts við þá fyrirvara sem þeir hafa gert og fram koma í meirihlutaáliti félmn. sem ég er með hér hjá mér og ég held að það sé nú alveg nauðsynlegt á þessum tímapunkti ræðunnar að fara aðeins yfir. Því hver sem seldi þeim þessa hugmynd á mikið hrós skilið. Hann á mikið hrós skilið og kæmi mér í sjálfu sér ekkert á óvart þó lyfjafyrirtækin mundu kannski reyna að fá gen úr þeim manni og selja þau á ófriðarsvæði heimsins. Því að maður sem nær samkomulagi með ekki meira í höndunum en þetta (Gripið fram í.) hefur mikið til brunns að bera, virðulegi forseti.

Hæstv. umhvrh. hvarf nú úr sal en ég vænti þess að hann komi fljótlega og get svo sem haldið áfram ræðu minni en mun væntanlega kalla eftir honum.

Virðulegi forseti. Ég var kominn þar ræðu minni að fara yfir þann fyrirvara sem hv. þm. Pétur H. Blöndal og Siv Friðleifsdóttir höfðu á áliti meiri hluta félmn. Ég held að það sé nauðsynlegt í ljósi þess sem við höfum farið yfir að lesa þennan fyrirvara. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Pétur H. Blöndal og Siv Friðleifsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara og vilja að fram komi að þau telja rangt að skipta skipulags- og byggingarmálum miðhálendisins upp milli 42 sveitarfélaga sem í mörgum tilvikum ganga þvert á landslagsheildir, svo sem jökla, hraunbreiður, sanda og gróðurbelti. Réttara væri að miðhálendið, svæði innan línu dreginnar milli heimalanda og afrétta, væri ávallt skipulagt sem ein heild og að fulltrúar allra landsmanna taki þátt í ákvörðun um það skipulag.``

Þetta eru nokkuð skýr fyrirvari, virðulegi forseti, og hefur augljóslega það sama markmið og þingmenn jafnaðarmanna hafa talað fyrir í umræðunni, að nauðsynlegt sé að samræma og ná heildstæðu svæðaskipulagi á miðhálendinu. Það er nákvæmlega sama markmið og þingmenn jafnaðarmanna hafa sett fram. En það hefur komið fram í umræðunni, virðulegi forseti, að þau eru fallin frá þessum fyrirvörum. Þau eru fallin frá þeim. Á hvaða forsendum? Jú, það er komin nefnd. Það er komin nefnd í málið. Átján manna nefnd. Að vísu verkefnalaus en það er komin nefnd. Hv. þm. með fyrirvarann um heildstætt svæðaskipulag falla frá því af því að það var komin nefnd sem hefur fengið heitið Samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins. En þetta er nú það sem þau hoppuðu loksins á þegar þau áttuðu sig á því.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að það að menn gangi frá jafnskýrum fyrirvörum og þarna kemur fram, tveir hv. þm. falla frá fyrirvörum eins og þarna kemur fram, á grundvelli þessa hér, segir okkur ekki nema eitt. Segir okkur það eitt --- og gengur nú í salinn hv. þm. með fyrirvarann, (PHB: Var með fyrirvarann.) sem var með fyrirvarann og hoppaði á þessa snilldarhugmynd hæstv. umhvrh. gefur okkur aðeins þá tvo möguleika, að annaðhvort hafi þau ekki skilið um hvað málið snýst, ellegar þá að þeir tveir hv. þm. hafi tekið þá ákvörðun að hoppa á það sem þau hafa talið vera pólitískt skynsamlegt, hafi velvilja landsmanna, þ.e. meiri hluti landsmanna fylgi þeim viðhorfum, og þau hafi viljað vera þar. Einhverja bakþanka hafa þau fengið því að um leið og fyrsta bjarghring var ýtt á flot hoppuðu þau á hann þó að það hefði ekkert með þann fyrirvara að gera sem þau settu fram í félmn. Menn hafa í þessari umræðu leyft sér að setja það fram að viðhorf, sem jafnaðarmenn hafa m.a. haft uppi, séu lýðskrum, en ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég held að ekkert í þessari umræðu komist nær því að vera lýðskrum en þegar þessir tveir hv. þm. falla frá skýrum fyrirvara á grundvelli þess sem ekkert er. Það er alveg augljóst að þeim hefur liðið illa úti í horni og þau hefur vantað bjarghring til að komast til byggða.

Ef það eitt að skipa 18 manna verkefnalausa nefnd dugir þeim til þess að falla frá þessum fyrirvara, virðulegi forseti, þá hefur ekki verið djúpt á sannfæringunni í málinu.

[17:30]

Það er í raun og veru, virðulegi forseti, dálítið sorglegt, bara sorglegt þegar menn berrassa sig svona gersamlega eins og þessir tveir hv. þm. hafa gert í þessu máli. Satt best að segja hef ég engan sérstakan áhuga á að halda áfram umræðu um þetta, um nákvæmlega þennan fyrirvara og hvernig menn hafa fallið frá honum vegna þess að þetta er bara sorglegt og þinginu til vansa. Ég verð að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti.

Ég sagði í upphafi máls míns að ágreiningurinn í þessu máli er fyrst og fremst sá hvort skipta eigi þeirri auðlind sem miðhálendið er upp í ræmur og fela einstökum sveitarfélögum að skipuleggja það eða hvort skipuleggja eigi þetta sem eina heild. Um það snýst ágreiningurinn. Hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að fara þá leið sem birtist í sveitarstjórnarlögum þar sem lögsagan er færð inn á miðhálendið og með því móti eru þeim færð þau réttindi sem sveitarfélög hafa og þær valdheimildir sem þau hafa í ákveðnum málaflokkum, þar á meðal í skipulags- og byggingarmálum. Þegar við ræðum þetta verðum við að ræða þetta út frá þeim forsendum að sveitarfélögin hafa algert frumkvæði og ráða öllu skipulagi, hvort sem er svæðaskipulag, deiliskipulag, eða aðalskipulag. Á þeim forsendum geta þau skipulagt þessi svæði, hvert eftir sínu höfði. Það er einfaldlega þannig. Allt tal um annað er ekki í samræmi við raunveruleikann, því miður, virðulegi forseti. Og nákvæmlega á þeim stað er ágreiningurinn milli þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið færð fram. En ég frábið mér, eins og fram hefur komið í ræðum margra hv. þm. sem hér hafa talað, að þau sjónarmið sem við höfum sett fram og byggja á því að nauðsynlegt sé að hálendið sé skipulagt sem ein heild byggi á einhvers konar vantrausti á sveitarstjórnarmönnum í landinu. Það er alveg fráleitt og til þess eins fallið að reyna að drepa vitræna umræðu um málið.

Virðulegi forseti. Ég hef farið hér yfir sögu skipulags- og byggingarmála í nánast heila öld og ekki notað til þess nema u.þ.b. 50 mínútur og ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég held að menn gerist ekki miklu gagnorðari, að fara yfir næstum heillar aldar sögu á tæplega 50 mínútum. Ég held að sú yfirferð sem ég hef farið í sé til þess fallin að skýra þetta mál enn betur þannig að menn átti sig á því að um þá leið sem hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að fara getur ekki orðið nein sátt eins og hún er lögð upp og áframhaldandi deilur munu vera með þjóðinni um skipulag hálendisins.