Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:40:58 (6090)

1998-04-30 17:40:58# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:40]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka ágætum þingmanni sem lauk ræðu sinni áðan fyrir gott yfirlit um sögu skipulagsmála á þessari öld. Spurning hvort tímasetningin að taka eina kennslustund í það núna, nokkurn veginn u.þ.b. kennslustund, 45--50 mín., hafi verið rétt tímasetning. Það hefði kannski verið hægt að gera það síðar þegar þingið er ekki í svo miklum önnum eins og nú er. Annað vakti athygli mína í ræðu hv. þm., hversu honum virðast hafa verið hugleikin þau ummæli einstakra þingmanna að viðhorf alþýðuflokksþingmannanna í þessari umræðu lýsi vantrausti á sveitarstjórnarfólkið. Það er eins og það hafi eitthvað komið við kaunin á einhverjum. Ég hygg að ýmsir séu nú samt sem áður þeirrar skoðunar að varla sé hægt að hlýða á þessa umræðu öðruvísi en velta slíkum hlutum fyrir sér.

En það sem mig langaði sérstaklega að benda hv. þm. á er að hann fjallaði um að það yrði erfitt að koma sér saman um þessa línu sem markaði svokallað hálendi þar sem segir í frv. sem hér hefur verið lagt fram, með leyfi forseta:

,,Miðhálendið, sem markast af línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta, skal svæðisskipulagt sem ein heild.``

Í þeim lögum sem núv. svæðisskipulagsnefnd miðhálendisins vinnur samkvæmt segir að svæðið markist í aðalatriðum af línu sem dregin sé milli heimalanda og afrétta.

Sú stefna var mótuð í lögunum frá 1993 sem lögð voru fram af hæstv. þáv. umhvrh., þingmanni Alþfl. og unnið hefur verið samkvæmt því við gerð svæðisskipulagsins, þannig að það liggur fyrir og það sem hér er lagt til er nákvæmlega það sama og þá var samþykkt og löggjafinn hefur nú þegar samþykkt.

Mig langar aðeins líka að benda hv. þm. á af því hann veltir því mjög fyrir sér hvort hin nýja svæðisskipulagsnefnd hafi yfir höfuð eitthvert umboð miðað við það sem segir í 3. gr. núv. skipulags- og byggingarlaga um að sveitarstjórnir annist gerð svæðis- og aðalskipulags. (Forseti hringir.) Ég sé, hæstv. forseti að tíma mínum er lokið. Ég kem kannski að þessu í seinni tíma mínum til andsvars.