Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:51:49 (6095)

1998-04-30 17:51:49# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:51]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Kjarninn í deilum manna í þessu máli snýst um hvort komið verði á heildstæðu svæðisskipulagi á grundvelli þeirra tillagna sem hæstv. ríkisstjórn hefur borið fram eða hvort nauðsynlegt sé að gera það á einhvern annan hátt. Sú sáttaleið sem reynd var og hæstv. umhvrh. bar inn á þingið í fyrradag, því þetta er nú þriðji dagurinn sem við ræðum þetta mál, er engin sátt. Það er ekkert efni í því frv. Þeirri nefnd, þar sem fleirum er gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum að með setu í þeirri nefnd, er ekki fengið neitt hlutverk. Henni eru ekki fengin nein verkefni. Verið er að setja á fót einhvers konar málamiðlunarnefnd sem, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, tókst að selja einhverjum andófsöflum í stjórnarflokkunum á ótrúlegan hátt. Ég tel mjög mikilvægt að það komi í ljós hverjum tókst að selja þessa hugmynd því þetta er eitthvert mesta afrek sem hér hefur verið unnið. En það er alveg ljóst að engin sátt verður með því að skipa nefnd sem hefur engin verkefni því tekist er á um það hvort það takist að ná heildstæðu svæðisskipulagi með því að skipta landinu upp í ræmur eða hvort það eigi að gera þetta öðruvísi. Það verður engin sátt um að skipa nefnd sem er verkefnalaus.