Aldamótavandamálið í tölvukerfum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 10:31:07 (6099)

1998-05-04 10:31:07# 122. lþ. 116.1 fundur 583. mál: #A aldamótavandamálið í tölvukerfum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[10:31]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 990 hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. forsrh. um aldamótavandamálið í tölvukerfum. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að taka á þeim vanda sem fyrirsjáanlegur er í tölvukerfum, tæknibúnaði og tölvutengdum viðskiptum og varðar ártalið 2000?

2. Hverjir eru fjárhagslega ábyrgir fyrir truflunum og kostnaði sem hlýst af þessum aldamótavanda, bæði að því er varðar kostnað við endurbætur á búnaði svo og rekstrartruflanir og annað tjón?

3. Hvenær er þess að vænta að fyrir liggi úttekt á rekstraröryggi opinberra kerfa og þáttum sem snúa að almenningi vegna þessa vandamáls?

Hér er spurt um mál sem verið hefur til umræðu um nokkurt skeið. Þó vakti það athygli, eða vekur nú a.m.k., að þegar hæstv. ríkisstjórn gaf út yfirlit um framtíðarsýn sína um upplýsingasamfélagið í október 1996, þá kom ekkert fram varðandi úrlausn þeirra vandamála sem tengjast árinu 2000. Ríkisendurskoðun gaf hins vegar út yfirlit um þetta mál, Ártalið 2000 --- Endurskoðun upplýsingakerfa, í júlí 1997. Í þeim bæklingi er ljósi varpað á ýmis af þeim vandamálum sem þessu tengjast.

Á liðnum vetri var haldin ráðstefna um þessi mál, sérstaklega með forstöðumönnum ríkisstofnana að skilningur á þessu máli væri mjög takmarkaður hjá, a.m.k. hjá hluta þessara stofnana. Skýrr held ég að hafi snemma farið af stað að skoða þessi mál, það er auðvitað mikilvægt, en hjá mörgum yfirmönnum stofnana var takmörkuð þekking og lítið farið að taka á þeim vanda sem hér blasir við.

Nú vil ég ekki vera að mála skrattann á vegginn eða halda því fram að ekki sé hægt að leysa þau vandamál sem hér koma upp, þó er ljóst að það þarf að einbeita sér að þessum málum. Það hefur komið fram að í nágrannalöndum okkar á að verja á stórum upphæðum til þess að glíma við þetta vandamál, m.a. að forgöngu bresku ríkisstjórnarinnar. Ég tel mjög þýðingarmikið að ríkisstjórn Íslands beiti sér fast og ákveðið í þessu máli til að reyna að koma í veg fyrir tjón, bæði í opinberum kerfum og einnig hvað almenning í landinu varðar.