Aldamótavandamálið í tölvukerfum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 10:34:22 (6100)

1998-05-04 10:34:22# 122. lþ. 116.1 fundur 583. mál: #A aldamótavandamálið í tölvukerfum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[10:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur lagt fram fyrirspurn og gert grein fyrir henni.

Á undangengnum missirum hafa ýmsir opinberir aðilar brugðist við þeim vanda sem fyrirsjáanlegur er í tölvukerfum og ýmsum tæknibúnaði vegna ártalsins 2000. Hér verða nokkur dæmi nefnd um það sem þegar hefur verið rætt og reyndar gat hv. þm. um sum þessara dæma.

Í júlí 1997 gaf Ríkisendurskoðun út skýrsluna Ártalið 2000 --- Endurskoðun upplýsingakerfa, þar sem vandamálinu er lýst, fjallað um ástand mála hjá ríkisaðilum og bent á leiðir til úrlausnar. Skýrslan er aðgengileg, bæði á pappír og veraldarvef.

Í október 1997 dreifði ráðgjafarnefnd um upplýsingar og tölvumál, RUT-nefnd svokölluð, sérstöku fréttabréfi til ríkisstofnana og ráðuneyta sem eingöngu fjallaði um vanda vegna ártalsins 2000. Í desember 1997 undirritaði fjmrn. fyrir hönd ríkisins samning við Skýrr hf. um að gera nauðsynlegar breytingar á öllum kerfum ríkisins sem þar eru vistuð og verður breytingum og prófunum lokið fyrir aldamót.

17. mars sl. hélt verkefnastjórn um upplýsingasamfélagið, RUT-nefndin og Ríkiskaup ásamt fleirum, fjölsótta ráðstefnu um vandamál tengd ártalinu 2000. Markmið ráðstefnunnar var að vekja athygli á vandanum, benda á leiðir til lausnar og hvetja fyrirtæki og stofnanir til að bregðast við í tíma. Áður höfðu verið haldin fjölmörg erindi um þennan vanda á fundum og ráðstefnum sem opinberir aðilar og einkaaðilar stóðu fyrir. Ríkiskaup, RUT-nefnd og verkefnastjórn um upplýsingasamfélagið hafa unnið saman að ýmsum verkefnum sem komið geta ríkisfyrirtækjum, einkafyrirtækjum og sveitarfélögum að gagni við lausn þessa vanda. Meðal annars hafa verið haldnir fundir með kaupendum og seljendum búnaðar, staða þessara mála hjá ríkisfyrirtækjum könnuð, óskað eftir upplýsingum hjá seljendum véla og hugbúnaður um það hvort búnaður þeirra ráði við ártalið 2000 og settur upp gagnagrunnur sem verið er að safna í upplýsingum um hvort vélar og hugbúnaður á íslenskum markaði ráði við ártalið 2000.

Þrátt fyrir að ýmsir opinberir aðilar hafi unnið ötullega að því að kynna vandamálið og benda á lausnir er nú talið nauðsynlegt að fela einum aðila yfirumsjón með þeim málum. Því hefur nú verið ákveðin, að frumkvæði verkefnastjórnar um upplýsingasamfélagið, skipun nefndar um vandamál sem tengjast ártalinu 2000. Nefndin mun gegna því hlutverki að vera til ráðuneytis við að upplýsa, benda á og vara menn við hættunni sem fyrir hendi er. Henni er einnig ætlað að upplýsa þá um hvernig standa beri að lausn þeirra mála sem tengjast ártalinu 2000 í upplýsingakerfum og tækjabúnaði. Hún mun beina athygli sinni jafnt að einkafyrirtækjum sem ríkisfyrirtækjum. Óskað hefur verið eftir tilnefningum í nefndina frá Ríkiskaupum, RUT-nefnd, Seðlabanka Íslands, verkefnastjórn um upplýsingasamfélagið og Vinnuveitendasambandi Íslands og liggja þær tilnefningar nú fyrir. Því mun fljótlega skipað í nefndina.

Eigandi kerfis eða búnaðar, hvort sem hann er einkafyrirtæki eða opinber stofnun, mun bera kostnað af lagfæringum, forritun og öðrum nauðsynlegum breytingum vegna ártalsins 2000. Hið sama á við um hugsanlegar rekstrartruflanir í eigin rekstri vegna vanrækslu eða mistaka við breytingar. Hvort rekendur kerfa geti verið ábyrgir gagnvart þriðja aðila er erfitt að segja til um en e.t.v. verða dómstólar að lokum að skera úr um það atriði.

Eins og áður hefur komið hefur fram hefur verið samið við Skýrr hf. og er með þeim samningi tryggt að öll kerfi í eigu ríkisins sem þar eru vistuð virki rétt um aldamótin. Ýmis nýleg kerfi svo sem gjaldkerakerfi og kerfi á vegum dóms- og kirkjumrn. voru frá upphafi gerð til þess að fara rétt með öll ártöl og þarf því ekki að breyta þeim. Hins vegar eru breytingar á kerfum, sem einstaka ríkisstofnanir eða ráðuneyti hafa keypt, á ábyrgð viðkomandi aðila en vænta má þess að hin nýja nefnd stuðli að því að það verði gert tímanlega.

Ég vil taka undir þau orð hv. fyrirspyrjanda að hér eru meiri vandamál en menn höfðu gert gert sér grein fyrir og á eftir að kosta mikið að koma í kring þeim lausnum sem hér eru nefndar þannig að menn verði ekki í vandræðum þegar þetta ártal skellur á, á fyrir fram gefnum tíma náttúrlega.